Höfundar Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir.
Höfundar Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir. — Ljósmynd/Árni Torfason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir sendu nýverið frá sér bókina Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, sem Sögur útgáfa gefur út. Sú fyrrnefnda skrifar um orðin og sú síðarnefnda segir söguna í myndum

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir sendu nýverið frá sér bókina Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, sem Sögur útgáfa gefur út. Sú fyrrnefnda skrifar um orðin og sú síðarnefnda segir söguna í myndum.

Elín Elísabet segir að Anna Sigríður hafi lengi hugsað um að taka saman nýyrði Jónasar og hún hafi rætt um það við framkvæmdastjóra útgáfunnar. Þau hafi viljað fá teikningar með og fengið sig með á fund. „Þá vissu þau ekki að ég hafði miklar tengingar við Jónas, aðallega í gegnum ljóðin hans,“ segir hún. Vísar meðal annars til þess að hún hafi fallið fyrir ljóðum Jónasar sem barn og sé með húðflúr af Hraundranga í Öxnadal á sér. „Ég gat því ekki sagt nei.“

Helga Gerður Magnúsdóttir sá um hönnun og umbrot og Elín Elísabet segir að fundir þeirra fjögurra hafi verið mjög gefandi. „Þetta voru hugarflugsfundir þar sem við vorum öll uppveðruð yfir orðunum, Jónasi og teikningunum og hvernig verkið átti að líta út. Samstarfið var mjög gjöfult.“

Beint í æð

Foreldrar Elínar Elísabetar áttu stórt kvæðasafn og fyrsta minning hennar um Jónas tengist því. „Þegar ég var átta ára man ég eftir því að hafa setið í sófanum heima í Borgarnesi, lesið ljóð eftir Jónas og þá rekist á „Vorvísu“. Ég byrjaði að dunda mér við að gera laglínu við það og raulaði lagið, sem ég samdi.“ Móðir sín hafi líka hengt upp ljóð eftir Jónas gegnt salerninu og hún hafi því fengið hann beint í æð. „Ég kynnti mér þjóðskáldið vel á meðan ég sat á klósettinu.“ Eitt sinn hafi „Ferðalok“ blasað þar við henni og hún hafi fallið fyrir því. „Það er fallegasta ljóð allra tíma.“

Einu sinni var Elín Elísabet á ferð með bróður sínum og munaði minnstu að bíllinn færi út af neðan við Hraundranga. „Við héldum að þetta væri okkar hinsta stund,“ rifjar hún upp. Hraundrangi hafi þá lengi verið í huga hennar í gegnum „Ferðalok“ og nokkrum árum síðar hafi þau flúrað drangann hvort á annað.

Vinnulagið var þannig að Anna Sigríður skrifaði um þau orð sem helst höfðuðu til hennar og Elín Elísabet teiknaði síðan myndir við flest þeirra. „Ég var aðallega að reyna að gera Jónas aðgengilegri sem persónu í gegnum teikningarnar, því hann er gjarnan settur upp á stall sem þjóðskáld og fræðimaður, sem hann var, og þess á milli dreginn niður í svaðið sem fyllibytta,“ segir hún. „Við vildum fara milliveginn og því fær hann að vera manneskja eins og við hin. Teikningar hjálpa til við að skilja hann á þann hátt.“ Meðfram sögunni um orðin hafi hún ákveðið að segja ævisögu Jónasar í myndum. „Þess vegna eru ýmis brot úr ævisögu hans inn á milli orðanna.“

Anna Sigríður segir að fjöldi nýyrða Jónasar hafi komið sér á óvart og ekki síður hvað mörg þeirra séu notuð í daglegu tali. Orð eins og gráhærður, ókeypis og nývaknaður komi upp í hugann. „Ég er hrifnust af þessum hversdagslegu orðum eins og til dæmis mörgæs, en ég finn nýtt uppáhaldsorð í hvert sinn sem ég fletti bókinni.“ Jónas hafi líka verið fyndinn og auðvelt hafi verið að sjá hann fyrir sér í nútímasamfélagi. „Þegar ég grúskaði í bréfum hans og ævisögu fannst mér ég allt í einu þekkja hann.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson