Fiskikóngurinn Kristján Berg og sonur hans, Kjartan Páll Kristjánsson, með fullt fangið af skötu.
Fiskikóngurinn Kristján Berg og sonur hans, Kjartan Páll Kristjánsson, með fullt fangið af skötu. — Morgunblaðið/Aðsend mynd
„Það þekkist að fisksalar verði skötulausir á sjálfa Þorláksmessu, en þetta er í fyrsta skipti sem ég sé fram á að vera skötulaus,” segir Fiskikóngurinn Kristján Berg Ásgeirsson í samtali við ViðskiptaMoggann. Fiskikóngurinn er að sögn Kristján stærsti einstaki seljandi skötu á landinu, og framleiða þeir og selja í kringum 50 tonn af skötu þetta tímabilið. Nú sér hann fyrir að birgðirnar klárist, og færri fái skötu en vilja á Þorláksmessu.

„Það þekkist að fisksalar verði skötulausir á sjálfa Þorláksmessu, en þetta er í fyrsta skipti sem ég sé fram á að vera skötulaus,” segir Fiskikóngurinn Kristján Berg Ásgeirsson í samtali við ViðskiptaMoggann. Fiskikóngurinn er að sögn Kristján stærsti einstaki seljandi skötu á landinu, og framleiða þeir og selja í kringum 50 tonn af skötu þetta tímabilið. Nú sér hann fyrir að birgðirnar klárist, og færri fái skötu en vilja á Þorláksmessu.

„Það hafa ekki verið stórar skötuveislur síðastliðin tvö ár, og hefur skötusalan verið döpur samkvæmt því,“ segir hann.

Það horfir þó öðruvísi við þessi jólin, en að sögn Kóngsins er algjör sprenging í veisluhöldum, og eru veisluhöld um allan bæ.

„Íþróttafélög til jafns við Lions-klúbba halda fleiri hundruð manna veislur og í þeim stærstu er skötupöntunin yfir 400 kíló.”

Skötuskorturinn skýrist því hvorki af aflabresti né takmörkuðu framboði. Eftirspurnin er margföld miðað við oft áður, og mætti segja að Íslendingar séu að bæta sér upp skötuskortinn á tímum faraldurs.

Annasamasti tíminn

Að sögn Kristjáns er aldrei meira að gera hjá fisksölum en kringum jól og áramót. Það skýrist að miklu leyti af skötuhefðinni á Þorlák, og humarinn er sömuleiðis mjög vinsæll hátíðarmatur um áramót. En þessum tveimur tegundum til viðbótar selst mikið af hefðbundnari fiskitegundum á borð við lax, þorsk og ýsu.

„Síðustu tvær vikur ársins eru jafnstórar í sölu og tveir venjulegir mánuðir. Fólk er sólgið í ferskan fisk á móti öllu saltinu. Það er ágætt að slaka aðeins og fá sér ómengaða villibráð,“ segir hann.

Humarinn fáanlegur en dýr

Eins og þekkt er orðið lagði Hafrannsóknarstofnun til bann við humarveiðum við Íslandsstrendur í lok síðasta árs. Því hefur íslenskur humar verið illfáanlegur og hafa fisksalar landsins boðið upp á danskan humar. Í Fiskikónginum er þó fáanlegur bæði íslenskur humar og danskur.

„Skip á vegum Hafrannsóknarstofnunar veiddi nokkurt magn í apríl síðastliðnum og landaði á Höfn í Hornafirði, við keyptum það allt saman“, segir Kristján.

„Íslenski humarinn er stærri, en það er enginn bragðmunur.“

Verð á humri hefur hækkað mikið. Kílóverðið á þeim danska er um þrjátíu þúsund krónur en á þeim íslenska er verðið nær fjörutíu þúsund. Takmarkað framboð hefur verið af humri síðastliðin tvö ár að sögn Kristjáns, en í dag á hann nóg til af humri þessi jólin. Á hinn bóginn hefur hann aldrei upplifað skötuskort fyrr.

„Þetta er annað hvort í ökkla eða eyra,“ segir Fiskikóngurinn að lokum og heldur aftur í afgreiðslu á þeirri skötu sem eftir er.