Eldflaugabeitiskip Flaggskip Kyrrahafsflota Rússlands, Varyag, sést hér sigla til æfingar frá Vladivostok.
Eldflaugabeitiskip Flaggskip Kyrrahafsflota Rússlands, Varyag, sést hér sigla til æfingar frá Vladivostok. — Ljósmynd/Varnarmálaráðuneyti Rússlands
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Sameiginlegar æfingar sjóherja Kína og Rússlands á Austur-Kínahafi hefjast í dag, miðvikudag. Eru þær liður í sívaxandi samstarfi ríkjanna í þessum heimshluta. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir flotann munu skjóta föstum skotum á æfingunni.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Sameiginlegar æfingar sjóherja Kína og Rússlands á Austur-Kínahafi hefjast í dag, miðvikudag. Eru þær liður í sívaxandi samstarfi ríkjanna í þessum heimshluta. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir flotann munu skjóta föstum skotum á æfingunni.

„Virki þáttur þessarar æfingar felur meðal annars í sér sameiginlegar eldflauga- og skotárásir gegn loftförum, skotárásir gegn sjóförum og sameiginlegar kafbátavarnir,“ segir í tilkynningu varnarmálaráðuneytisins.

Rússar munu senda fjögur herskip á æfinguna, þ.e. eldflaugabeitiskipið Varyag, systurskip Moskvu sem sökkt var undan ströndum Úkraínu fyrr á þessu ári, freigátu og tvær korvettur. Þá munu Kínverjar senda tvo tundurspilla, tvö vopnuð eftirlitsskip, birgðaskip og díselknúinn kafbát. Eins má gera ráð fyrir orrustuþotum frá Kína.

Vitlaus vopn verða snjöll

Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, er sagt vera að undirbúa nýja vopnasendingu til Úkraínu, jafnvel í þessari viku. Í pakkanum kann að leynast flókinn rafeindabúnaður sem breytir venjulegum fallsprengjum í nákvæm snjallvopn. Búnaðinn, sem m.a. inniheldur GPS-stýringu, má tengja við ólíkar tegundir fallsprengja og hefur Bandaríkjaher t.a.m. notað hann á sprengjur sem bera allt upp í rúmlega 900 kílóa sprengihleðslu. Líkt og með mörg önnur vopn sem Bandaríkin hafa veitt Úkraínu eru takmörk fyrir því hve langt sprengjurnar drífa. Mun búnaðurinn að líkindum takmarka drægni við 25 kílómetra. Er það gert til að Úkraínuher noti ekki vopnasendingar Bandaríkjanna og NATO til að ráðast gegn skotmörkum djúpt inni á rússnesku landsvæði. Með því er vonast til að hægt verði að koma í veg fyrir stigmögnun átaka.

Þá hafa heræfingar Rússa og Hvít-Rússa, auk heimsóknar Rússlandsforseta þangað, leitt til varnaruppbyggingar við landamærin Úkraínumegin.