Fimm börn voru meðal þeirra tíu einstaklinga sem fórust í eldsvoða í fyrrinótt í sjö hæða blokk í niðurníddu úthverfi í frönsku borginni Lyon. Nítján manns eru slasaðir og þar af fjórir alvarlega. Eldsins varð vart um þrjúleytið um nóttina og þrátt fyrir að slökkviliðið væri komið á vettvang tólf mínútum síðar fór sem fór. Talið er að snör viðbrögð slökkviliðs hafi bjargað miklu því aðkoman var skelfileg að sögn vitna. Einhverjir létust eftir að hafa stokkið út úr brennandi byggingunni.
Þrátt fyrir viðgerð 2019 var blokkin í niðurníðslu og átti að gera meira við hana núna í janúar. Íbúar í nágrenninu söfnuðust saman í gær til að gefa föt og dýnur til þeirra 100 íbúa sem misstu húsnæðið við eldsvoðann.