[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórir Jóhann Helgason, landsliðsmaður í knattspyrnu, meiddist á hné á æfingu með liði sínu, Lecce á Ítalíu, í fyrradag. Félagið skýrði frá því í gær að meiðslin væru ekki alvarleg en hann myndi væntanlega missa af tveimur fyrstu leikjum liðsins í A-deildinni eftir áramótin

Þórir Jóhann Helgason, landsliðsmaður í knattspyrnu, meiddist á hné á æfingu með liði sínu, Lecce á Ítalíu, í fyrradag. Félagið skýrði frá því í gær að meiðslin væru ekki alvarleg en hann myndi væntanlega missa af tveimur fyrstu leikjum liðsins í A-deildinni eftir áramótin.

Sænski knattspyrnumaðurinn Emil Berger er farinn frá Leikni í Reykjavík en hann hefur verið í stóru hlutverki hjá liðinu undanfarin tvö ár. Emil kveður Leikni sem næstmarkahæsti leikmaður liðsins í efstu deild og sá þriðji leikjahæsti.

Nökkvi Þeyr Þórisson, framherji Beerschot í Belgíu, og Aron Bjarnason, kantmaður Sirius í Svíþjóð, eru nýliðar í landsliðshópnum í knattspyrnu sem Arnar Þór Viðarsson kynnti í gær vegna vináttulandsleikja við Svíþjóð og Eistland sem fram fara á Algarve í Portúgal 8. og 12. janúar. Arnór Ingvi Traustason er leikjahæstur með 44 landsleiki en hann kemur aftur inn eftir nokkurt hlé, sem og Guðlaugur Victor Pálsson sem hefur leikið 31 landsleik en missti af leikjum liðsins í nóvember. Auk þeirra hafa aðeins Arnór Sigurðsson, Sveinn Aron Guðjohnsen, Andri Lucas Guðjohnsen og Davíð Kristján Ólafsson leikið fleiri en 10 landsleiki en hópinn í heild má sjá á mbl.is/sport.

Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson lauk í gær keppni á Opna Máritíusmótinu á afrísku eyjunni Máritíus, en hann náði ekki að komast í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi. Guðmundur lék vel í gær, var á 70 höggum, eða tveimur undir pari vallarins, en náði ekki að vinna upp slæman fyrsta hring á fimmtudaginn þegar hann lék á 78 höggum. Guðmundur var fjórum höggum frá því að komast í hóp 70 efstu og leika tvo síðari hringina en hann endaði í 104.-112. sæti af 156 keppendum á mótinu sem er liður í Evrópumótaröðinni.

Sinisa Mihajlovic, fyrrverandi landsliðsmaður Júgóslavíu og síðan knattspyrnustjóri margra liða á Ítalíu, lést í gær, 53 ára að aldri, eftir langa baráttu við hvítblæði. Mihajlovic var síðast stjóri Bologna frá 2019 og þar til honum var sagt upp störfum í september. Hann lék um árabil á Ítalíu og er mesti aukaspyrnusérfræðingur í sögu A-deildarinnar en hann á metið í deildinni þar sem hann skoraði 28 sinnum beint úr aukaspyrnu.

Spænski knattspyrnumaðurinn Sergio Busquets hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna. Þetta tilkynnti leikmaðurinn í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum Instagram en Busquets, sem er 34 ára gamall leikmaður Barcelona, lék alls 143 A-landsleiki fyrir Spánverja og var fyrirliði þeirra á heimsmeistaramótinu í Katar.

Handknattleiksmaðurinn Örn Vésteinsson Östenberg hefur samið við N-Lübbecke út yfirstandandi leiktíð. Hann kemur til þýska félagsins frá Haslum í Noregi. Hann lék þar á undan með Emsdetten í Þýskalandi. Örn er 24 ára skytta, sem hefur leikið með Selfossi og Gróttu hér á landi. Hann ólst þó upp í Svíþjóð, en er sonur Vésteins Hafsteinssonar eins fremsta kringlukastsþjálfara heims.

Arnleifur Hjörleifsson, sem hefur leikið með Kórdrengjum undanfarin þrjú ár, samdi í gær við Skagamenn og leikur með þeim í 1. deildinni í knattspyrnu á komandi tímabili. Arnleifur er 22 ára bakvörður sem lék með ÍA og Víkingi í Ólafsvík í yngri flokkunum.

Ástralski knattspyrnumaðurinn Joey Gibbs hefur skipt úr Keflavík og í Stjörnuna. Mun hann því leika með Garðabæjarliðinu á næsta tímabili. Gibbs hefur gert góða hluti með Keflavík undanfarin þrjú ár og skorað 36 mörk í 62 deildarleikjum í tveimur efstu deildum Íslands.

Framtíð Gareths Southgates sem landsliðsþjálfari karlaliðs Englands í fótbolta kemur í ljós snemma á næsta ári. Mun enska knattspyrnusambandið gefa Southgate frest yfir hátíðarnar til að koma með endanlegt svar um framtíð sína sem landsliðsþjálfari.