Bíósýningar Skólakrakkar voru fyrstu gestir bíósins strax í morgunsárið. Bíóferð er með síðustu verkum fyrir frí.
Bíósýningar Skólakrakkar voru fyrstu gestir bíósins strax í morgunsárið. Bíóferð er með síðustu verkum fyrir frí. — Ljósmynd/Elísabet Blöndal
Sambíóin í Kringlunni opnuðu dyr sínar aftur í gærmorgun eftir framkvæmdir sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði. Veitingasala bíósins er nú í sama rými og Kúmen og munu gestir mathallarinnar geta nýtt sér veitingasölu bíósins til jafns við aðra veitingastaði

Björn Leví Óskarsson

blo@mbl.is

Sambíóin í Kringlunni opnuðu dyr sínar aftur í gærmorgun eftir framkvæmdir sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði. Veitingasala bíósins er nú í sama rými og Kúmen og munu gestir mathallarinnar geta nýtt sér veitingasölu bíósins til jafns við aðra veitingastaði. „Ásýnd svæðisins er gjörbreytt og þetta er ný upplifun,” segir Alfreð Ásberg Árnason framkvæmdastjóri Sambíóanna.

Strax í morgunsárið voru skólasýningar, en mikið er um að skólahópar skelli sér í bíó á þessum árstíma áður en farið er í jólafrí. Stórmyndin Avatar gegnir veigamiklu hlutverki þessa dagana en hún er sýnd næstum allan sólarhringinn að sögn Alfreðs. Breytingar verða gerðar á tímanum sem opið er og munu sýningar í Kringlunni hefjast fyrr á daginn, sem á eftir að henta fjölskyldufólki vel. Sömuleiðis verður aftur boðið upp á óperusýningar frá Metropolitan, sem hafa legið í dvala síðan fyrir faraldur.

Lítilsháttar breytingar voru gerðar á sölunum sjálfum, en búið er að hliðra til inngöngum. Í janúar verður hins vegar opnaður nýr lúxussalur sem að sögn Alfreðs mun hafa algjöra sérstöðu.

„Aðrir lúxussalir eru með þægindi, en sá nýi mun skara fram úr hvað varðar bæði þægindi og tæknileg gæði. Salurinn mun búa yfir Atmos-hljóðkerfi og stórum skjá og því til viðbótar verður töluvert meiri halli á milli sæta en gengur og gerist,“ segir hann. Hvað varðar þægindin þá munu til viðbótar við hefðbundin lúxussæti verða bekkir sem hægt er að liggja í fremst, en aftast verða „parasæti“, þar sem pör geta legið þétt saman og notið sýningarinnar. Sérstakur panell verður á milli parasæta til að tryggja næði.

Breytingarnar á Sambíóunum eru gerðar samhliða miklum tímamótum í Kringlunni. Í lok nóvember var hinu goðsagnakennda Stjörnutorgi lokað og við tók mathöllin Kúmen.

„Þetta er orðinn mjög sterkur skemmtanapunktur í Kringlunni; bíóið, Kúmen og Borgarleikhúsið. Svo bætist bráðum við nýtt Ævintýraland í Kringlunni, þetta vinnur allt mjög vel saman,“ segir Alfreð að lokum.

Höf.: Björn Leví Óskarsson