Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, brosir breitt eftir söluna á grunnneti Sýnar. Með honum á myndinni er Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, brosir breitt eftir söluna á grunnneti Sýnar. Með honum á myndinni er Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Söluhagnaður Sýnar á grunnneti félagsins til Ljósleiðarans er um 2,5 milljarðar króna. Hinar seldu eignir eru bókfærðar á um 560 milljónir króna en Ljósleiðarinn, sem er opinbert félag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, kaupir grunnnetið á þrjá milljarða króna

Söluhagnaður Sýnar á grunnneti félagsins til Ljósleiðarans er um 2,5 milljarðar króna. Hinar seldu eignir eru bókfærðar á um 560 milljónir króna en Ljósleiðarinn, sem er opinbert félag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, kaupir grunnnetið á þrjá milljarða króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar eftir undirritun samninga um kaupin í gær kom fram að greiðsla fyrir grunnnetið yrði afhent í áföngum og á henni að vera að fullu lokið innan tólf mánaða. Upphaflega var áætlað að ljúka samningum, og greiðslu, þann 15. desember sl. en þann dag var tilkynnt að afgreiðslu málsins yrði frestað til 20. desember.

Samhliða þessu var gerður þjónustusamningur milli félaganna til tólf ára um heildsöluaðgang og þjónustu yfir burðar- og aðgangsnet Ljósleiðarans. Gert er ráð fyrir að viðskiptin hafi jákvæð áhrif á rekstrarkostnað Sýnar um 100 milljónir króna á ári og lækkar árleg fjárfestingaþörf um u.þ.b. 120 miljónir króna yfir samningstímann.

Eins og áður hefur verið greint frá hafa forsvarsmenn Ljósleiðarans og Orkuveitunnar ekki viljað svara spurningum sem snúa að fjármögnun kaupanna. Það sem þó liggur fyrir er að Orkuveitan hefur þurft að gera skilmálabreytingu á lánum sinum hjá Evrópska fjárfestingarbankanum til að liðka til fyrir aukinni skuldsetningu innnan samstæðunnar.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í fyrradag hefur Ljósleiðarinn tekið lán á háum vöxtum til að standa við kaupin og styrkja almennan rekstur félagsins. Þá hefur félagið boðað hlutafjáraukningu á næsta ári. Það er þó háð samþykki eiganda félagsins, sem er að mestum hluta Reykjavíkurborg í gegnum Orkuveituna. Eins og áður hefur komið fram er rýnihópur nú að störfum innan borgarstjórnar sem á að meta það hvort farið skuli í hlutafjáraukningu og þá hvenær og hvernig. Fram kom í umræðum í borgarstjórn í gær að rýnihópurinn hefur ekki fengið að sjá þá samninga sem lágu að baki kaupunum á grunnneti Sýnar.