Drengshöfuð Eitt brotið frá Parthenon-hofinu sem Frans páfi afhendir.
Drengshöfuð Eitt brotið frá Parthenon-hofinu sem Frans páfi afhendir.
Talsmaður Vatíkansins hefur tilkynnt að Frans páfi muni afhenda Ieronymosi II erkibiskupi, sem leiðir grísku rétttrúnaðarkirkjuna, til varðveislu þau þrjú marmarabrot úr Parthenon-hofinu á Akrópólis sem hafa verið í safni Vatíkansins í um tvær aldir

Talsmaður Vatíkansins hefur tilkynnt að Frans páfi muni afhenda Ieronymosi II erkibiskupi, sem leiðir grísku rétttrúnaðarkirkjuna, til varðveislu þau þrjú marmarabrot úr Parthenon-hofinu á Akrópólis sem hafa verið í safni Vatíkansins í um tvær aldir. Brotin eru um 2.500 ára gömul og sýna hestshaus, drengshöfuð og skeggjaðan karl.

Höggmyndirnar voru hluti af hinni frægu úthöggnu frásagnarmynd sem náði hringinn kringum hofið. Rúmlega helmingur þeirra brota sem enn eru til úr verkinu er í eigu gríska ríkisins og sýndur í Akrópólis-safninu. Hinn helmingurinn var fjarlægður af Elgin lávarði á árunum 1801 til 1812 og er nú í British Museum í London og hafa grísk stjórnvöld lagt sífellt meiri þunga í kröfur um að þeim verði skilað. Stjórn British Museum fer með forræðið yfir verkunum og hefur þvertekið fyrir það. Nýverið hefur þó frést af leynilegum fundum Breta og Grikkja um möguleg skil eða lán.

Þrátt fyrir að brotin þrjú sem páfi afhendir grísku rétttrúnaðarkirkjunni verði í eigu kirkjunnar segir talsmaður Akrópólis-safnsins að brotunum verði komið að nýju fyrir á sínum upprunalegu stöðum í höggmyndinni löngu.

Í yfirlýsingu þakkar gríski erkibiskupinn páfa fyrir hinn afar táknræna gjafagjörning. Talsmaður gríska menningarráðuneytisins þakkar páfa einnig og segir gjöfina lyfta undir kröfur Grikkja um að Bretar skili þeim verkum frá Parthenon sem eru í London.