Höfundurinn Saga Braga Ólafssonar er „afar áhugaverð lesning“, algerlega í anda hans – „munu því aðdáendur hans ekki verða fyrir vonbrigðum“.
Höfundurinn Saga Braga Ólafssonar er „afar áhugaverð lesning“, algerlega í anda hans – „munu því aðdáendur hans ekki verða fyrir vonbrigðum“. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Gegn gangi leiksins ★★★★· Eftir Braga Ólafsson Bjartur, 2022. Innbundin, 157 bls.

Bækur

Ingibjörg Iða Auðunardóttir

Ný skáldsaga Braga Ólafssonar, Gegn gangi leiksins, hverfist um ljóðskáldið Svan, sem lesendur Braga ættu að kannast við úr öðrum verkum hans, sem og unga parið Adolf og Droplaugu, sem koma að skoða íbúð Svans – eða öllu heldur systur hans – með það í huga að fjárfesta í eigninni. Svanur er þó hvorki spenntur fyrir að segja þeim frá eigninni né taka til fyrir heimsókn þeirra sé út í það farið, og vill öllu heldur segja þeim frá fótboltaleiknum sem hann er að horfa á – sem og fótboltaleik útgefenda og höfunda sem fer fram innan fáeinna daga. Bókin skiptist í þrjá hluta; fyrri hluta, hlé og síðari hluta. Fyrri hlutinn segir frá heimsókn Adolfs og Droplaugar til Svans og kynnum þeirra, sem og frásagnir af fortíð persóna bókarinnar. Líkt og margir lesendur Braga Ólafssonar þekkja eflaust var Svanur dæmdur í fangelsi fyrir manndráp eftir að hafa myrt ljósmyndara sem tók af honum mynd í opnunartilboða-óðagoti í leikfangaverslun í Kópavogi, sem Svani þótti særa blygðunarkennd sína. Þegar Svanur hittir ljósmyndara þennan fyrir tilviljun á veitingarstaðnum Caruso í miðbænum lokkar hann hinn síðarnefnda inn á baðherbergi þar sem hann stofnar til átaka með þeim afleiðingum að aðeins einn stendur eftir. Síðar kemur hlé, líkt og í leikhúsi eða hálfleikur í fótbolta, þar sem frásögnin hverfist frá fyrstu persónu frásögn Adolfs til þriðju persónu frásagnar í seinni hlutanum. Með því að skipta frásögninni í þrennt – og hafa hlé á milli – finnst gagnrýnanda Bragi vera að leika sér að mörkum mennningar, leikhúss, tónleika og fótbolta. Fyrrnefndur fótboltaleikur, þar sem höfundar og gagnrýnendur eiga að takast á, leikur sér því að mörkum svokallaðrar „hámenningar“ og „lágmenningar“, þar sem bókmenntastéttin spilar fótboltaleik og útkljáir þar með erjur sín á milli. Í umræddu hléi virðist þriðji múrinn brotinn á einhvern hátt – þar hittist fólk í hléi í því er virðist leikhús, ræðir það sem á undan fór og talar um höfund sem „frænda sinn“ sem „[…] er ekki vanur að leita langt yfir skammt yfirhöfuð. Alltaf með sömu persónurnar í öllum sínum verkum. Ef þú hefur lesið eitthvað af skáldsögum hans, þá kannastu örugglega við tvær eða þrjár hérna í kvöld.“ (bls. 77)

Líkt og fyrr segir spannar bókin því marga arma listarinnar – allt frá bókmenntum og leikhúsi að fótbolta. Eru fótboltaleikmenn ekki gjarnan taldir listamenn í sínu fagi? Og að þeir skori eða leggi upp listileg mörk? Í síðari hluta bókarinnar, þar sem umræddur fótboltaleikur er tvímælalaust hápunkturinn, hoppa því riddarar hámenningarinnar af sínum háa stalli niður á stall „almúgans“ til að útkljá sín vandamál og losa spennu og reiði. Er þetta ekki einmitt sá grundvöllur, þ.e.a.s. íþróttirnar, þar sem fólk felur sig á bak við þjóðerniskenndina og lifir sig inn í leikinn til að útkljá hvaða lið eða þjóð sé best? Við tölum gjarnan um fótboltaleikmenn þjóðar okkar sem strákana og stelpurnar okkar, syni og dætur þjóðarinnar – við útnefnum einstaklinga þessa til að verja stolt þjóðar okkar. Hvað er annað upp á teningnum í Gegn gangi leiksins? Barátta útgefanda og höfunda – hver verður ofan á – hvor stéttin um sig hefur valið sér fulltrúa til að verja heiður sinn – og þar vantar ekki Svan í lið höfunda. Sjálf og ímynd Svans í gegnum verkið er einmitt einn áhugaverðasti greiningarpunktur bókarinnar – allt ofbeldi sem Svanur beitir gengur út á að leiðrétta ímynd hans gagnvart samfélaginu. Hann er upptekinn af eigin ágæti og talar illa um útgefendur og stillir sér því jafnframt fram sem hinu alvitra skáldi, en misskilda snillingnum sem er svo kvalinn því enginn skilur hann og verk hans. Því er ef til vill táknrænt að fórnarlömb ofbeldis hans verða fyrir ýmiss konar höfuðhöggum – þau sem láta Svan líta illa út vantar eitthvað á milli eyrnanna.

Í heild er Gegn gangi leiksins afar áhugaverð lesning og algerlega í anda Braga og munu því aðdáendur hans ekki verða fyrir vonbrigðum. Einkennandi útúrdúrar höfundar eru skemmtilegir og bókin hæfilega löng miðað við framvindu sagnarinnar. Persónur eru vel skapaðar, orðræða skemmtileg og trúverðug og samspil lítillar íbúðar andspænis fótboltavelli í fullri stærð er skemmtileg vinna með rými sögunnar. Bragi Ólafsson er og verður skemmtilegur höfundur sem ber að hrósa þegar verk hans eru góð, líkt og raunin er í ár.