Rithöfundarbaktería Ásgeir Þórhallsson hvítaskáld skrifaði um hörmungaratburði á Austurlandi.
Rithöfundarbaktería Ásgeir Þórhallsson hvítaskáld skrifaði um hörmungaratburði á Austurlandi. — Ljósmynd/Ásgeir Þórhallsson
Vorið 1784 komu þrír flækingspiltar úr Breiðdal sér fyrir í litlum hellisskúta til næturgistingar í tindinum Naphorni, skammt sunnan Breiðdalsvíkur. Þeir stefndu suður í Austur-Skaftafellssýslu og ætluðu að leggjast í flakk þar

Vorið 1784 komu þrír flækingspiltar úr Breiðdal sér fyrir í litlum hellisskúta til næturgistingar í tindinum Naphorni, skammt sunnan Breiðdalsvíkur. Þeir stefndu suður í Austur-Skaftafellssýslu og ætluðu að leggjast í flakk þar. Misklíð milli þeirra varð til þess að einn piltanna var drepinn og úr varð sakamál sem lyktaði með því að annar eftirlifandi drengurinn var dæmdur til ævilangrar þrælkunarvinnu en hinn hálshöggvinn á Mjóeyri.

Þessi saga varð Ásgeiri Þórhallssyni hvítaskáldi svo hugleikin að hann gerði úr henni sögulega skádsögu sem heitir einfaldlega Morðið á Naphorni.

Ásgeir segist hafa rekist á söguna á söguskilti á Eskifirði þar sem sá drengjanna sem var höggvinn sé grafinn. „Seinna rakst ég á aðra útgáfu af sögunni, þar sem kom fram að skrifað væri í kirkjubækur að hann hefði verið latur við kristin fræði og strokusamur. Í þriðju útgáfu sögunnar kom fram að presturinn skrifaði það sama um alla drengi á þessum tíma. Þegar ég svo las að böðullinn hefði neitað að höggva þennan dreng fékk ég áhuga á sögunni og þá varð ekki aftur snúið.“

Ásgeir fór í rannsóknarferð á slóðir harmleiksins og rakti ferðir drengjanna alla leið upp í hellinn í Naphorninu. „Lengi vel fann ég ekki hellinn, en gömul kona frá Breiðdalsvík fór með mig á staðinn og benti mér á hann. Ég fékk hjálparsveitina frá Norðfirði til að fljúga dróna þangað upp og mynda hellinn, en þarna í 430 metra hæð er hellishvelfing með hlöðnum vegg og kindaslóð þangað upp.

Ég bý á Egilsstöðum og fólk hér á svæðinu þekkir þessa sögu. Réttarhöldin eru skráð í dönskum réttargögnum. Ég bjó í 20 ár í Kaupmannahöfn svo ég þekki söguna þar vel. Þetta er rosaleg saga og það var átak að skrifa hana.

Fyrst skrifaði ég söguna sem leikrit, fannst erfitt að skrifa allar þessar staðháttalýsingar. En komst ekkert með leikritið. Þessi saga lét mig þó ekki í friði og því ákvað ég að skrifa hana sem skáldsögu þar sem ég gæti sagt allt. Þá kom í ljós að ég átti mjög auðvelt með allar þessar lýsingar, en skrifin tóku um fjögur ár.“

Ásgeir hefur lengi skrifað. Hann sendi frá sér fyrstu bókina fyrir hálfum fimmta áratug. Hann segist margsinnis hafa reynt að hætta skrifum. „En þessi rithöfundarbaktería er seig og gjörsamlega útilokað að losna við hana ef hún hefur bitið sig fasta. Hugmyndirnar hætta aldrei að streyma inn.“ arnim@mbl.is