Jarðvinna Sumum finnst þetta starf nálgast að vera list, segir Sigurður Guðmundsson, hér á ýtunni austur á Selfossi nú í vikunni.
Jarðvinna Sumum finnst þetta starf nálgast að vera list, segir Sigurður Guðmundsson, hér á ýtunni austur á Selfossi nú í vikunni. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Starfið á vélunum er skemmtilegt og skapandi. Verkin þarf að taka með útsjónarsemi og lesa í aðstæður. Meta hvernig best hentar að ryðja úr hlössum, búa til vegi, jafna kanta eða ýta upp mönum. Sumum finnst þetta starf nálgast að vera list,“ segir Sigurður Guðmundsson jarðýtustjóri. Hann býr í Flóanum fyrir austan fjall og minntist þess með góðum vinum nú í september síðastliðnum að 60 ár voru liðin frá því hann hóf jarðýtuferil sinn. Sigurður sem stendur á áttræðu vinnur enn fullan vinnudag hjá Borgarverki hf. sem er verktaki við gatnagerð í Björkurstykki, sem er nýjasta íbúðahverfið á Selfossi. Verkefnið er spennandi, eða svo finnst Sigurði sem slær ekki af.

Kúpla saman og lyfta tönn

Segja má að síðasti hluti 20. aldar hafi verið landnámstími í sveitum landsins. Víðfeðm lönd voru brotin til ræktunar og til þess þurfti stórvirkar vinnuvélar og verkhaga menn. „Þetta höfðaði til mín. Leikföng mín í sandinum heima voru ekki bílar, heldur trékubbar með tönn,“ segir Sigurður – jafnan kallaður Denni. „Faðir minn, Guðmundur Sigurðsson, var bóndi og áhugasamur ræktunarmaður og kunningi Sigfúsar Öfjörð sem var jarðýutukóngur á Suðurlandi. Svo fór haustið 1962 að Sigfús kom heim í sveitina og bauð mér vinnu, sem ég þáði. Var settur á ýtu og kennt hvernig ætti að setja vélina í gír, kúpla saman og lyfta tönninni. Flóknari var undirbúningurinn ekki og ferillinn var hafinn.“

Fyrsta ýtan sem Denni starfaði á var International TD9, sjö tonna vél með 38 hestöfl. Verkefnin voru framan af einkum og helst í tenglum við jarðrækt. Ágæti framræslu votlendis er umdeilt í dag en fyrr á árum voru grafnar þúsundir kílómetra af skurðum á Íslandi, þar sem mýrum var breytt í tún. Moldarhraukar úr skurðum voru jafnaðir út með ýtunni og í slíkum verkum var Denni víða á bæjum fyrir Ræktunarsamband Flóa og Skeiða. Hluta þeirrar starfsemi tók Borgarverk síðar yfir og hefur viðmælandi okkar starfað þar sl. átta ár.

Maður í moldinni

„Ég var oft og víða úti í sveitunum í því að jafna út þúfur og flög. Fór yfir með ýtunni; tönnin fremst og herfi í eftirdragi. Svona voru stór stykki tekin og ekkert óvænt gerðist, þó trú margra sé að í jarðvinnu þurfi að taka tillit til álfa, huldufólks og annars sem ekki sést. Þó gerðist eitt sinn, fyrir 50 árum eða svo, að ég kom að bæ í Flóanum þar sem bóndinn sagði að ég skyldi sneiða hjá nibbu í stykkinu sem brjóta ætti og láta hana óhreyfða,” segir Denni og heldur áfram:

„Ég fylgdi þeim skilaboðum, en fyrir slysni fór herfið þar yfir. Svo segir ekki meira af því fyrr en næsta vor, þá fundust þar mannabein; kuml úr heiðnum sið. Þetta hafði þó engin eftirmál, svo sem að maðurinn í moldinni vitjaði mín síðar. En svo hef ég líka víða verið á ýtu í vegavinnu, svo sem norður í Skagafirði, á Vestfjörðum og í Öræfasveit.“

Á langri starfsævi hefur Denni unnið á jarðýtum af ýmsum stærðum og gerðum; svo sem Caterpillar af ýmsum stærðum og nú Komatsu. Sú vél er 21 tonn og nýtist vel.

Stafræn nákvæmni

„Mér hefur alltaf líkað best að vinna á ýtum sem eru heldur af minni gerðinni. Slíkar henta vel og öðrum tækjum betur í allskonar moldarvinnu, til dæmis eins og við golfvöllinn á Selfossi þar sem ég hef verið mikið síðustu árin. Stóra breytingin í daglegri vinnu á ýtu er annars sú að nú er allt unnið eftir stafrænum teikningum sem settar eru í tölvuskjá í tölvunni. Vinnan fer mjög nákvæmlega eftir þeim, þar sem teikningin og staða verksins á rauntíma fylgjast að. Skekkjumörkin eru aðeins tveir sentimetrar svo þetta er allt mjög nákvæmt og flott,“ segir Denni, sem er sjálfs síns herra og býr í Sviðugörðum í Flóa, ekki langt frá Selfossi. Sækir þaðan til vinnu, en er heima með lítið fjárbú og stundar skógrækt. Hefur gróðursett í alls um fjóra hektara, þar sem öspin er í aðalhlutverki og dafnar vel.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson