Vetrarríki Fjölmargir ferðalangar hafa verið strandaglópar hér síðustu daga vegna óveðurs. Margir ferðamenn ætla að vera hér yfir hátíðarnar.
Vetrarríki Fjölmargir ferðalangar hafa verið strandaglópar hér síðustu daga vegna óveðurs. Margir ferðamenn ætla að vera hér yfir hátíðarnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Búast má við því að þúsundir erlendra ferðamanna verji jólum og áramótum hér á landi í ár ef veður og samgöngur leyfa. Bókunarstaða í ferðaþjónustu er ágæt miðað við þennan tíma árs að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Búast má við því að þúsundir erlendra ferðamanna verji jólum og áramótum hér á landi í ár ef veður og samgöngur leyfa. Bókunarstaða í ferðaþjónustu er ágæt miðað við þennan tíma árs að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Á árunum fyrir faraldurinn gæti ég trúað að hér hafi verið um 30-40 þúsund manns yfir hátíðarnar. Ég myndi halda að það nálgist svipaða tölu núna og hér verði um 25-30 þúsund manns í ár,“ segir Jóhannes Þór.

Jóhannes segir að ferðamenn frá Asíu, einkum og sér í lagi frá Kína, séu ekki farnir að skila sér hingað eftir kórónuveirufaraldurinn og munar um minna. „Að sama skapi hefur orkukrísan áhrif á okkur og ferðalög fólks úti í heimi. Bretlandsmarkaður er heldur rólegur núna. Við höfum reyndar ekki séð harkaleg áhrif á Bretlandsmarkaðinn í vetur en við höfum hins vegar ekki náð að stækka hann eins mikið og okkur langar til. Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru sem fyrr langsterkasti hópurinn.“

Margir ferðamenn veðurtepptir hér á landi

Illviðrasamt hefur verið hér á landi síðustu daga. Flugferðir hafa verið felldar niður og erlendir ferðamenn hafa verið strandaglópar á Keflavíkurflugvelli. Þá hefur Reykjanesbrautin verið lokuð fyrir umferð. Jóhannes segir að vitað sé að það geti komið upp aðstæður hér á landi þar sem samgöngur raskist en krossleggur fingur í von um að þetta hafi ekki áhrif á komur ferðamanna yfir hátíðarnar.

„Þetta er hins vegar á versta tíma og það er mjög óheppilegt að þetta standi yfir í svona langan tíma. Þarna blandast saman að veður er þannig að ekki er hægt að fljúga og svo er vandamál með einu leiðina út á flugvöll. Ég hef ekki næga þekkingu á snjómokstri til að átta mig á hvað væri hægt að gera betur en ég hugsa að best væri að viðeigandi aðilar hittist þegar þetta er afstaðið og setji upp áætlanir um hvað megi betur fara.“

Hefur ekki áhyggjur af langtímaáhrifum

Þeir erlendu farþegar sem hér hafa verið strandaglópar hafa margir viðrað óánægju sína á samfélagsmiðlum. Jóhannes segir að vissulega sé aldrei gott þegar það gerist en kveðst ekki hafa áhyggjur af langtímaáhrifum að svo komnu máli.

„Þetta er sannarlega mjög erfitt ástand og hefur eflaust einhver áhrif. Það er auðvitað skelfilegt fyrir þá ferðamenn sem hafa lent í þessu og vitaskuld spyrst það út. Almennt séð hafa svona atburðir þó ekki mikil langtímaáhrif til hins verra. Áhrifin eru kannski til skamms tíma, rétt eins og þegar verða verkföll á flugvöllum og fólk lendir í hremmingum. En til langs tíma eru ekki varanleg áhrif á áfangastaði.

Fyrirtæki hér upplýsa sína kúnna ágætlega um að hér geti brugðið til ýmissa veðra á þessum tíma árs. Stór hluti fólks er því vel upplýstur. Fyrir fólk sem á ekki að venjast svona veðri eru þetta erfiðar aðstæður og því er eðlilegt að fólk verði frústrerað og grimmt.“

Gjöfulu ári að ljúka

Mikill fjöldi í nóvember

Árið sem er að renna sitt skeið á enda hefur verið gjöfult fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Fjöldi erlendra ferðamanna er farinn að slaga upp í það sem best lét áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Og ferðamennirnir létu ekki bara sjá sig í sumar. Þannig var greint frá því á dögunum að brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll hafi verið um 138 þúsund í nóvember samkvæmt talningu Ferðamálastofu. „Um er að ræða þriðja fjölmennasta nóvembermánuðinn frá því að mælingar hófust. Brottfarir í ár voru 92% af því sem þær voru í nóvember 2018, þegar mest var. Ríflega helmingur brottfara í nýliðnum nóvember var tilkominn vegna Bandaríkjamanna og Breta,“ segir á vef Ferðamálastofu. Þar kemur jafnframt fram að frá áramótum hefur tæplega 1,6 milljón erlendra farþega farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 620 þúsund.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon