Guðrún Ingunn Magnúsdóttir fæddist 15. maí 1942. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 3. desember 2022. Kjörforeldrar hennar voru hjónin í Króktúni í Landsveit Magnús Andrésson, f. 3.6. 1897, d. 24.1. 1983, og Hafliðína Hafliðadóttir, f. 17.8. 1898, d. 17.7. 1984.

Hún átti 11 systkini en þau eru: Gísli, Bjarney Guðrún, Erla, Eybjörg Ásta sem er látin, Magnús Hafliði, Eyrún, Einar Steindór, drengur er lést í frumbernsku, Guðni Örvar og Ingi.

Sonur hennar er Magnús Benediktsson, f. 19. júlí 1973. Kona hans er Rakel Ýr Björnsdóttir, f. 16. janúar 1987, og þau eiga þrjú börn: 1) Baltasar Breka, f. 2012, 2) Laufeyju Líf, f. 2019, og 3) Matthías Mána, f. 2021.

Inga, eins og hún var jafnan kölluð, ólst upp í Króktúni, en eftir að hún fór að heiman vann hún við ýmis störf. Hún fór m.a. á vertíð til Eyja, en vann lengst af verkakvennavinnu m.a. hjá Ríkisspítölunum, Hótel Sögu og Reykjavíkurborg. Síðustu æviár sín áttti hún heima í Reykjanesbæ.

Útför hennar verður gerð frá Skarðskirkju í Landsveit í dag, 17. desember 2022, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag fylgjum við til hinstu hvílu Guðrúnu Ingu Magnúsdóttur, eða Ingu, eins og allir þekktu hana. Hún ólst upp í Króktúni í Landsveit, dóttir hjónanna Magnúsar og Höllu. Inga kom inn í líf okkar systkina í Skarði þegar Maggi bróðir kom að búa hjá okkur, þá 8 ára gamall. Við vitum að það var sársaukafullt fyrir Ingu að láta frá sér barnið sitt en hún þekkti líka sínar eigin takmarkanir. Hún var líka alltaf mjög þakklát að hann kom að Skarði og fékk að alast þar upp. Við duttum líka heldur betur í lukkupottinn að fá Magga sem bróður okkar. Eftir að Maggi flutti til okkar hittum við Ingu oft á ári og þá sérstaklega rétt fyrir jól. Hún var mikið jólabarn og passaði alltaf upp á að senda okkur öllum jólagjafir. Stundum voru sumar gjafirnar óvenjulegar en hvað það var alltaf gaman að opna gjafir frá Ingu. Það má svo sannarlega segja að alltaf kom eitthvað óvænt upp úr pakkanum. Þegar við urðum eldri var hefð að fara með pakka til Ingu og gaman að hitta hana í þessum jólagjafaferðum. Það gladdi hana þegar einhver kom með pakkana til hennar og hún vildi alltaf vera að gefa eitthvað og gauka að manni konfektmolum. Það verður undarlegt að hitta ekki Ingu fyrir jólin í ár.

Það má segja að Inga hafi verið orðin smá fræg á seinni árum. Hún elskaði að hringja inn á næturvaktina á Rás 2. Margir þekkja röddina hennar og ekki síður þennan smitandi og háværa hlátur. Uppáhaldið hennar var Guðni Már og það var oft sprenghlægilegt þegar Inga (notaði oft Guðrúnar nafnið til að kynna sig) var að biðja um óskalög og segja sögur af sér. Þar gat hún oft látið gamminn geisa.

Inga kvaddi þennan heim að morgni laugardagsins 3. desember sl. en allt fram á síðustu stundu var hún mjög sjálfstæð og dugleg við sitt.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur elsku Maggi, Rakel og börn.

Systkinin frá Skarði,

Borghildur, Guðni, Sigríður Theodóra og Laufey Guðný.

„Ingvar minn? Sæll elskan mín. Hvað er að frétta?“ Svona byrjuðu flest símtölin frá Ingu. Ég man fyrst eftir henni þegar ég var barn en þá bjó Inga á Hvolsvelli. Þar tók Inga alltaf á móti manni með útbreiddan faðminn og ótal kossum. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur sá maður hana mun sjaldnar þangað til fyrir tæpum 20 árum að ég var beðinn um að keyra fyrir hana jólapakka og jólakort úr Reykjavík austur í Rangárvallasýslu. Það var auðsótt og hef ég gert það árlega. Með okkur skapaðist góður vinskapur og hringdi Inga reglulega í mig æ síðan.

Inga var mikið jólabarn og byrjaði að huga að jólagjöfunum löngu fyrir jól. Við gáfum hvort öðru jólagjöf og hún hringdi alltaf á aðfangadagskvöld til að þakka fyrir sína gjöf sem hún var alltaf svo þakklát fyrir. En þó Inga hafi verið spennt yfir að opna sína gjöf var hún þó enn spenntari að vita hvernig mér hefði líkað við jólagjöfina frá henni. Ég fann að þetta skipti hana svo miklu máli að ég fór að taka gjöfina frá henni með mér til Bretlands þar sem ég held önnur hver jól til að þurfa ekki að svekkja hana á því að ég myndi opna gjöfina þegar ég kæmi aftur heim til Íslands eftir jólin.

Inga var afar stolt af uppruna sínum úr Landsveit og mikill Rangæingur í hjarta sínu. Hún var dýravinur og mikið fyrir hunda. Hún var líka mannavinur og sá það besta í fólki. Hún trúði alla jafnan ekki að það væri slæmt í fólki. Þannig lét hún sumt fólk fara illa með sig sem hún treysti. Hún var góð sál, bar umhyggju fyrir sínum, talaði af mikilli væntumþykju um foreldra sína og um Magga son sinn sem hún var ákaflega stolt af. Mörg samtölin byrjuðu á því að hún spurði hvort ég hefði ekki örugglega frétt að Maggi væri kominn með nýja vinnu, orðinn ritstjóri eða framkvæmdastjóri, og alltaf hringdi hún til að segja mér að von væri á nýju barnabarni.

Inga hélt líka mikið upp á Charles og spurði mig frétta af honum í hvert skipti og heimtaði að ég kæmi með hann í heimsókn til sín upp á Ásbrú þegar hún vissi að ég væri að skutla honum eða sækja út á flugvöll.

Inga fékk far með mér austur úr Reykjavík og til baka nokkur skipti þegar hún átti erindi. Bílferðirnar austur voru oft ansi skemmtilegar. Það leið varla mínúta af þögn í bílnum á leiðinni. Inga var víðlesin og fróð og hafði gaman af því að segja manni frá ýmsu, m.a. af fólki frá gamalli tíð en hún las mikið af ævisögum og sagnfræðilegum fróðleik. Svo gátum við líka rætt um stjórnmál og þá gat hitastigið í bílnum hækkað ef hitti á málefni sem við vorum ekki sammála um. Að ég tali nú ekki um ef maður tók ekki nóg undir lofsamlegar lýsingar á mönnum sem hún hafði dálæti á. Hún stóð þétt með þeim sem hún hafði aðdáun á.

Andlát hennar bar nokkuð bratt að. Ég trúi því að hún sé komin þangað sem hún sjálf trúði að hún færi – en Inga var mjög trúuð. Ég enda þessi fátæklegu orð á sama hátt og Inga kvaddi mig alltaf: „Guð geymi þig, Inga mín.“

Ég votta Magga, Rakel og börnunum innilegustu samúð. Blessuð sé minning Guðrúnar Ingunnar Magnúsdóttur frá Króktúni í Landsveit.

Ingvar P.

Guðbjörnsson.