Á mánudaginn lumaði Ingólfur Ómar Ármannsson að mér eins og tveimur jólavísum þegar aðeins sex dagar voru til jóla: „Gleði bundin ást og yl unaðsfundir skarta. Vermir lund og hugans hyl helgistundin bjarta

Á mánudaginn lumaði Ingólfur Ómar Ármannsson að mér eins og tveimur jólavísum þegar aðeins sex dagar voru til jóla:

„Gleði bundin ást og yl

unaðsfundir skarta.

Vermir lund og hugans hyl

helgistundin bjarta.

Svo kom snjórinn og þá varð þessi til.

Jólanótt.

Hljótt um bólin breiðist ró

byrgir njóla fjöllin.

Sveipar hóla holt og mó

hrímhvít jólamjöllin.“

Bólu-Hjálmar kvað:

Ofan gefur snjó á snjó

snjóum vefur flóa tó.

Tófa grefur móa mjó

mjóan hefur skó á kló.

Stefán Ólafsson í Vallanesi er á svipuðum nótum:

Ofan drífur snjó á snjó,

snjóar hylja flóa tó.

Tófa krafsar móa mjó,

mjóan hefur skó á kló.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir „Jólasveina faraldur (hringhend sléttubönd)“:

Jólasveinar fjöllum frá

ferðum beina núna,

fóla greina marga má

móða veina lúna.

Lúna veina móða má

marga greina fóla,

núna beina ferðum frá

fjöllum sveinar jóla.

Jón Gissurarson segir á Boðnarmiði að meðan konan hamist við að hnoða deig í smákökur til jólanna sitji hann við tölvuna og velti fyrir sér vísukorni:

Að mér setur engan beyg

eða nokkra krísu.

Konan hnoðar kökudeig

karlinn gerir vísu.

Anton Helgi Jónsson yrkir:

Það blæs nú af ruddaskap rokið

svo reyndar er mér öllum lokið;

hér skelf ég sem strá

og skiljanlegt þá

að skuli í mig geta fokið.

Sigurður Breiðfjörð kvað þegar skuldar var krafið:

Ég er snauður, enginn auður

er í hendi minni,

nærri dauður, drottins sauður,

í djöfuls veröldinni.

Jón Magnússon skáld kvað, þegar Guðmundur á Sandi og sr. Sigurður Einarsson þá dósent áttust við í útvarpinu:
Þó að fimur Siggi sé
og sveifli vígðum brandi
svitnar hann við að koma á kné
karlinum frá Sandi.
Guðrún Árnadóttir frá Oddsstöðum kveður:
Bera urðum skin og skúr
skilningsþurrð og trega.
Þó hefur snurðum okkar úr
undist furðanlega.
Matthías Jochumsson skrifaði framan á kvæðabók sína, er hann gaf Símoni Dalaskáldi:
Bók í nesti býð ég dreng
Braga fæddum slekti.
Skarpari gest við Fjölnis feng
fann ég ei né þekkti.
Símon kvað:
Matthías prestur! Þarf ég þér
þakkir vanda í orði.
Þetta nesti þykir mér
þekkur andar forði.
Sigurey Júlíusdóttir (1901-1983) kvað:

Mikið er þín menntun klár

og miklar gáfur þínar.

Þú veist alveg upp á hár

ávirðingar mínar.Steingrímur Thorsteinsson kvað:
Grundin vallar glituð hlær,
glóir á hjalla og rinda,
sólar halla blíður blær
blæs um fjallatinda.