Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Þykir vart í húsum hæf. Handlegg tíðum kreppir. Til tölvubrúks er býsna kræf. Með bjúgum enginn sleppir. Hér er lausn Hörpu á Hjarðarfelli: Litla músin læðist hér

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Þykir vart í húsum hæf.

Handlegg tíðum kreppir.

Til tölvubrúks er býsna kræf.

Með bjúgum enginn sleppir.

Hér er lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Litla músin læðist hér.

Liðmús ill í suma fer.

Tölvumúsin töm er mér.

Tilreidd mús úr kartöflu er.

Guðrún B. svarar:

Mús er lítil, leiðigjörn.

Liðmús handlegg truflar.

Músin gúgglar kaffikvörn,

í kartöflumús gruflar.

Helgi R. Einarsson leysir gátuna svona:

Húsamús er lýðum leið.

Liðmúsin hún grætir.

Tölvumúsin mín oft beið.

Músin sperðla bætir.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Mús í húsi hæf er síst.

Handlegg músin kreppir víst.

Tölvumús er mesta þing.

Mús með bjúgum ég lofsyng.

Þá er limra:

Við tóvinnu sat hún Tinna

og Tumi var fénu að sinna,

Gunna var þreytt

og gerði ekki neitt,

en Geiri fór músum að brynna.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Hverju var mér hvíslað að?

Hvet ég menn til dáða

getspaka að giska á það

og gátu þessa ráða:

Illur þefur þetta er.

Í Þingeyingum á því ber.

Ekki hár er seggur sá.

Síðan geymsla vera má.

Þessar limrur flutu með lausn Helga:

Kulnun

Þrána í brjósti bar

til Bínu, Valdimar.

Nú veit ei hví

hann var að því,

hvenær og jafnvel hvar.

Gangan

Í lífinu stundum margt stenst

og stundum jafnvel það enst,

en það sem að er

og aflaga fer

þykir mér vont, en það venst.

Guðlaugur Ásmundsson frá Lyngum kvað:
Lífsins ást er undraverð
og engin söluvara.
En er þó bitur eins og sverð
með odda hvassa snara.
Halldór Blöndal