Myndin sýnir brotna mastrið á bakka Hvítár. Það var 60 m hátt og bar uppi Búrfellslínurnar þrjár
Myndin sýnir brotna mastrið á bakka Hvítár. Það var 60 m hátt og bar uppi Búrfellslínurnar þrjár — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún lét svo sem ekki mikið yfir sér, eindálksfrétt á baksíðu Morgunblaðsins föstudaginn 22. desember 1972, en innihaldið var eigi að síður ríkt og upptaktur að mun meiri fréttaflutningi næstu daga: „Ofsaveður gekk yfir Suðurland seint í gærkvöldi og fylgdi því rafmagnsleysi

Hún lét svo sem ekki mikið yfir sér, eindálksfrétt á baksíðu Morgunblaðsins föstudaginn 22. desember 1972, en innihaldið var eigi að síður ríkt og upptaktur að mun meiri fréttaflutningi næstu daga:

„Ofsaveður gekk yfir Suðurland seint í gærkvöldi og fylgdi því rafmagnsleysi. Í Reykjavík voru þök tekin að fjúka af húsum um allan bæ, t.d. fauk þakið af Dvalarheimili aldraðra sjómanna, og víða tepptist fólk í veðrinu eða varð að leita skjóls þar sem það var statt. Þurfti lögreglan víða að aðstoða fólk, og sagði varðstjóri lögreglunnar að það jaðraði við neyðarástand. Þá fékk blaðið þær fréttir frá Eyrarbakka að þar væri veðrið eitt hið ofsalegasta sem gengið hefði yfir, og tók heilu skúrana þar á loft upp í verstu hrinunum. Ekki var Morgunblaðinu kunnugt um slys á fólki, þegar það fór í prentun í nótt.“

Daginn eftir lágu mun ítarlegri upplýsingar fyrir og þá lagði Morgunblaðið alla forsíðuna undir óveðrið með fimm dálka ljósmynd. Það undirstrikar vigt málsins en á þessum árum var forsíðan alla jafna helguð erlendum fréttum.

Allt útlit var þá fyrir að rafmagn yrði skammtað á Reykjavíkursvæðinu næstu þrjá daga, en 190 MW af 210 MW orku Búrfells vantaði vegna þess að þrjár háspennulínur slitnuðu við Hvítá, er 60 metra hátt mastur slitnaði í ofviðrinu. „Í dag verður reynt að koma nýjum línum yfir Hvítá og tengja í næsta heila mastur og verða notaðar þyrlur við verkið. Ef vel gengur kann viðgerð að ljúka fyrr en ráðgert hefur verið,“ stóð í frétt blaðsins.

Skömmtun var háttað þannig að um mesta álagstímann milli kl. 11 og 13 á daginn og 18 og 20 á kvöldin mátti búast við klukkustundar rafmagnsleysi í hverju hverfi, en síðan var rafmagn ekki skemur en í 45 mínútur. Á öðrum tímum milli kl. 7 að morgni til miðnættis var reynt að hafa lengri tíma með rafmagni, en rafmagnsleysi varði aldrei lengur en í eina klukkustund í senn.

Gífurlegt tjón varð í álverinu í Straumsvík við rafmagnsbilunina en verksmiðjan hafði ekki fengið nægilega orku frá því um klukkan hálfellefu fimmtudagskvöldið 21. desember. Stöðva þurfti bræðslu í 84 kerjum en þar gaf sig einnig túrbína sem sjá átti verinu fyrir varaafli.

Ofsaveðrið olli gífurlegum skemmdum víða um land. Hús fuku í heilu lagi, þök tók af húsum og á bænum Gilhaga í Axarfirði drápust milli 40 og 50 kindur, er fjárhús hrundi. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum á Suðurlandsundirlendi og í Hveragerði brotnuðu rúður og víða í gróðurhúsum. Þá urðu víða miklir heyskaðar og missti bóndinn á Hallgilsstöðum í Sauðaneshreppi nær allt sitt hey, er hlaða hans fauk, full af heyi, og það hvarf út í buskann. Í Þingeyjarsýslum fuku víða útihey. „Ljóst er, að tjónið af völdum veðursins hefur orðið gífurlegt,“ sagði Morgunblaðið.

Möðruvallakirkja fauk

Morgunblaðið hafði samband við fréttaritara sína vítt og breitt um landið og augljóst að mönnum var brugðið. Í Skagafirði mundu menn ekki annað eins veður og menn tóku í sama streng í Þykkvabæ. Á Þórshöfn fuku þakplötur af húsum, meðal annars frystihúsinu, og lentu þær á öðrum húsum og bílum með tilheyrandi skemmdum. Fárviðri geisaði á Sauðárkróki en Guðjón fréttaritari gerði þó ekki mikið úr því. „En Sauðárkróksbúar taka þessu ekki illa, því að veðráttan hefur verið með afbrigðum hagstæð það sem af er vetri,“ sagði hann. Glasið alltaf hálffullt á Króknum.

Eldingu sló niður í húsið við Sólvallagötu 16 í Keflavík, sem var með þeim húsum, sem stóðu lægst i bænum og stendur mögulega enn. Skemmdir urðu ekki teljandi, því að sjónvarpsleiðslan var jarðtengd, en neistaflug og glæringar stóðu út úr ljósastæðum og eldavél. „Annars erum við Keflvíkingar bara komnir í jólaskap,“ sagði Helgi S. fréttaritari.

Á Rangárvöllum varð mikið tjón. „Þetta er talið eitt allra mesta veður, sem komið hefur síðan í marz 1938. Í Kirkjubæ á Rangárvöllum fauk þakið af íbúðarhúsinu í heilu lagi og lenti á hlöðu og stórskemmdi hana. Í Saurbæ í Holtum fauk fjárhús í heilu lagi, en ekki er vitað um tjón á fé, en hér var um 100 kinda hús að ræða,“ sagði Magnús fréttaritari.

Á baksíðu Aðfangadagsblaðsins kom svo ein stórfréttin í viðbót: „Kirkjan á Möðruvöllum í Eyjafirði fauk af grunni hálfa breidd sína í ofviðrinu í fyrrinótt. Kirkjan er öll skekkt og brotin og er ónothæf og sennilega ónýt,“ sagði Sv.P. fréttaritari.

Þetta var raunar lokahnykkurinn í eftirminnilegri illviðrasyrpu á aðventunni 1972, eins og Trausti Jónsson veðurfræðingur rifjaði nýverið upp á bloggi sínu. Undir kvöld sunnudaginn 17. desember leit hann inn á spádeild Veðurstofunnar. Hún var þar enn á fyrstu hæð flugturnsins á Reykjavíkurflugvelli. Þar var Jónas Jakobsson á vakt. „Við horfðum saman á veðurkort dagsins. Virtist ritstjóra hungurdiska [Trausta sjálfum] hann helst vera að leggjast í langvinnar austlægar áttir. Jónas gaf lítið fyrir það og benti á mikla lægð við Nýfundnaland sem vel gæti brotið stöðuna upp – þrátt fyrir að önnur lægð væri fyrir á fleti fyrir sunnan land – og þrýstingur nokkuð hár austur undan. Auðvitað var engar langtímatölvuspár að hafa, en Jónas reyndist samt hafa rétt fyrir sér.“

Í fyrsta Mogga eftir jól var rabbað við Hauk Pálmason, yfirverkfræðing Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og sagði hann skömmtunina í langflestum tilvikum hafa gengið mjög vel. „Fyrst meðan ekki var almennilega vitað hvað var að gerast var nokkur órói en þegar búið var að skýra ástandið í fjölmiðlum var yfirleitt allt í lagi,“ sagði hann. „Við urðum líka varir við að fólk sýndi mikla tillitssemi og sparaði sjálft við sig rafmagn eins og það mögulega gat.“

Sum sé sameiginlegt átak létti verkið. Eins og svo oft áður. Og svo oft síðan.