Guðni Halldórsson
Guðni Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þessi umræða sýnir að við þurfum virkilega að taka okkur á í rannsóknum og gagnaöflun sem ég trúi því að slái á þessa umræðu. Stjórnvöld þurfa að finna fjármagn til að sinna rannsóknum sem sýna fram á styrk og þol íslenska hestsins og hæfni hans til að bera fullorðinn einstakling. Ég tel að þessu verði ekki svarað öðruvísi,“ segir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, spurður um viðbrögð við umræðu í Evrópu um að takmarka þurfi þyngd knapa á hestum eða jafnvel banna notkun hesta til útreiða eða annarrar hagnýtingar í þágu mannsins.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þessi umræða sýnir að við þurfum virkilega að taka okkur á í rannsóknum og gagnaöflun sem ég trúi því að slái á þessa umræðu. Stjórnvöld þurfa að finna fjármagn til að sinna rannsóknum sem sýna fram á styrk og þol íslenska hestsins og hæfni hans til að bera fullorðinn einstakling. Ég tel að þessu verði ekki svarað öðruvísi,“ segir Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, spurður um viðbrögð við umræðu í Evrópu um að takmarka þurfi þyngd knapa á hestum eða jafnvel banna notkun hesta til útreiða eða annarrar hagnýtingar í þágu mannsins.

Hestur en ekki smáhestur

Guðni segir að sú umræða hafi komið upp með reglulegu millibili, frá því farið var að flytja íslenska hestinn út, að það beri að skilgreina hann sem smáhest, pony. Íslendingar hafi ávallt haldið því fram að styrkur hans og þol væri meira en hæð hans gæfi til kynna og því hafi hann verið skilgreindur sem hestur. Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfari Íslands í hestaíþróttum, segir að Gunnar Bjarnason, hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, sem var forystumaður við útflutning hestsins á sínum tíma, hafi alla tíð lagt megináherslu á að íslenski hesturinn væri hestur en ekki smáhestur.

Rifjar Sigurbjörn upp sögu íslenska hestsins. Hann hafi verið notaður til burðar og reiðar, meðal annars á milli landshluta, yfir fjöll og vötn, og verið réttnefndur þarfasti þjónninn. Hlutverkið hafi breyst, þessum verkefnum hafi verið létt af og hann sé notaður til reiðar til ánægju og yndisauka fyrir marga Íslendinga og áhugafólk í öðrum löndum.

Hringir viðvörunarbjöllum

Sigurbjörn situr í nefndum á vegum FEIF, alþjóðasamtaka um íslenska hestinn, og hefur fylgst með umræðunni um þyngd knapa. Hann segir mikilvægt að gefa þessari umræðu gaum, eins og FEIF hafi gert í eitt og hálft ár og verið að byggja upp góðan og traustan málstað til að svara gagnrýninni.

Spurður hvort hann sjái fram á að útreiðar á íslenskum hestum verði bannaðar segir Sigurbjörn að það muni aldrei gerast. „En þessi umræða hringir viðvörunarbjöllum og á að gera það. Við þurfum að færa rök fyrir okkar málstað. Þess vegna þurfum við að gera rannsóknir á burðargetu, styrk og þoli íslenska hestsins,“ segir hann.

Mikilvæg starfsemi

Guðni og Sigurbjörn vekja athygli á því hvað íslenski hesturinn er mikilvægur fyrir íslenskt efnahagslíf. Segja að áætlað hafi verið út frá tölum Ferðamálastofu og Landsbankans að 166 þúsund ferðamenn hafi komið hingað til lands á síðasta ári út af íslenska hestinum og þeir hafi skilið eftir 70 milljarða. Það sé fyrir utan aðrar tekjur af hestinum. Guðni segir að í því ljósi sé ekki óeðlilegt að kalla eftir því að stjórnvöld leggi fjármuni í rannsóknir til að að verja þessa starfsemi og þær tekjur sem hún skilar til þjóðarbúsins.

Landssamband hestamannafélaga hefur staðið fyrir þolreið um hálendið, undir eftirliti dýralækna og annarra sérfræðinga, meðal annars í þeim tilgangi að sýna fram á styrk hestsins og þol. Sigurbjörn rifjar upp mikla þolreið þvert yfir Bandaríkin árið 1976 þar sem hestum af fjölda hestakynja var att saman. Múlasnarnir sigruðu en íslenski hesturinn varð fremstur hesta og blés varla úr nös. Sigurbjörn segir að sú niðurstaða ætti að geta styrkt málstað Íslendinga í umræðunni.

Höf.: Helgi Bjarnason