Guðrún bendir á að þegar saman fara sveiflur á gengi og lengdur afhendingartími hjá framleiðendum þá geti vörur verið komnar með allt annað verð þegar þær berast loksins til landsins.
Guðrún bendir á að þegar saman fara sveiflur á gengi og lengdur afhendingartími hjá framleiðendum þá geti vörur verið komnar með allt annað verð þegar þær berast loksins til landsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðrún þekkir heilbrigðisgeirann út og inn og væntir mikillar byltingar með opnun nýs Landspítala. Sú hlið starfsemi Fastus sem snýr að hótel- og veitingageira er óðara að rétta úr kútnum og félagið vex hratt

Guðrún þekkir heilbrigðisgeirann út og inn og væntir mikillar byltingar með opnun nýs Landspítala. Sú hlið starfsemi Fastus sem snýr að hótel- og veitingageira er óðara að rétta úr kútnum og félagið vex hratt.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Síðustu ár hjá Fastus hafa verið mjög viðburðarík. Á meðan veiran gekk yfir fór allt á yfirsnúning á heilbrigðissviði, en fyrirtækjasviðið missti stóran hluta af tekjum sínum tímabundið. Okkur finnst þetta áhugaverð samsetning á fyrirtæki; vera ekki með öll eggin í sömu körfunni.

Rekstur félagsins hefur gengið afar vel síðustu ár. Heilbrigðissviðið, sem ég veiti forystu, hefur vaxið jafnt og þétt og bætt við sig vöruflokkum. Mesta áskorunin um þessar mundir er áfram að fá vörur frá birgjum. Vörur sem tók áður tvær til þrjár vikur að fá heim í vöruhús tekur núna stundum þrjá til fjóra mánuði. Stærsta áskorun Fastus á þessu sviði er að eiga gæðavörur fyrir Landspítala – Háskólasjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir og leggja sitt af mörkum til að tryggja öruggt streymi af vörum, þannig að ekki komi niður á sjúklingum.

Fastus hefur vaxið bæði með innri vexti en einnig höfum við reglulega keypt fyrirtæki sem starfa á sviðum sem falla að okkar rekstri og áherslum. Við erum til að mynda að innleiða starfsemi Expert ehf. að Fastus, en við keyptum félagið á árinu. Með Expert bætast við 35 starfsmenn og til samans nálgumst við 100 starfsmenn. Þessi innleiðing gengur vel en það þarf að vanda sig þannig að vel fari. Með fjölgun þarf að huga að eigin húsakosti og við erum að flytja starfsemina alla á Höfðabakka 7 seint á næsta ári, en erum nú með starfsemi á fimm stöðum. Það verður bylting fyrir starfsmenn og vonandi viðskiptavini líka og þar getum við vaxið áfram.

Fastus er líklega eitt fárra fyrirtækja á heilbrigðissviði sem geta útvegað flestar ef ekki allar vörur – rekstrarvörur, myndgreiningu og allan skurðstofubúnað fyrir heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili.

Við höfum verið að skipuleggja fyrirtækið til að mæta byggingu nýs Landspítala sem er stærsta verkefni sem við tökum þátt í. Verkefnið er miklu stærra en bara ný bygging. Ég er viss um að samhliða sjáum við byltingu á mörgum sviðum lækninga og hjúkrunar.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Það er stöðug endurnýjun á lækningatækjum og framleiðslu á lækningabúnaði. Fyrir okkur er það algjör nauðsyn að fylgjast
með á því sviði og flestir fyrirlestrar sem ég sæki eru „endurmenntun á mínu sviði“ ef svo má segja. Því tengt var ég í síðustu viku á fyrirlestri hjá erlendum birgi með nýja tækni fyrir sykursýkisvörur. Einnig er stutt síðan ég var á fyrirlestri hjá framleiðanda sem framleiðir og selur skurðstofuþjarka.

Hugsar þú vel um líkamann?

Já ég tel mig gera það og hef alltaf haft einföldu þrennuna að leiðarljósi: svefn, hreyfingu og mataræði. Ég reyni að ganga Gróttuhringinn nokkrum sinnum í viku fyrir utan lengri göngur um helgar, borða allt en þó frekar í hollari kantinum og það sem fer bara vel í mig og með mig.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Sveiflan á íslensku krónunni er mjög erfið fyrir reksturinn. Við gerum tilboð í vörur sem hafa allt annað verð þremur mánuðum seinna þegar þær koma til landsins. Stöðugt verðlag skiptir miklu fyrir okkur eins og flestra. Sérlega þegar við hjá Fastus erum með fasta samninga við Landspítala og megum ekki breyta verði nema á þriggja mánaða fresti. Oft hljóða pantanirnar upp á háar fjárhæðir þannig að hagsmunirnir eru miklir að hafa stöðugleika í verðbólgu og gengi.

Nú er ferðabransinn kominn á fullt aftur og mjög mikið að gera á fyrirtækjasviðinu sem hallaði á í faraldrinum. Gaman er að sjá hve mikið er af ferðafólki og hótelin fullbókuð. Við fögnum líka fjölgun einkaskurðstofa sem bæta þjónustuna um land allt.

Hin hliðin

Nám: Stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands 1979; CST-einkanám v. sérhæfingar í sölu á lækningatækjum í Connecticut 1992; diplómagráða í lækningavörum frá Babson College í Boston 1993; diplóma í leiðtogaháttum frá Opna háskólanum við HR 2003; diplóma í stjórnarháttum frá sama skóla 2008; viðurkenndur stjórnarmaður hjá Akademias 2020.

Störf: Meðeigandi, sölu- og markaðsstjóri Icedent ehf. Frá 1988 til 1996; meðeigandi, sölu- og markaðsstjóri GA Export í Virginíu 1996 til 2001; sölustjóri A. Karlsson 2002 til 2006; stofnandi og meðeignadi Fastus ehf. 2006; deildarstjóri heilbrigðissviðs frá 2006; starfandi framkvæmdastjóri frá 2022 ásamt Arnari Bjarnasyni.

Áhugamál: Golfið tók yfir fyrir nokkrum árum, það er langskemmtilegast. Og í Nesklúbbnum er mjög öflugt kvennastarf og gaman að taka þátt í því. Hef líka gaman af að ferðast um fallega landið okkar á sumrin, veiða, spila golf og ganga á fjöll, og er nýbyrjuð að ganga á skíðum. Að vera með barnabörnunum og upplifa þeirra veröld er yndislegt. Samsetta fjölskyldan okkar Friðriks telur sextán manns og skemmtilegast þegar við hittumst öll og njótum saman. Ég er í stjórn FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu. Er í tveimur nefndum innan FKA – jafnvægisvoginni og viðurkenningarhátíðinni, og hef verið í Oddfellow í nokkur ár.

Fjölskylduhagir: Í sambúð með Friðriki Friðrikssyni hagfræðingi. Ég á þrjú börn, tengdabörn og tvö barnabörn og Friðrik á tvo syni, tengdadætur og þrjú barnabörn.