Hagstofan vinnur að því að afla frekari upplýsinga um veltu þeirra erlendra aðila, sem selja rafræna þjónustu, á íslenskum markaði. Hugsanlega verður hægt að vinna úr gögnum og birta samantekt fljótlega eftir áramót. Þetta segir Ragnar Karlsson, sérfræðingur hjá Hagstofunni, í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir þó að þær tölur myndu ekki gefa heildarmynd af stöðunni þar sem þær myndu þá byggjast á þeim erlendu aðilum eingöngu sem telja fram til skatts hér á landi því fátt sé vitað um þau fyrirtæki sem ekki telji fram til skatts hér.
Í svari frá fjármálaráðuneytinu við fyrirspurn Morgunblaðsins sem birt var í blaðinu 15. Desember kom fram að ekki liggi fyrir „upplýsingar um sundurliðun á veltu erlendra aðila sem selja rafræna þjónustu til landsins þar sem um þá veltu gildir hið sama og um aðra VSK-skylda veltu, að ekki er krafist upplýsinga á skilagrein um hvaða tegund þjónustu er að baki veltunni“.
Ragnar segir rétt að ekki sé hægt að útvega þessa sundurliðun. Tölurnar um þessa aðila liggi ekki fyrir þar sem gögnin sem aðgengileg eru séu afar ófullkomin.
Hagstofan birti tölur í byrjun mánaðarins þar sem fram kom að heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa á árinu námu fast að 22 milljörðum króna, þar af féllu 9,5 milljarðar króna í hlut útlendra miðla, eða 44%.
Samkvæmt Ragnari eru þær tölur fengnar annars vegar með upplýsingum frá íslenskum fyrirtækjum sem hafa í svörum til Hagstofunnar hreint frá þjónustuviðskiptum sínum, þar undir auglýsingar, markaðsrannsóknir og skoðanakannanir, við erlend fyrirtæki. Þær eru hins vegar fengnar með því að skoða greiðslukortaviðskipti íslenskra aðila sem farið hafa í auglýsingakaup.
ragnheidurb@mbl.is