Mark Óttar Magnús Karlsson var á meðal markahæstu leikmanna bandarísku B-deildarinnar en hann skoraði 19 mörk í 30 leikjum með Oakland.
Mark Óttar Magnús Karlsson var á meðal markahæstu leikmanna bandarísku B-deildarinnar en hann skoraði 19 mörk í 30 leikjum með Oakland. — Ljósmynd/@oaklandrootssc
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson var útnefndur leikmaður ársins hjá bandaríska B-deildarliðinu Oakland Roots á nýliðnu keppnistímabili. Óttar Magnús, sem er 25 ára gamall, skoraði 19 mörk í 30 leikjum með liðinu á tímabilinu og var á meðal markahæstu leikmanna B-deildarinnar

Fótbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson var útnefndur leikmaður ársins hjá bandaríska B-deildarliðinu Oakland Roots á nýliðnu keppnistímabili.

Óttar Magnús, sem er 25 ára gamall, skoraði 19 mörk í 30 leikjum með liðinu á tímabilinu og var á meðal markahæstu leikmanna B-deildarinnar.

Sóknarmaðurinn er samningsbundinn Venezia í ítölsku B-deildinni en hann gekk til liðs við Oakland á láni frá Venezia í febrúar á þessu ári.

„Ég vissi í raun lítið út í hvað ég var að fara þegar ég gekk til liðs við Oakland,“ sagði Óttar Magnús í samtali við Morgunblaðið.

„Tíminn í Bandaríkjunum kom mér svo skemmtilega á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Umgjörðin þarna er mjög flott og það er gert mikið úr deildinni, í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Gæðalega séð þá var þetta kannski ekki alveg staðurinn sem myndi vilja vera á til frambúðar. Fótboltinn þarna er mjög ólíkur boltanum á Ítalíu til dæmis.

Þetta var mun líkamlegra og það var minna um taktík og leikskilning en á Ítalíu. Þetta var hins vegar góður staður fyrir mig til þess að koma mér aftur í gang á og skora mörk en þetta var klárlega mikil tilbreyting frá því sem maður er vanur,“ sagði Óttar.

Fann fyrir miklu trausti

Oakland fór alla leið í 8-liða úrslit B-deildarinnar þar sem liðið tapaði 0:3 fyrir San Antonio sem fagnaði að endingu sigri í B-deildinni.

„Það var mjög gaman að taka þátt í þessum uppgangi hjá félaginu á tímabilinu. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út framan af og þjálfarinn okkar var rekinn um mitt tímabil og við tók aðstoðarþjálfarinn. Markmiðið fyrir tímabilið var að komast áfram í úrslitakeppnina og við gáfum aldrei upp þá von, þó þetta hafi ekki farið vel af stað.

Persónulega gekk mér mjög vel og ég var fljótur að komast inn í hlutina. Ég fann strax fyrir miklu trausti, bæði frá liðsfélögum mínum, þjálfurunum og öllum sem störfuðu í kringum félagið og það hjálpar alltaf mikið. Það var líka gaman að taka þátt í þessu bandaríska fyrirkomulagi og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að prófa það.“

Mjög stuttur aðdragandi

Óttar Magnús lék með Siena í ítölsku C-deildinni fyrir áramót og áttu flestir von á því að hann myndi klára tímabilið þar.

„Aðdragandinn að félagsskiptunum til Oakland var mjög stuttur. Planið var alltaf að spila allt tímabilið með Siena í C-deildinni. Þegar komið var inn í janúar var ég búinn að vera með fjóra mismunandi þjálfara hjá félaginu, það var kominn nýr forseti hjá klúbbnum og nýr yfirmaður íþróttamála. Þeir ákveða að rifta samningum mínum á lokadegi félagaskiptagluggans og þá stóðu mér í raun engir aðrir valkostar til boða í Evrópu.

Ég þurfti því að leita út fyrir Evrópu og eigendahópurinn hjá Venezia er að hluta til sá sami og hjá Oakland og það er ákveðin tenging á milli þessara félaga. Það var fyrst og fremst ástæðan fyrir því að ég endaði í Oakland og eftir að þetta kom upp á borðið þá ákvað ég að stökkva á það.“

Aðstaðan í heimsklassa

Oakland er í Kaliforníu, í San Francisco-flóanum, en þar búa um 434.000 manns.

„Ég er ekkert mesti aðdándi Oakland-borgarinnar og ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá fannst mér ég ekkert alltaf mjög öruggur, sérstaklega þegar það var orðið dimmt úti. Við bjuggum í öruggu hverfi þarna en maður varð alveg var við það að þetta er ekkert öruggasta borg í heimi. San Francisco og flóinn þar í kring er hins vegar algjörlega geggjað svæði. Napa-dalurinn er þarna rétt hjá líka og umhverfið þar í kring er mjög sjarmerandi.

Á sama tíma eru Bandaríkjamenn þekktir fyrir aðstöðu í algjörum heimsklassa þegar kemur að íþróttum, og þetta eru með betri aðstæðum sem ég hef æft og keppt við á ferlinum. Gæðin á æfingum voru hins vegar ekki endilega það hæsta sem maður hefur komist í kynni við. Það var frekar mikill munur á getustigi leikmanna og það var mikill munur á þeim sem voru í betri kantinum og þeim sem voru í þeim lakari.“

Bíður eftir svari

Óttar Magnús gekk til liðs við Venezia frá Mjällby í Svíþjóð árið 2020 en hann er samningsbundinn ítalska liðinu til sumarsins 2025.

„Ég á tvö og hálft ár eftir af samningi mínum við Venezia en ég hef auðvitað ekki fengið mikinn spiltíma hérna síðan ég kom. Ég er að bíða eftir svari frá félaginu varaðandi það hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér. Draumastaðan væri að vera áfram í Feneyjum en ég þarf þá að fá traust frá félaginu til þess að spila.

Liðið er auðvitað í B-deildinni eftir að hafa fallið úr A-deildinni síðasta haust. Það hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel hjá þeim hingað til og þeir eru sem stendur í fimmtánda sæti. Það eru margir góðir og dýrir leikmenn þarna, enda er félagið ágætlega vel stætt, en strúktúrinn í kringum félagið er kannski ekki alveg sá ákjósanlegasti.

Eins og þetta horfir við mér þá er ágætis möguleiki fyrir mig núna til þess að vinna mér inn sæti í liðinu en við þurfum að bíða og sjá hvernig þetta þróast. Mér líkar lífið á Ítalíu og ég væri alveg til í að spila hérna áfram, hvort sem það er hjá Venezia eða annars staðar, en fyrst og fremst vil ég spila fótbolta reglulega,“ bætti Óttar Magnús við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason