Frank Byrne frá Olympia Capital, Lorcan Burke frá YAY Venture Ireland, og Ari Steinarsson framkvæmdastjóri YAY.
Frank Byrne frá Olympia Capital, Lorcan Burke frá YAY Venture Ireland, og Ari Steinarsson framkvæmdastjóri YAY. — Ljósmynd/Aðsend
Íslenska fjártæknifyrirækið YAY, sem á og rekur YAY-gjafabréfakerfið og sá meðal annars um Ferðagjöfina fyrir íslenska ríkið, hefur samið við írska fjárfestingarfyrirtækið Olympia Capital um uppsetningu, sölu og dreifingu á þjónustu YAY á Írlandi

Íslenska fjártæknifyrirækið YAY, sem á og rekur YAY-gjafabréfakerfið og sá meðal annars um Ferðagjöfina fyrir íslenska ríkið, hefur samið við írska fjárfestingarfyrirtækið Olympia Capital um uppsetningu, sölu og dreifingu á þjónustu YAY á Írlandi.

Ari Steinarsson framkvæmdastjóri YAY segir að um sé að ræða annan samninginn sem gerður sé á þessu ári um nýtt markaðssvæði og kveðst afar ánægður með árangurinn.

Nokkrir komnir að samningaborðinu

YAY gerði í lok sumars samstarfssamning við kanadísku kortaþjónustuna og fjármálatæknifyrirtækið Everyday People Financial Inc. Everyday People innleiddi svo YAY-gjafakortin á markað í Kanada, eins og sagt var frá í Morgunblaðinu á sínum tíma.

„Okkar fókus núna er að koma þessum nýju markaðssvæðum upp og einnig erum við að undirbúa frekari fjölgun markaðssvæða. Það eru þó nokkrir markaðir komnir að samningaborðinu. Það er því margt spennandi og áhugavert í gangi hjá okkur. Kanada var fyrsti samningurinn og nú Írland, sem er jafnframt fyrsta markaðssvæði YAY í Evrópu fyrir utan Ísland. Við erum að horfa núna meira á markaði í Mið- og Austur-Evrópu í framhaldinu,“ segir Ari í tilkynningu frá félaginu.

Áratugareynsla

Olympia Capital er írskt fjárfestingarfyrirtæki með áratugareynslu af þvi að koma vörum á írskan markað, að sögn Ara.

Hann segir að nýsköpun og tækni YAY geri félaginu kleift að koma með nýja og spennandi vöru á markað á Írlandi.

„Það ríkir mikil samkeppni á gjafakortamarkaðnum á Írlandi sem gerir þetta meira spennandi. Þessi einstaka nálgun fyrir viðskiptavini gerir okkur fært að hafa mikil og jákvæð áhrif á írska markaðinn. Við hlökkum til að starfa náið með YAY á Íslandi að þessu verkefni,“ segir Lorcan Burke, framkvæmdastjóri YAY Venture Ireland, sem stofnað var í kringum verkefnið.