Ófært Víða hefur verið ófært vegna veðursins, þar á meðal á Reykjanesbraut. Því var mörgum flugferðum aflýst.
Ófært Víða hefur verið ófært vegna veðursins, þar á meðal á Reykjanesbraut. Því var mörgum flugferðum aflýst. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hægt hefði verið að halda úti fullri starfsemi á Keflavíkurflugvelli í gær og fyrradag, fyrir utan stutt tímabil aðfaranótt þriðjudagsins. Lokun Reykjanesbrautar varð aftur á móti til þess að öllu flugi var aflýst í fyrradag og hluta gærdagsins

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Hægt hefði verið að halda úti fullri starfsemi á Keflavíkurflugvelli í gær og fyrradag, fyrir utan stutt tímabil aðfaranótt þriðjudagsins. Lokun Reykjanesbrautar varð aftur á móti til þess að öllu flugi var aflýst í fyrradag og hluta gærdagsins. Fólk komst ekki á völlinn vegna lokunarinnar og gátu starfsmenn sömuleiðis ekki ferðast til vinnu um Reykjanesbrautina, sem olli undirmönnun á vellinum.

„Það sem breytist í veðuraðgerðastjórninni hjá okkur er að við munum fá Vegagerðina í samstarf til framtíðar,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Morgunblaðið.

Vegagerðin ákvað ekki í tómarúmi að loka Reykjanesbrautinni í fyrradag, þar sem það þótti nauðsynlegt til að tryggja öryggi þar að sögn upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, G. Péturs Matthíassonar.

„Við vitum náttúrlega hvert mikilvægi Reykjanesbrautar er, en flugfélögin hafa ekkert með þessa ákvörðun að gera. Það var búið að opna samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð. Þótt við séum veghaldarinn og stýrum lokunum þá er þetta ekki ákvörðun sem við tökum í tómarúmi,“ segir Pétur og bætir við að lögregla og almannavarnir séu með í ráðum.

Ekki liggur fyrir hvenær flugferðir Icelandair verða komnar aftur á áætlun, en flugfélagið hyggst leigja tvær breiðþotur til þess að mæta uppsafnaðri ferðaþörf. Vélarnar verða teknar í gagnið í dag. Þetta sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

Hótel Keflavík yfirfullt í gær

„Við erum í mjög góðum málum. Við fengum gistingu hér á hótelinu og þurfum ekki að vera á vellinum eða í fjöldahjálparstöð,“ segir Mariusz, sem mbl.is ræddi við í gær. Hann er á meðal strandaglópa á Hótel Keflavík eftir að flugferðum gærdagsins var aflýst. Hann og fjölskylda hans eru á leið til Póllands í jólafrí.

„Þegar búið var að aflýsa fluginu hékk ég bara á línunni hjá Iceland­air til þess að fá nýtt flug. Síðan var bara að taka næsta símtal og redda gistingu,“ segir Mariusz, sem bjó svo vel að þekkja til á hótelinu, svo hann fékk gistingu fyrir sig og fjölskyldu sína. Hótel Keflavík var í gær troðfullt af ferðamönnum.

„Hótelið er alveg pakkað og í gær var hér verið að dreifa koddum og sængum til fólks sem beið í lobbíinu og var ekki með gistingu. Það er hugsað vel um alla sem lentu hér. Hótelið á stórt hrós skilið.“

Höf.: Veronika Steinunn Magnúsdóttir