Keflavík Daniela Wallen er í stóru hlutverki hjá Keflavíkurliðinu og er meðal þeirra efstu í deildinni í stigum og stoðsendingum.
Keflavík Daniela Wallen er í stóru hlutverki hjá Keflavíkurliðinu og er meðal þeirra efstu í deildinni í stigum og stoðsendingum. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Ólafur Pálsson oap@mbl.is Keflavík trónir á toppi úrvalsdeildar kvenna í körfubolta með 24 stig að loknum 13 umferðum. Átta lið eru í úrvalsdeild kvenna og leikin er fjórföld umferð svo deildarkeppnin er tæplega hálfnuð. Með Keflavík í toppbaráttunni eru lið Hauka og Vals með 22 og 20 stig en grannar Keflavíkur í Njarðvík, Íslandsmeistararnir frá síðasta tímabili, sitja ekki langt undan, í fjórða sætinu með 16 stig.

Körfubolti

Ólafur Pálsson

oap@mbl.is

Keflavík trónir á toppi úrvalsdeildar kvenna í körfubolta með 24 stig að loknum 13 umferðum. Átta lið eru í úrvalsdeild kvenna og leikin er fjórföld umferð svo deildarkeppnin er tæplega hálfnuð. Með Keflavík í toppbaráttunni eru lið Hauka og Vals með 22 og 20 stig en grannar Keflavíkur í Njarðvík, Íslandsmeistararnir frá síðasta tímabili, sitja ekki langt undan, í fjórða sætinu með 16 stig.

Segja má að deildin sé tvískipt í ár. Þessi fjögur lið stefna í úrslitakeppnina en í neðri hlutanum er jöfn barátta á milli Grindavíkur, Fjölnis og Breiðabliks. Þau tvö fyrrnefndu eru með 8 stig en það síðastnefnda er með 6 stig. ÍR rekur svo lestina á botni úrvalsdeildarinnar, án stiga, og er í erfiðri stöðu en neðsta lið deildarinnar fellur í vor.

Birna Valgerður Benónýsdóttir er lykilmaður í liði Keflavíkur en hún hefur verið talsvert frá keppni í vetur. Hún fékk höfuðhögg í byrjun leiktíðarinnar og var frá vegna þess og sneri svo ökklann illa í leik gegn Njarðvík í byrjun nóvember.

Birna er með 14,7 stig að meðaltali í leik og er meðal stigahæstu leikmanna fyrri hlutans ef tekið er meðaltal skoraðra stiga. Hún skoraði 22 stig í ellefu stiga útisigri í Suðurnesjaslag í Grindavík um miðjan mánuðinn. Morgunblaðið tók Birnu Valgerði tali.

Leikgleðin skiptir mestu máli

Birna segir leikgleðina öðru fremur hafa skilað Keflavík á toppinn það sem af er móti en þjálfari liðsins er landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson. Hún segir mikið lagt upp úr því að leikmenn mæti með mikla orku inn í alla leiki og hafi gaman af því að spila leikina. Hún segir að þegar það takist gangi liðinu vel og að leikgleðin skipti mestu máli.

Birna lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum frá árinu 2019, fyrst í Arizona en svo í Binghamton í New York, en hún gekk aftur til liðs við Keflavík fyrir yfirstandandi keppnistímabil. Birna er vön því að fá ekki mikið frí frá körfuboltanum yfir jólahátíðina en hvað finnst henni um að leikin verði heil umferð í Subway-deildinni milli jóla og nýárs?

Illa farið með fjölskyldufólk

„Mér finnst það persónulega mjög sérstakt en ég er svo sem vön því að spila yfir hátíðirnar í háskólaboltanum og fæ í raun lengra frí en oft áður. Við höfum ekki rætt þetta mikið innan hópsins en ég er spennt fyrir því að spila og ég vona að við séum það allar. Sjálf er ég ekki með fjölskyldu en almennt finnst mér þó illa farið með fjölskyldufólk með þessu fyrirkomulagi.“

Birna kvaðst vera orðin góð af meiðslunum en segir að það þurfi þó enn að teipa hana.

„Ökklinn er orðinn fínn en ég mun finna fyrir óþægindum það sem eftir lifir tímabils. Ég þarf að vera dugleg að vinna í þessu. Kæla og hita ökklann og gera styrktaræfingar.“

Keflavíkurliðið fær Fjölni í heimsókn 28. desember en Fjölniskonur, sem urðu deildarmeistarar á síðustu leiktíð, hafa fengið annað hlutskipti á þessari leiktíð. Í janúar mætir Keflavíkurliðið hinum liðunum í toppbaráttunni. Þær taka á móti grönnum sínum í Njarðvík snemma á nýja árinu áður en þær heimsækja Breiðablik upp úr miðjum janúar. Undir lok janúar taka þær á móti Haukum og heimsækja svo Val á Hlíðarenda rétt fyrir mánaðamótin janúar-febrúar. Birnu líst vel á toppbaráttuna sem er fram undan hjá Keflavíkurliðinu.

Spenna á toppi og botni

„Mér finnst mjög skemmtilegt hvað er mikil barátta á toppnum og ég er mjög spennt fyrir framhaldinu. Markmiðið okkar í Keflavík er auðvitað að vinna deildina og svo þann stóra í vor. Við ætlum okkur að mæta með mikla orku í alla leiki og gera okkar allra besta með gleðina í forgrunni. Við ætlum að undirbúa okkur og skipuleggja okkur vel og mæta tilbúnar í alla leiki. Hörður Axel stendur sig mjög vel í að undirbúa okkur fyrir leikina.“

Það er ekki síður barátta á botni deildarinnar. Birna treysti sér ekki til að spá um botnbaráttuna en sagði þó að hún yrði eflaust ekki minna spennandi.

„Það er mikil spenna á toppi og botni og það stefnir í frábæran lokasprett í deildarkeppninni. Svo tekur úrslitakeppnin við svo það eru mjög spennandi og skemmtilegir tímar fram undan,“ sagði Birna Valgerður Benónýsdóttir, leikmaður Keflavíkur, í samtali við Morgunblaðið.

Sjá má efstu leikmenn deildarinnar í fjórum helstu tölfræðiþáttunum hér fyrir neðan.

Höf.: Ólafur Pálsson