Alþingi samþykkti í gær ný lög um leigubifreiðaakstur með 38 atkvæðum gegn 10 en níu greiddu ekki atkvæði. Bandalag íslenskra leigubílstjóra lýsti því í kjölfarið yfir að það harmaði að ekki hefði verið hlustað á þá er eiga mest undir breytingunum og boðaði að félagsmenn bandalagsins yrðu með lágmarksþjónustu nú um helgina og myndu leggja niður störf í tvo sólarhringa frá og með mánudagsmorgni.
Þingmenn stjórnarflokkanna utan tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokks, Birgis Þórarinssonar og Arnars Þórs Jónssonar, og þingmenn Viðreisnar greiddu atkvæði með frumvarpinu. Þingmenn Samfylkingar og Pírata sátu hjá en þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins greiddu atkvæði gegn því.
Lögin taka gildi 1. apríl á næsta ári en samþykkt var breytingartillaga frá þingmönnum Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata um að lögin verði endurskoðuð eftir tvö ár með tilliti til reynslu af þeim breytingum á regluumhverfi leigubifreiða sem þau feli í sér.
Heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst árið 2017 en í nóvember 2021 birti ESA, eftirlitsstofnun EFTA, rökstutt álit þess efnis að íslenska ríkið brjóti á skyldum sínum gagnvart EES-samningnum, sem einkum varðar rétt borgara til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi.