Sek Andlit Furchner var falið.
Sek Andlit Furchner var falið. — AFP
Fyrrverandi einkaritari fangabúðastjóra nasista hefur verið fundinn sekur um aðild að drápi yfir 10.500 manns. Sú sem um ræðir heitir Irmgard Furchner, 97 ára. Árin 1943 til 1945 starfaði hún í fangabúðunum Stutthof í norðurhluta Póllands

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Fyrrverandi einkaritari fangabúðastjóra nasista hefur verið fundinn sekur um aðild að drápi yfir 10.500 manns. Sú sem um ræðir heitir Irmgard Furchner, 97 ára.

Árin 1943 til 1945 starfaði hún í fangabúðunum Stutthof í norðurhluta Póllands. Furchner hefur nú verið dæmd í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir störf sín þar.

Búðirnar opnuðu í september 1939 og voru reknar óslitið til 9. maí 1945, eða allt þar til Rauði herinn frelsaði fangana þar. Talið er að 110.000 fangar hafi verið vistaðir í búðunum og voru allt að 65.000 þeirra myrtir. Var fólkið ýmist skotið, tekið af lífi í gasklefum eða örmagnaðist vegna þrælkunarvinnu og skelfilegs aðbúnaðar. Sjálf var Furchner táningur að aldri þegar hún vann í búðunum. Hún heyrði hins vegar beint undir fangabúðastjórann og SS-yfirmanninn Paul-Werner Hoppe, hvaðan allar skipanir bárust. Hoppe var árið 1955 dæmdur til níu ára fangelsisvistar fyrir stjórnunarstörf sín í fangabúðunum. Hann lést árið 1974, 64 ára gamall.

Lögmaður Furchner sagði fyrir dómi vafa leika á því hvað hún vissi í raun og veru. Sjálf sagði hún fátt fyrir dómi. Það helst að hún sæi eftir tíma sínum í fangabúðunum.