Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Loftárásum Rússa linnir ekki og í gærmorgun vaknaði þjóðin við drunurnar úti um allt land. Í höfuðborginni Kænugarði var bæði rafmagnslaust og vatnslaust eins og í norður-, suður- og miðhluta landsins. Orkuyfirvöld landsins sögðu að lengri tíma gæti tekið að koma rafmagni á vegna umfangs árásanna í gær. Mest áhersla er lögð á að koma rafmagni á sjúkrahús og tryggja vatn og hitamiðstöðvar var sagt í tilkynningu frá orkuyfirvöldum. Í Kænugarði voru neðanjarðarlestir stöðvaðar, en þær eru notaðar sem loftvarnarbyrgi í árásunum.
Í myrkri og kulda heldur þjóðin áfram að reyna að halda lífi sínu áfram, en vegna árásanna er rafmagn skammtað naumlega um allt landið. Það er orðið daglegur viðburður að vakna upp í myrkri og kulda við drunur loftárásanna. „Ég vaknaði og sá eldflaug kljúfa loftið,“ sagði hin 25 ára Lada Korovai við blaðamann AFP-fréttaveitunnar. „Ég sá eldflaugina og vissi að ég þyrfti að fara í neðanjarðarlestina. Þetta er raunveruleikinn í þessu stríði og það sem við búum við.“
Það er erfitt að gera sér í hugarlund að búa við myrkur og rafmagnsleysi í kulda sem getur verið langt undir frostmarki. Í miðju stríðsátakanna í Bakhmút fengu íbúar ofna til að brenna trjávið til að halda á sér hita. Hin 85 ára Oleksandra sagðist ekki myndu gefast upp. „Ég mun lifa þennan vetur og ganga mér til hita,“ sagði hún við blaðamann AFP.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO sagði í gær að Rússar byggju sig undir langt stríð og það væri hættulegt að vanmeta getu þeirra til þess. „Við sjáum að þeir eru að virkja meiri herafla og þeir eru tilbúnir til þess að þola mikið mannfall,“ sagði hann.
Konstantín Vorontsov, embættismaður í rússneska utanríkisráðuneytinu, sagði í gær að allt tal um efnavopn Rússa væri ekki rétt og þeir myndu halda öll alþjóðleg lög sem banna slík vopn. Hann sagði slíkt tal vera til að leiða athyglina frá því sem Bandaríkin væru að gera í Úkraínu, en Rússar hafa sakað Bandaríkin um þróun efnavopna í Úkraínu.