Chochołów Þúsundir gesta sækja þennan baðstað á hverjum degi. Vatnið er jarðhitavatn og er verið að bora nýja jarðhitaholu í bænum.
Chochołów Þúsundir gesta sækja þennan baðstað á hverjum degi. Vatnið er jarðhitavatn og er verið að bora nýja jarðhitaholu í bænum. — Ljósmyndari/Baldur Pétursson
Sérfræðingar frá Orkustofnun og pólsku vísindaakademíunni MEERI PAAS fóru í heimsókn til valinna staða í Póllandi 14.-18. nóvember 2022. Það var liður í uppbyggingar- og þjálfunarverkefni í jarðhita á milli Íslands og Póllands á vegum Uppbyggingarsjóðs EES

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Sérfræðingar frá Orkustofnun og pólsku vísindaakademíunni MEERI PAAS fóru í heimsókn til valinna staða í Póllandi 14.-18. nóvember 2022. Það var liður í uppbyggingar- og þjálfunarverkefni í jarðhita á milli Íslands og Póllands á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir ráðgjöf Orkustofnunar frá löndum í Austur-Evrópu vegna uppbyggingar á hitaveitum og jarðhitanotkunar.

Baldur Pétursson, verkefnisstjóri fjölþjóðlegra verkefna hjá Orkustofnun, segir að þetta starf sé í samræmi við áherslur íslenskra stjórnvalda um að Ísland deili þekkingu sinni á orkumálum með þjóðum Evrópu. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kom inn á það í ávarpi sem hann hélt í Brussel 1. desember sl. í tengslum við formennsku Íslands í samstarfi EFTA-ríkja. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Noreg og Liechtenstein. Umfjöllunarefnið var græn orkuskipti og innleiðing umhverfisvænna og orkusparandi leiða.

Nú var farið til borgarinnar Konin og bæjarins Chochołów vegna möguleika þeirra á aukinni jarðhitanotkun í hitaveitum. Konin hefur markað þá stefnu að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og færa sig yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Koninborg hefur orðið fyrir áhrifum loftslagsbreytinga vegna loftslagsskilyrða auk mengunar frá kolum. Þar hafa komið staðbundin flóð, lítil úrkoma og ein mesta hækkun lofthita í Póllandi. Þar eru lítil gróin svæði og lítil varðveisla regnvatns. Þetta myndar hitaeyjar í þéttbýli og hækkar hitastig.

Jarðhiti nýttur í Póllandi

Jarðhitahola var boruð í Konin fyrir nokkrum árum og er verið að bora aðra til niðurdælingar, samkvæmt frétt Orkustofnunar. Einnig er jarðvarmastöð í smíðum til að auka notkun á jarðhita til húshitunar. Varmi til húshitunar í Konin kemur frá þremur orkuverum sem byggja á brennslu lífmassa eins og timburs og brennslu sorps. Þriðja stöðin er lítil kolavarmastöð sem er tengd sjálfstæðu dreifikerfi. Einnig hefur verið ákveðið að flýta lokun stórs 1,2 GW kolaorkuvers sem nýtt hefur verið til raforkuframleiðslu til 2024 í stað 2030. Það mun draga úr losun á 7 milljónum tonna af gróðurhúsagasinu CO2 á ári.

Fundað var með borgarstjóranum í Konin, stjórn hitaveitu borgarinnar og fulltrúum fyrirtækja sem koma að jarðhitaverkefninu.

Í bænum Chochołów var fundað með stjórn og starfsfólki baðstaðar sem tekur á móti nokkrum þúsundum gesta á hverjum degi. Starfsemin byggist á jarðhita frá borholu sem var boruð fyrir um 30 árum. Nú er verið að ljúka við borun annarrar holu til niðurdælingar eða nýtingar ef ástæða þykir til. Einnig var rætt við fulltrúa sveitarfélaga og aðila að verkefninu Hydro-Geo-Solar sem er fjármagnað af Uppbyggingarsjóði EES og Noregi. Verkefnið er um aukna nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum eins og rafmagnsframleiðslu með jarðhita auk fjölþættrar annarrar nýtingar jarðhita og sólarorku. Einnig leggja Chochołówskie-varmaböðin til víðtækari notkun á orkumöguleikum jarðhitans eins og til hitaveitu.

Tillögum og ráðleggingum frá sérfræðingahópnum verður skilað í skýrslu sem gert er ráð fyrir að verði unnin á næstu mánuðum. Þar verður sviðsmynda- og valkostagreining ásamt tillögum þar sem byggt verður m.a. á þekkingu, reynslu og tækni frá Íslandi og Póllandi. Í Konin og Chochołów hafa verkefni frá Uppbyggingarsjóði EES nýst vel til aukinnar nýtingar á jarðhita sem og til verkefna er varða umhverfis- og loftslagsmál, sem aðilar meta mikils.

Höf.: Guðni Einarsson