Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Svissneskt fyrirtæki undirbýr byggingu verksmiðju við Reykjanesvirkjun til að framleiða metangas sem að mestu leyti verður flutt til Sviss og sett inn á orkukerfið þar. Í verksmiðjunni verður framleitt vetni með rafgreiningu og verður hægt að nýta hluta þess sem hráefni hjá öðrum fyrirtækjum í Auðlindagarði HS Orku og einnig sem eldsneyti í samgöngum hér á landi. Nýttir verða orkustraumar frá Reykjanesvirkjun.
Fyrirtækið Swiss Green Gas International Ltd. (SGGI) hefur lagt fram matsáætlun fyrir verksmiðju í Auðlindagarði HS Orku. Í verksmiðjunni verður framleitt vetni með rafgreiningu og verður vetnið, ásamt koldíoxíði frá jarðvarmavirkjunum HS Orku, nýtt til þess að framleiða grænt metangas. Verksmiðjan mun nýta rafmagn og vatn, auk umrædds koldíoxíðs frá HS Orku.
Ekki búið að semja
Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku, segir að þetta sé spennandi verkefni sem hafi lengi verið í undirbúningi. SGGI sé traustur mótaðili sem þurfi mikla orku en nýti einnig afgas frá virkjuninni. Spurður um samninga um orku og annað sem til þarf segir hann að viðræður séu vissulega langt komnar en ekki hafi verið gengið frá samningum. Áætluð orkuþörf er 55 MW. Spurður að því hvaðan orkan komi segir Jóhann að ekki standi til að virkja sérstaklega fyrir þetta verkefni sem ekki verði að veruleika fyrr en eftir nokkur ár. Bendir hann þó á að verið sé að stækka Reykjanesvirkjun og til standi að stækka virkjunina í Svartsengi. Fleiri möguleikar séu fyrir hendi. Þá sé starfsemin sveigjanleg, hægt sé að draga úr og auka hana eftir þörfum. Það henti HS Orku vel.
Flutt fljótandi til Sviss
Í matsáætluninni segir að íslenskar aðstæður henti einkar vel til framleiðslu á metangasi úr grænu vetni en rætt er um grænt vetni þar sem endurnýjanlegir orkugjafar eru notaðir til rafgreiningar. Metangasið verður flutt í fljótandi formi til Sviss. Aukaafurðir sem til falla við framleiðsluna verða boðnar öðrum fyrirtækjum í Auðlindagarðinum en þar er til dæmis í undirbúningi stóreldi Samherja fiskeldis á laxi.
SGGI var stofnað af lykilfyrirtækjum í svissneska orkuiðnaðinum. Stærstu hluthafar þess eru Axpo Holding AG, sem er stærsta raforkufyrirtækið í Sviss, og Holdigaz SA sem er stórt fyrirtæki í gasiðnaði þar í landi. Helsta markmið félagsins er að efla þekkingu á sviði endurnýjanlegrar orku og koma verkefnum í þeim geira í framkvæmd. SGGI áformar að stofna rekstrarfélag á Íslandi sem væri í eigu sömu orkufyrirtækja og eiga SGGI til að annast framkvæmdir og rekstur metangasverksmiðjunnar á Reykjanesi.