Tókýó Forsætisráðherrann Fumio Kishida á blaðamannafundi í gær.
Tókýó Forsætisráðherrann Fumio Kishida á blaðamannafundi í gær. — AFP/David Mareuil
Forsætisráðherra Japans, Fumio Kishida, kynnti á blaðamannafundi í gær mikla aukningu fjármagns til varnarmála landsins. Hann sagðist staðráðinn í því að vernda landið og japönsku þjóðina á þessum sögulegu viðsjárverðu tímum

Forsætisráðherra Japans, Fumio Kishida, kynnti á blaðamannafundi í gær mikla aukningu fjármagns til varnarmála landsins. Hann sagðist staðráðinn í því að vernda landið og japönsku þjóðina á þessum sögulegu viðsjárverðu tímum. Kishida sagði að Japan myndi eyða 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála til að tryggja öryggi landsins.

Talið er að Kishida hafi mikinn stuðning landsmanna við þessar breytingar sem eru þær mestu í Japan í áratugi. Frumvarp Kishida var samþykkt í þinginu í gær og í því kemur fram að áætlað er að ná markmiðinu um 2% fyrir árið 2027. Þessi breyting er í reynd tvöföldun á því sem Japan eyðir núna í varnarmál og er í takt við það sem mælst er til í löndum Atlantshafsbandalagsins.

Viðsjárverðir tímar

„Í löndunum í kringum okkur er verið að styrkja kjarnorkuvopnaeign, og mikil uppbygging í hermálum og í augsýn eru tilraunir til að koma á breytingum,“ sagði hann á fundinum og vísaði einnig í stríð Rússa gegn Úkraínu sem dæmi um breytta heimsmynd.

Í frumvarpinu segir að yfirvöld í Kína hafi aldrei verið meiri ógn við stöðugleika Japans og heimsins alls. Aukið fjármagn verður nýtt til að kaupa vopn sem auðvelda gagnsóknir á hættuleg eldflaugasvæði sem Japan stendur hætta af. Kish­ida sagði að eldflaugakerfi Japana væri ekki nægjanlegt og meiri loftvarnir gætu skipt sköpum í framtíðinni. Lagt er til að keyptar verði allt að fimm hundruð Tomahawk-­eldflaugar frá Bandaríkjunum. „Japan er enn á móti kjarnorkuvopnum og aukin fjárlög til varnarmála breyta því ekki að við erum friðsöm þjóð.“