Æviskrár Skagfirskar æviskrár, 9. bindi fyrir tímabilið 1910-1950.
Æviskrár Skagfirskar æviskrár, 9. bindi fyrir tímabilið 1910-1950.
Sögufélag Skagfirðinga hefur gefið út bókina Skagfirskar æviskrár, níunda bindi fyrir tímabilið 1910-1950. Bókin inniheldur 90 æviskrárþætti um 173 einstaklinga sem bjuggu eða héldu heimili í Skagafirði á fyrri hluta 20

Sögufélag Skagfirðinga hefur gefið út bókina Skagfirskar æviskrár, níunda bindi fyrir tímabilið 1910-1950. Bókin inniheldur 90 æviskrárþætti um 173 einstaklinga sem bjuggu eða héldu heimili í Skagafirði á fyrri hluta 20. aldar.

Ritstjórn bókarinnar var í höndum Hjalta Pálssonar og Ingimars Jóhannssonar. Alls hefur Sögufélag Skagfirðinga gefið út 20 bækur af Skagfirskum æviskrám. Fyrstu fjórar bækurnar, frá tímabilinu 1890-1910, komu út á árunum 1964-1972 en á árunum 1981-1999 komu út sjö bindi í flokknum 1850-1890. Árið 1994 hófst svo útgáfa á æviskrám frá tímabilinu 1910-1950 en hún hefur legið niðri frá 2013, eða þar til að þetta níunda bindi tímabilsins er komið út.

Í formála Hjalta Pálssonar kemur m.a. fram að með þessu 20. bindi Skagfirskra æviskráa séu komnir á prent 3.200 æviskrárþættir meira en 6.000 einstaklinga sem einhvern tímann hafa haldið heimili í Skagafirði á árunum 1850 til 1950. Þá upplýsir Hjalti að nú þegar sé tilbúið efni í 2-3 bækur í viðbót. „Er hér saman kominn gríðarlegur fróðleikur um fólk fyrri tíðar sem verður verðmætari eftir því sem tímar líða, og í mörgum tilfellum alþýðufólks, kannski einu aðgengilegu upplýsingarnar,“ ritar Hjalti ennfremur.

Höfundar þáttanna 90 í þessari nýju bók eru 15 talsins. Flesta þættina ritaði Egill Bjarnason, ráðunautur á Sauðárkróki, eða 40, auk þess sem hann er meðhöfundur að fjórum þáttum. Að starfi loknu sem ráðunautur vann Egill við skráningu þáttanna fyrir Sögufélagið um nokkurra ára skeið. Egill féll frá 2015 en hafði gengið frá allmörgum þáttum til birtingar.

Ingimar Jóhannsson er höfundur nokkurra æviskrárþátta, auk þess sem hann gekk frá öðrum fyrir prentun. Hjalti Pálsson er einnig meðal höfunda, svo nokkrir séu nefndir. bjb@mbl.is