Er búið að kæsa skötuna?
Hún er tilbúin. Ég er einmitt að skera hana núna í bita.
Hvernig er skatan kæst?
Hún er keypt og henni safnað saman yfir árið, sett í kör og raðað inn í frystigám. Þegar rétti tíminn er kominn, yfirleitt um september, október eða nóvember, er settur hitari inn í gáminn þannig að hún byrji að verka sig. Hún kemur svo til okkar fisksalanna í heilum börðum og ég þarf að skola af henni, snyrta og skera í bita. Einhver hluti hennar fer í daufan saltpækil fyrir þá sem vilja ekki hafa hana rosalega sterka.
Hvernig líst þér á skötuna í ár?
Rosalega vel. Hún er þykk og flott og sterk og falleg.
Er fólk byrjað að kaupa skötu?
Já, það byrjaði strax í síðustu viku. Ég held að nokkuð margir séu að þjófstarta.
Hvað selurðu mikið af skötu núna fyrir jólin?
Í fyrra var þetta rúmt tonn. Maður veit aldrei en það sem verður í afgang er vakúmpakkað og fryst því það er alltaf fólk sem kemur og kaupir skötu kannski einu sinni í mánuði eða oftar.
Borðar þú skötu?
Já, mér finnst hún mjög fín.
Borðar þú hana alltaf á Þorláksmessu?
Ég gerði það alltaf áður fyrr en nú er ég að vinna þannig að ég fæ mér hana síðar.
Er ekki rosalega sterk lyktin í búðinni þessa dagana?
Jú, hún er mjög skemmtileg. Ég var einmitt að opna mér skyr áðan og fann bara skötubragð af skyrinu. En þetta tilheyrir jólunum. Þegar ég var krakki í Hlíðunum fannst mér jólin byrja almennilega þegar maður fann lyktina af skötunni á Þorláksmessumorgun.
Í Fiskbúð Fúsa í Skipholti 70 er nóg til af skötu fyrir Þorláksmessu. Sigfús Sigurðsson stendur þar vaktina alla daga.