Jólasveinar voru venju fremur áberandi í þjóðfélaginu í vikunni og átti það við fleiri stofnanir en aðeins Alþingi. Þar á meðal í Þjóðminjasafninu, þar sem Stekkjarstaur fór yfir stöðuna í jólamálum við yngstu kynslóðina, ómyrkur í máli.
Jólasveinar voru venju fremur áberandi í þjóðfélaginu í vikunni og átti það við fleiri stofnanir en aðeins Alþingi. Þar á meðal í Þjóðminjasafninu, þar sem Stekkjarstaur fór yfir stöðuna í jólamálum við yngstu kynslóðina, ómyrkur í máli. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tveir karlar voru ákærðir í hinu svokallaða hryðjuverkamáli, annar fyrir tilraun til hryðjuverka og hinn fyrir hlutdeild. Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, var þögul sem gröfin um frekari skuldsetningu samstæðunnar, en …

10.12.-16.12.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Tveir karlar voru ákærðir í hinu svokallaða hryðjuverkamáli, annar fyrir tilraun til hryðjuverka og hinn fyrir hlutdeild.

Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, var þögul sem gröfin um frekari skuldsetningu samstæðunnar, en dótturfyrirtækið Ljósleiðarinn sér sig af einhverjum ástæðum knúið til þess að kaupa grunnnet Sýnar fyrir þrjá milljarða króna. Fyrir jól.

Tónleikar og leiksýningar hafa enn ekki náð sér á strik eftir plágu, en enn koma um fimmtungi færri til sviðsviðburða en tíðkaðist fyrir kórónuveiru.

Fregnir bárust af nýju afbrigði veirunnar, sem greinst hefur hér á landi án þess að dreifa sér. Það virðist komast hjá mótefnum fyrri sýkinga eða bólusetninga en veldur ekki meiri veikindum en fyrri afbrigði.

Karlmaður var dæmdur í 5½ árs fangelsi fyrir manndrápstilraun með exi haustið 2020.

Þingmenn voru í jólaskapi við fjárlagaumræðu á Alþingi og fundu aukaframlög í alls kyns mál. Þannig á að bæta 100 milljónum í Kvikmyndasjóð ofan á 150 milljónir sem menningarmálaráðherra fann í einhverri skúffu.

Kristbjörn Þór Árnason skipstjóri lést 85 ára gamall.

Kjaraviðræður mölluðu áfram í kyrrþey, en bryti ríkissáttasemjara og þjónustufólk hans stóð reiðubúið í embættiseldhúsinu og þeytti vöffludeig.

Fram komu hugmyndir um eflingu Landhelgisgæslunnar vegna breyttra þjóðaröryggisaðstæðna og aukið samstarf við Dani og Bandaríkjamenn á því sviði.

Framkvæmdastjóri Strætó svaraði því til að appið Klappið væri frábært, aðeins um fimm mánuðum eftir að fyrirspurn um það var lögð fram í borgarstjórn. Skoðanir um það eru skiptar.

Landeigendur telja fyrirætlanir Landsnets um Holtavörðuheiðarlínu fráleitar og segja þær ekki ná fram að ganga nema með eignarnámi.

Um 44% auglýsingaútgjalda fara úr landi, en Félag atvinnurekenda telur brýnt að innlendir miðlar geti líkt og erlendir keppinautar birt auglýsingar á áfengi.

Kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins (SA) við VR, Landssamband verslunarmanna og samflot ið- og tæknigreina var undirritaður eftir vökunótt í Karphúsinu. Samið var um 6,75% kauphækkun, en þó ekki meiri en sem næmi 66 þúsund krónum á mánuði.

Í kjölfarið kynnti ríkisstjórnin breytingar á bótakerfum, aukinn stuðning við barnafólk og aðgerðir til þess að auka húsnæðisframboð.

Launataxtar VR hækkuðu fyrir vikið um 11% að meðatali, sem er sambærilegt við það sem gerðist hjá Starfsgreinasambandinu vikunni áður.

Send voru níu tonn af fötum og öðrum varningi til Úkraínu, en það er að miklu leyti afrakstur sjálfboðastarfs.

Samþykkt var að setja aftur upp þrjú skjaldarmerki á Alþingishúsið, líkt og var í upphafi, þar ræðir um gamla þorskmerkið, fálkamerki heimastjórnarinnar og dönsku konungsljónin þrjú.

Leiksýningar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á gamanleiknum vinsæla um skýrslu ríkisendurskoðanda voru framlengdar fram í janúar.

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti brottvísun Husseins Husseins, hælisleitanda frá Írak, og mun Útlendingastofnun taka mál hans til efnislegrar umfjöllunar.

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir var tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir skorið við kvikmyndina Women Talking.

Magnús V. Pétursson, kaupmaður og fótboltadómari úr Þrótti, lést tæplega níræður.

Mönnunum, sem ákærðir voru fyrir hryðjuverk, var sleppt úr gæsluvarðhaldi en Landsréttur taldi rétt að þeir næðu að útrétta fyrir jólin.

Hjúkrunarfræðingur var ákærður fyrir manndráp á sjúklingi á geðdeild í fyrrasumar. Hann neyddi mat ofan í konu á sextugsaldri svo að hún kafnaði.

Vinnumálastofnun vanáætlaði atvinnuleysi frá júní til október eftir að nýtt tölvukerfi var tekið þar í gagnið. Það var upp undir 3,3% en ekki 2,8% eins og áður var sagt.

Breytingar á flokkun sorps á komandi árum valda því að Sorpa þarf að kaupa 47 þúsund ný sorpílát til notkunar á starfssvæðum sínum.

Við breytinguna ber öllum heimilum að flokka sorp í fjórar tunnur undir pappa, plast, blandaðan úrgang og matarleifar. Rottuvinafélagið fagnaði þessu síðastnefnda sérstaklega.

Blása tók norðan af heimskauti og fór frost víða í -10°C en sums staðar í -20°C.

Hollvinasamtök N4 (betur þekkt sem fjárlaganefnd) samþykktu að styrkja sjónvarpsframleiðslu á landsbyggðinni um 100 milljónir króna. Af því varð svo mikið fjaðrafok að enginn minntist á að Ríkisútvarpið brennir 110 milljónum króna af skattfé í hverri einustu viku.

Orkuveitan leyfði Ljósleiðaranum að kaupa grunnnet Sýnar fyrir um þrjá milljarða. Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður og prófessor við HÍ, harðneitaði að tjá sig um málið, en í yfirlýsingu stjórnar kom fram að eigendunum kæmi þetta ekki við.

Frystitogarinn Sólberg ÓF-1 setti Íslandsmet í verðmætasköpun, en það hefur þegar landað afla fyrir rúma sjö milljarða króna á árinu.

Bankamenn vísuðu kjaraviðræðum sínum við SA til ríkissáttasemjara. Vöffludeigsfabrikkan Katla íhugaði að gefa út jákvæða afkomuviðvörun.

Hildur Hákonardóttir vefari, Manfreð Vilhjálmsson arkitekt, Kristín Þorkelsdóttir grafískur hönnuður og Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri fengu heiðurslaun Alþingis. 21 nýtur þeirra fyrir.

Borgaryfirvöld lækka hámarkshraða um borgina þvera og endilanga á næsta ári í ýmist 30 eða 40 km. Stefnt er að því að innan borgarmarkanna verði aðeins leyfðar uxakerrur árið 2039.

Sigþór Sigurðsson fv. símaverkstjóri lést 94 ára gamall.

Hestamennska á Íslandi er í uppnámi vegna fyrirætlana um Evrópureglur sem banni þyngri knapa á íslenskum hestum en 70-80 kg, sem er í námunda við kjörþyngd fullorðinna. Félag feitra segir að meðalklárinn geti vel borið 120-130 kg knapa, en ekki of lengi eða of langt þó. Atvinnuknapar ytra vega að jafnaði um 50 kg.

Lögregla óskaði aftur eftir gæsluvarðhaldi yfir tveimur mönnum í hryðjuverkamálinu, sem látnir höfðu verið lausir á þriðjudag, m.a. vegna álits Europol.

Mosfellsbær lagðist gegn gullleit í Þormóðsdal, sem á sinn hátt er til samræmis við fjármálastjórn bæjarins.

Aflaráðgjöf Hafró fyrir nýhafna loðnuvertíð verður ekki endurskoðuð á grundvelli sérstaks desemberleiðangurs. Mælingarnar þóttu ekki marktækar, enda lítið af loðnu gengið inn á svæðið.

Meirihlutinn í borgarráði vildi ekki fjalla um kaup Ljósleiðarans á grunnneti Sýnar og stóraukna skuldsetningu vegna þessa glæsilega snúnings sem Sýn er að taka á borginni.

Að sögn kaupmanna gætir ekki mikillar nýjungagirni hjá landsmönnum í jólamatnum. Jafnvel veganistarnir dulbúi hnetufars sitt og baunabuff sem hefðbundnari kræsingar.