Þriðji heimsmeistaratitillinn fellur sigurliðinu á morgun í skaut, hvort sem það verður Argentína eða Frakkland sem fær afhenta styttuna eftirsóttu sem heimsmeistarar karla í knattspyrnu fá að hampa á fjögurra ára fresti. Liðin mætast í úrslitaleiknum í Katar klukkan 15 að íslenskum tíma.
Argentínumenn hafa beðið eftir sínum þriðja titli í 36 ár, eða síðan Diego heitinn Maradona fór á kostum í Mexíkó sumarið 1986 og argentínska liðið vann Vestur-Þýskaland 3:2 í úrslitaleiknum. Áður vann Suður-Ameríkuþjóðin titilinn á sínum heimavelli árið 1978 eftir sigur á Hollandi í úrslitaleiknum í Buenos Aires, 3:1.
Frakkar hafa aftur á móti ekki þurft að bíða neitt. Þeir eru ríkjandi heimsmeistarar frá 2018 og unnu þá Króata 4:2 í úrslitaleik í Moskvu. Áður hrepptu þeir titilinn á heimavelli árið 1998 með sigri á Brasilíumönnum, 3:0, í úrslitaleiknum í París.
Um leið er næsta víst að markakóngur HM kemur úr öðru hvoru úrslitaliðanna. Lionel Messi hefur skorað fimm mörk fyrir Argentínu á mótinu og Julian Álvarez fjögur en Kylian Mbappé hefur skorað fimm mörk fyrir Frakka og Olivier Giroud fjögur. Markahæstu menn Króatíu og Marokkó eru með tvö mörk og því þarf einhver að fara á kostum í bronsleiknum í dag til þess að ná markakóngstitlinum í sínar hendur.
Króatar hafa áður fengið silfur (2018) og brons (1998) á HM og reyna því að ná í sín þriðju verðlaun á meðan Marokkómenn eru enn að skrifa söguna fyrir sjálfa sig og alla Afríku og freista þess að komast á verðlaunapallinn í fyrsta skipti. Bronsleikurinn í Katar hefst klukkan 15 í dag.
Verða allir með?
Stærsta spurningin fyrir úrslitaleikinn á morgun er sú hvort liðin nái að tefla fram öllum sínum sterkustu mönnum. Veikindi hafa herjað á Frakkana, Dayot Upamecano og Adrien Rabiot gátu ekki spilað gegn Marokkó í undanúrslitunum og þeir Kingsley Coman, Raphaël Varane og Ibrahima Konaté hafa allir verið veikir. Frakkar hafa kennt of öflugri loftkællingu í Katar um slappleika sinna manna.
Lionel Messi er sagður hafa spilað meiddur gegn Króatíu á þriðjudaginn og Argentínumenn standa á öndinni eftir fregnir af því að hann hafi ekki æft með liðinu í gær. Þeirra sóknarleikur snýst að miklu leyti um Messi, sem auk þess hefur skýrt frá því að þetta verði örugglega sinn síðasti leikur í lokakeppni heimsmeistaramóts.
Margir líta á leikinn sem einvígi Messi og Mbappé, liðsfélaganna frá París SG, og viðbúið er að sá þeirra sem lyftir styttunni í leikslok verði jafnframt útnefndur besti leikmaður keppninnar.
Þetta er 22. úrslitaleikur heimsmeistaramótsins frá því Úrúgvæ lagði Argentínu að velli í þeim fyrsta á heimavelli sínum í Montevideo árið 1930. Sigurliðið kemst í fjórða sætið yfir sigursælustu þjóðirnar frá upphafi en Brasilía hefur orðið fimm sinnum heimsmeistari, Þýskaland fjórum sinnum og Ítalía fjórum sinnum.