„Ég er yfirleitt með margt í gangi í einu. Einu sinni heyrði ég það heilræði að maður ætti alltaf að einbeita sér að því þar sem hitinn er. Þegar þessar smásögur byrjuðu að draga mig inn passaði ég bara að neita þeim ekki um athyglina,“…

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég er yfirleitt með margt í gangi í einu. Einu sinni heyrði ég það heilræði að maður ætti alltaf að einbeita sér að því þar sem hitinn er. Þegar þessar smásögur byrjuðu að draga mig inn passaði ég bara að neita þeim ekki um athyglina,“ segir Örvar Smárason um fyrsta smásagnasafnið sitt sem nefnist Svefngríman og nýverið kom út. Áður hefur hann sent frá sér nóvelluna Úfin, strokin og ljóðabókina Gamall þrjótur, nýir tímar.

Það er óhætt að segja að sögurnar átta sem í bókinni birtast vegi skemmtilega salt á milli hins hversdaglega og fjarstæðukennda. Var það með ráðum gert?

„Ég held að það komi til af því að ég var að reyna að skrifa eins hversdagslegar sögur og ég gæti um fólk sem stendur hvergi út úr og býr í nákvæmlega sama heimi og við hin í hversdagsleika okkar. Því hinn hlutinn, þ.e. furðurnar og skringilegheitin, þau koma bara af sjálfu sér. Með því að dvelja með persónum í eins fábrotnum og venjulegum aðstæðum og hugsast getur komst ég miklu nær persónum en ég hafði ímyndað mér,“ segir Örvar og bendir sem dæmi á að persónur hans fara í sund, nenna ekki að vaska upp og liggja í baði. Á sama tíma fjalla sögurnar um óraunverulega hluti á borð við síðasta kaffibollann fyrir heimsendi, eðlilegan útlimamissi og gervigreindarvináttu.

Oft úðað frá sér ýmsu efni

Er smásagnasafnið búið að vera lengi í smíðum?

„Já, ég er búinn að vinna þetta mikið og lengi. Á sama tíma er ég búinn að vera að skrifa mikið annað og semja tónlist, þannig að þetta hefur ekki verið eina verkið mitt á síðustu árum,“ segir Örvar, sem er þekktur fyrir verk sín í tónlistarheiminum en hann er stofnandi hljómsveitarinnar múm og meðlimur FM Belfast frá upphafi auk þess sem hann hefur komið að fjölbreyttum samstarfsverkefnum og skrifað texta við lög fjölmargra íslenskra hljómsveita og tónlistarmanna.

„Eitt af því sem heillar mig við að skrifa er að geta verið einn og gefið mér aðeins lengri tíma til sköpunar, því ég hef í gegnum tíðina stanslaust verið að úða frá mér alls konar efni,“ segir Örvar og bendir á að tónlistarbransinn einkennist af mikilli samvinnu og samsköpun.

„Á sama tíma er mikilvægt að fá góðan yfirlestur,“ segir Örvar sem er menntaður í handritaskrifum frá kvikmynaskólanum FAMU í Prag, er með BA-gráðu frá Háskóla Íslands í kvikmyndafræði og útskrifaðist úr meistaranámi í ritlist vorið 2021. „Smásagnasafnið er að stórum hluta til skrifað meðan ég var í ritlistarnáminu. Það reyndist mér ómetanlegt að fá yfirlestur og endurgjöf frá bæði kennurum og samnemendum. Á sama tíma sköpuðust þar aðstæður sem kröfðust þess að ég temdi mér ákveðna vandvirkni, sem var gott.“

Gríma umlykur bókina

Fyrr á árinu fékkstu nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir Svefngrímuna, auk þess sem smásagan „Sprettur“ í safninu fékk fyrstu verðlaun á Júlíönuhátíðinni. Hvaða þýðingu hefur það haft fyrir þig að fá svona góðar viðtökur við skrifum þínum?

„Það að einhver skuli í fyrsta lagi nenna að lesa þetta og í öðru lagi gefa manni einhvers konar viðurkenningu, það gefur manni mikla orku og ástæðu til að halda áfram þegar maður vill gefast upp.“

Hönnun bókarinnar er mjög óvenjuleg. Hvernig er hún til komin?

„Ég er náttúrlega svo ótrúlega heppinn að komast að hjá útgáfunni Angústúru. Strax frá byrjun voru þær tilbúnar að leggja mikinn tíma og hugsun í alla útfærsluna á þessu bókverki. Birna Geirfinnsdóttir hjá Studio Studio á heiðurinn af sjálfri hönnuninni. Á einhverjum tímapunkti datt mér í hug að mig langaði að gera bók sem byrjaði á forsíðunni og endaði á baksíðunni, þannig að textinn væri aðalatriðið. Þá var ákveðinn höfuðverkur að koma upplýsingum um útgáfuna fyrir og þá kom þessi hugmynd um að setja þetta blað utan um bókina, sem verður síðan að þessari grímu,“ segir Örvar og bendir á að hægt sé að sjá texta bókarinnar í gegnum grímuna sem umlykur bókina. „Þetta er þunnt lag sem pínu byrgir sýnina og kallast þematískt sterklega á við innihaldið.“

Talandi um innihaldið þá er hægt að lýsa sögunum sem mjög harmrænum og sársaukafullum, en á sama tíma búa þær yfir húmorískum undirtón. Hvað getur þú sagt mér um þetta vandrataða einstigi?

„Ég held að ég gæti aldrei skrifað án þess að hafa einhvern húmor með. Að mínu mati haldast húmorinn og hrollvekjan oft þétt í hendur,“ segir Örvar og nefnir í því samhengi smásögur Shirley Jackson. „Þetta eru ekki hrollvekjur fullar af hryllingi heldur frekar ókennileika og furðulegheitum í aðstæðunum.“

Höf.: Silja Björk Huldudóttir