” Ólíklegustu menn hafa þurft að vera sammála um það að lögregla þurfi ekki frekari rannsóknarheimildir …

Lögfræði

Magnús Óskarsson

Lögmaður með málflutningsréttindi í New York-ríki og hæstaréttarlögmaður hjá Lögmáli ehf.

Hinn 21. september 2022 voru fjórir menn handteknir vegna gruns um brot á ákvæði almennra hegningarlaga um hryðjuverk. Tveir þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og í einangrun. Nú í desembermánuði voru þessir tveir menn ákærðir. Strax daginn eftir handtökurnar, hinn 22. september, hélt lögregla blaðamannafund vegna málsins. Þar töluðu þrír yfirmenn lögreglu í svörtum skyrtum með svört bindi um málið. Aftur hinn 29. september síðastliðinn hélt lögregla blaðamannafund. Fljótlega kom fram gagnrýni frá verjendum mannanna um að þeir þyrftu að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi óvenjulega lengi. Einnig varð snemma vart við aðhald dómstóla og þá einkum Landsréttar sem meðal annars stytti gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms og felldi síðari gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms úr gildi nú í desember. Í kjölfar þess að Landsréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurði úr gildi sagðist embætti ríkislögreglustjóra vera „með ákveðnar aðgerðir“ í gangi vegna þess án þess að tilgreina hverjar þær væru. Fram kom að mennirnir hefðu kannað tímasetningu á árshátíð lögreglumanna og annar þeirra hefði lýst áhuga á að útvega sér lögreglubúning.

Ef trúa má umfjölluninni um málið var þarna um að ræða unga menn sem mögulega voru með einhverjar ráðagerðir. Málið hafði samt í upphafi á sér mikinn ólíkindablæ hvað varðar alvarleika brotanna, t.d. þegar í ljós kom að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir öðrum manninum var aðeins ein vika. Í einföldustu fíkniefnamálum eru úrskurðir gjarnan lengri. Þarna var strax farið að líta út fyrir að ekki væri allt sem sýndist og það virðist smátt og smátt vera að koma frekar í ljós. Það að efnt hafi verið til tveggja sérstakra blaðamannafunda með breiðsíðu lögreglumanna til að láta þjóðina vita að lögregla hefði afstýrt hryðjuverkum eða afrekað eitt og annað í rannsókninni kunna að hafa verið of dramatísk viðbrögð. Á sama tíma á Íslendingum væntanlega að vera létt yfir því hversu öflug löggæslan er og á væntanlega að gera kröfu um frekari forvirkar rannsóknarheimildir. Slíkar heimildir eru stórvarasamar. Allt gerist þetta á sama tíma og fjárlagafrumvarpið er í smíðum og fyrir liggur nýtt lagafrumvarp um að veita lögreglu auknar forvirkar rannsóknarheimildir.

Ólíklegustu menn hafa þurft að vera sammála um það að lögregla þurfi ekki frekari rannsóknarheimildir, forvirkar eða aðrar, ef hún getur ekki staðið við þá einföldu lagaskyldu sína að gefa ríkissaksóknara skýrslur um hleranir.

Viðbrögð lögreglu vegna þessa svokallaða hryðjuverkamáls má kannski bera saman við annað nýlegt mál vegna hnífaárásar á skemmtistað í Bankastræti. Þar herma fréttir að á þriðja tug manna hafi ráðist vopnaðir á þrjá menn. Engir blaðamannafundir voru haldnir vegna þess máls þótt þar hafi tugir manna verið staðnir að verki í öryggismyndavélum með hnífa á lofti, mönnum hafi blætt og jafnvel látið að því liggja að klíkur berjist um völd. Það er meira að segja svo að atburðirnir í Bankastræti gætu fallið að orðalagi hryðjuverkaákvæðis almennra hegningarlaga, þ.e.a.s. ef tilgangurinn var að valda almenningi verulegum ótta. Ef sá var tilgangurinn þá virðist það jafnvel hafa tekist því fréttir voru fluttar af því að næturlífið í miðborg Reykjavíkur hefði verið með rólegra móti helgina eftir árásina og nokkrum stöðum verið lokað fyrr.

Skýringar skortir á því hvers vegna þessi mál fá svona mismunandi vægi og mismunandi umfjöllun lögreglu. Var það vegna þess að hinir meintu hryðjuverkamenn minntust á árshátíð lögreglumanna eða vegna þess að annar piltanna hafði viðrað hugmyndir um lögreglubúning? Getur verið að lögregla sé á einhvern hátt hræddari við hnífamennina en þrívíddarprentaramennina?

Gagnvart almenningi þarf skýringar á því hvers vegna lögregla taldi ástæðu til að reisa öll þessi rauðu flögg í hinu svokallaða hryðjuverkamáli.