Eyjólfur Ármannsson
Eyjólfur Ármannsson
Nú þegar Alþingi Íslendinga, 153. löggjafarþingið, er á lokametrunum fyrir jólahlé er rétt að skoða hvaða alþingismenn hafa verið málglaðastir á haustþinginu. Þar trónir á toppnum nýr maður, Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins fyrir Norðvesturkjördæmi

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nú þegar Alþingi Íslendinga, 153. löggjafarþingið, er á lokametrunum fyrir jólahlé er rétt að skoða hvaða alþingismenn hafa verið málglaðastir á haustþinginu. Þar trónir á toppnum nýr maður, Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins fyrir Norðvesturkjördæmi. Eyjólfur er því ræðukóngur Alþingis á haustþinginu.

Staðan var sú í gærmorgun að Eyjólfur hafði flutt 309 ræður, athugasemdir og andsvör, og talað í samtals 1.005 mínútur. Það gera tæplega 17 klukkustundir samanlagt, sem hann hefur staðið í ræðustól Alþingis, síðan þingið hófst í september.

Björn Leví talað næstmest

Næstur Eyjólfi kemur margfaldur ræðukóngur frá fyrri þingum, Píratinn Björn Leví Gunnarsson. Hann hefur flutt 307 ræður/athugasemdir og talað í samtals 881 mínútu. Í næstu sætum koma Gísli Rafn Ólafsson Pírati (231/636), Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins (152/592), Andrés Ingi Jónsson Pírati (204/580), Inga Sæland, Flokki fólksins (143/557) og Jóhann Páll Jóhannsson, Samfylkingu (171/460).

Sá ráðherra sem mest hefur talað er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra (184/475) og þarnæst Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (102/292).

Þegar ræðulistinn er skoðaður vekur athygli hve Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, hefur verið öflug í umræðunni. Hún hefur flutt 97 ræður og athugasemdir og talað í 282 mínútur. Hún hefur komið oftar í ræðustól Alþingis en margir kjörnir þingmenn.

Það sem af er 153. löggjafarþinginu höfðu þingmenn flutt 2.512 ræður og gert 3.000 athugasemdir. Þeir höfðu því farið í ræðustólinn oftar en 5.500 sinnum og talað samtals í 256 klukkustundir tæpar.

Fjölmargir varaþingmenn hafa tekið sæti á Alþingi á haustþinginu. Alls hafa 88 tekið til máls það sem af er, en kjörnir þingmenn eru sem kunnugt er 63 talsins.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson