Íslandsmeistarar Vals jöfnuðu topplið Keflavíkur að stigum á toppi Subway-deildar karla í körfubolta með 88:75-heimasigri á deildarmeisturum Njarðvíkur í 10. umferðinni í gærkvöldi. Valur og Keflavík eru bæði með 16 stig, en Keflavík vann leik liðanna fyrr í vetur og er því í toppsætinu

Íslandsmeistarar Vals jöfnuðu topplið Keflavíkur að stigum á toppi Subway-deildar karla í körfubolta með 88:75-heimasigri á deildarmeisturum Njarðvíkur í 10. umferðinni í gærkvöldi.

Valur og Keflavík eru bæði með 16 stig, en Keflavík vann leik liðanna fyrr í vetur og er því í toppsætinu. Njarðvík er áfram í fjórða sæti með tólf stig, eins og Haukar og Tindastóll, og í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni.

Njarðvík vann fyrsta leikhlutann með tíu stigum og var með 37:33-forystu í hálfleik. Valsmenn voru hins vegar töluvert sterkari í seinni hálfleik.

Callum Lawson skoraði 25 stig fyrir Val og Kristófer Acox gerði 15 stig. Nicolas Richotti skoraði 16 fyrir Njarðvík og þeir José Martin og Mario Matasovic 15 hvor.

Framlengd spenna í Ólafssal

Grindavík hafði betur gegn Haukum eftir framlengingu og mikla spennu í Ólafssal, 81:78. Grindavík var með forystuna nánast allan leikinn, en með góðum endaspretti tókst Haukum að jafna og knýja fram framlengingu. Þar reyndust Grindvíkingar sterkari og unnu að lokum þriggja stiga sigur.

Ólafur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur skoraði 32 stig og tók níu fráköst fyrir sitt lið. Darwin Davis var stigahæstur í liði Hauka með 23 stig. Haukar eru í fimmta sæti með 12 stig og Grindavík í sjöunda sæti með tíu stig. Virðast þau bæði ætla í úrslitakeppnina, en ekki að berjast við efstu liðin.