Jólaflug Flugmennirnir Bergur Már Bergsson, til vinstri, og Pétur Jökull Jacobs í Eyjum í gær með Írisi Róbertsdóttir bæjarstjóra á milli sín.
Jólaflug Flugmennirnir Bergur Már Bergsson, til vinstri, og Pétur Jökull Jacobs í Eyjum í gær með Írisi Róbertsdóttir bæjarstjóra á milli sín. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Farþegar voru í flestum sætum, báðar leiðir, þegar Ernir flaug til Vestmannaeyja í gær. Með sérstökum stuðningi innviðaráðuneytisins er Eyjaflug nú hafið að nýju eftir að hafa legið niðri frá í maí síðastliðnum

Farþegar voru í flestum sætum, báðar leiðir, þegar Ernir flaug til Vestmannaeyja í gær. Með sérstökum stuðningi innviðaráðuneytisins er Eyjaflug nú hafið að nýju eftir að hafa legið niðri frá í maí síðastliðnum. Ernir mun fram á vor fljúga þrisvar í viku til og frá Eyjum. Á þriðjudögum eru ferðirnar tvær, að morgni og undir kvöld, og geta menn þá sinnt sínum erindum annaðhvort í Eyjum eða Reykjavík og komist heim að kvöldi. Á föstudögum er svo ein ferð fram og til baka.

„Við þurfum að hafa meira en eina tengingu við fastalandið og fyrir því finnum við vel þegar áætlun Herjólfs raskast. Krafa okkar gagnvart ríkinu um að tryggja reglulegar flugsamgöngur milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur hefur því verið afar þung,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sem mætti á flugvöllinn í Eyjum í gær og heilsaði upp á flugmenn Ernis.

„Með þeim ferðum sem nú hefjast er ákveðnu lágmarki náð. Stóri slagurinn er hins vegar eftir og sá er að koma á ríkisstyrktu Eyjaflugi til lengri tíma. Við höfum góðar væntingar og góð orð um að svo verði. Þá er ósk okkar sú að ferðir verði daglegar; svo miklu máli skipta góðar samgöngur íbúa og atvinnulíf hér,“ segir bæjarstjórinn um samgöngumálin. sbs@mbl.is