Fjölskylda Rán Flygering sér um myndlýsingar í bókinni Bannað að ljúga.
Fjölskylda Rán Flygering sér um myndlýsingar í bókinni Bannað að ljúga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bráðskemmtilegt framhald Bannað að ljúga ★★★★½ Texti: Gunnar Helgason. Myndir: Rán Flygenring Mál og menning, 2022, 201 bls. Bannað að ljúga er bráðskemmtilegt framhald af bókinni Bannað að eyðileggja

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Bráðskemmtilegt framhald

Bannað að ljúga ★★★★½

Texti: Gunnar Helgason.

Myndir: Rán Flygenring

Mál og menning, 2022, 201 bls.

Bannað að ljúga er bráðskemmtilegt framhald af bókinni Bannað að eyðileggja. Þar segir frá Alexander Daníel Hermanni Dawidssyni sem, eins og skammstöfun hans gefur til kynna, lifir lífinu í stöðugri glímu við ADHD og það hefur sína kosti og galla. Þótt sagan sé í raun sögð í þriðju persónu fær lesandinn reglulega að gægjast inn í kollinn á Alexander þar sem allt er iðulega á fleygiferð og gefur það líklega ágæta innsýn í lífið með ADHD.

Sóley, besta vinkona Alexanders og stjúpsystir, sem hingað til hefur verið vinmörg, lendir í einelti og hann ákveður að taka málin í sínar hendur. Málin fara þó fljótlega að flækjast þegar hann kemst að því að pabbi forsprakkans í eineltinu er hættulegur glæpamaður.

Lesandinn sogast fljótt inn í atburðarásina sem er nokkuð ævintýraleg, ævintýralegri en í fyrri bók, og ekki skemmir fyrir hvað persónugalleríið er fjölskrúðugt. Fjölskylda Alexanders er skemmtileg blanda, pabbi hans er pólskur en stjúpmamman af taílenskum uppruna. Þá eiga bekkjarsystkini rætur að rekja til ýmissa heimshorna og sýnir verkið vel fjölmenningarlegt íslenskt samfélag.

Gunnar Helgason tekur fyrir ýmis alvarleg málefni svo sem einelti og sorg en pakkar þeim snyrtilega inn í ærslafenginn búning án þess þó að sýna viðfangsefnunum vanvirðingu. Þessi önnur bók um Alexander er afar vel heppnuð og ekki skemma skemmtilegar myndir Ránar Flygenring fyrir. Þær fara textanum vel og gæða persónurnar lífi. Hún hefur einstakt lag á að ná skrautlegum svipbrigðum með örfáum blýantsstrokum.

Tilraun til að bjarga jólunum

Frankensleikir ★★★★·

Texti: Eiríkur Örn Norðdahl

Myndir: Elías Rúni

Mál og menning, 2022, 94 bls.

Frankensleikir er gáskafull jólaútgáfa af sögunni um skrímsli Frankensteins. Bókin er fyrsta skáldverk rithöfundarins Eiríks Arnar Norðdahl fyrir börn. Hún fjallar um hina uppátækjasömu Fjólu sem neitar að trúa því að jólasveinarnir séu ekki til, sama hvað foreldrar hennar segja.

Fjóla tekur til sinna ráða og með hjálp bróður síns gerir hún tilraun til þess að bjarga jólunum. Við tekur mikið ævintýri þar sem hvorki meira né minna en skógjafir allra íslenskra barna eru í húfi.

Eins og sögu byggðri á Frankenstein sæmir er verkið stútfullt af misvel samhangandi líkamshlutum og innyflum. Ævintýraleg sagan er því ekki laus við hrollvekjueinkenni en þó auðvitað þannig að allt sé við hæfi barna.

Það er greinilegt að Frankensleikir er ætluð börnum því það er mikill ærslaskapur í verkinu sem er stílaður á skopskyn þeirra frekar en fullorðinna en þó eru sum atriði sem fullorðnir munu kunna sérstaklega að meta, t.d. lýsingarnar á þröngsýnum foreldrum barnanna sem eru ekki alveg jafn frjó í hugsun og börnin.

Eiríkur skrifar af mikilli hugmyndaauðgi og úr verður skemmtileg og óvenjuleg saga um jólasveinana þrettán sem er full af sniðugum smáatriðum. Að sumu leyti er þetta verk óður til ímyndunaraflsins og þeirra krafta sem búa í sniðugum og kjörkuðum börnum.

Elías Rúni sá um að myndlýsa bókina og eru myndirnar í senn bráðskemmtilegar og áhrifaríkar. Hann leikur sér skemmtilega með ljós og skugga sem skapar dramatík sem hæfir efniviði bókarinnar.