Reykjavík Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður forsætisnefndar.
Reykjavík Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður forsætisnefndar. — Morgunblaðið/Eggert
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Meirihluti forsætisnefndar Reykjavíkurborgar hafnaði í gær tillögu Mörtu Guðjónsdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, um að setja umræðu um málefni Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur (OR), á dagskrá borgarstjórnarfundar sem haldinn verður á þriðjudag. Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Framsóknar og Pírata, sem eru þeir flokkar sem mynda meirihluta, lögðust allir gegn tillögunni.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Meirihluti forsætisnefndar Reykjavíkurborgar hafnaði í gær tillögu Mörtu Guðjónsdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, um að setja umræðu um málefni Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur (OR), á dagskrá borgarstjórnarfundar sem haldinn verður á þriðjudag. Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Framsóknar og Pírata, sem eru þeir flokkar sem mynda meirihluta, lögðust allir gegn tillögunni.

Sem kunnugt er stefnir Ljósleiðarinn að því að kaupa grunnnet Sýnar fyrir um þrjá milljarða króna og hefja í kjölfarið aukna uppbyggingu víðs vegar um land. Kaupin munu fara fram með aukinni skuldsetningu Ljósleiðarans, en félagið skuldar nú þegar yfir 14 milljarða króna. Þá hafa verið áhöld um það hvort aukin umsvif félagsins séu í samræmi við eigendastefnu OR.

Meirihlutinn bar fyrir sig að umræða um málið væri ótímabær að svo stöddu og í bókun meirihlutans kemur fram að rétt sé að ræða málið á nýju ári eða þegar „aðstæður bjóða“ eins og það er orðað. Þessu mótmælti Marta og lagði fram aðra bókun þar sem fram kemur að með því að hafna því að setja málefni fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar á dagskrá borgarstjórnar hafi leyndarhyggja meirihlutans náð nýjum hæðum og ekki séu fordæmi fyrir því í sögu borgarinnar. Þá segir jafnframt í bókuninni að með því að hafna því að taka málið til umræðu sé komið í veg fyrir að borgarfulltrúar geti sinn lögboðnu starfi sínu og það stangist á við sveitarstjórnarlög.

Forsvarsmenn Ljósleiðarans og Orkuveitunnar hafa neitað að tjá sig um málið við fjölmiðla. Þá hefur lítið sem ekkert verið fjallað um viðskiptin innan borgarkerfisins. Þó er rýnihópur að störfum sem mun meta hvort og þá hvernig hugað verði að hlutafjáraukningu Ljósleiðarans með þátttöku einkaaðila. Sú hlutafjáraukning mun þó ekki koma til áður en gengið verður frá kaupunum á kerfum Sýnar, sem verða sem fyrr segir fjármögnuð með frekari lántöku.

Í tilkynningu frá Sýn til Kauphallarinnar í fyrrdag kom fram að viðræður stæðu enn yfir á milli Ljósleiðarans og Sýnar um einstök útfærsluatriði kaup- og þjónustusamnings. Stefnt er að því að klára viðskiptin á þriðjudag í næstu viku, 20. desember. Fyrrnefndur rýnihópur hefur haldið þrjá fundi nú í desember og ekki er stefnt að því að halda fund aftur fyrr en á nýju ári.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson