Kaffistofa Samhjálpar Rósý Sigþórsdóttir hefur verið forstöðukona á kaffistofunni síðastliðin tvö ár. Annríkið á aðventunni hefur verið mikið.
Kaffistofa Samhjálpar Rósý Sigþórsdóttir hefur verið forstöðukona á kaffistofunni síðastliðin tvö ár. Annríkið á aðventunni hefur verið mikið. — Ljósmynd/Samhjálp
Rósý Sigþórsdóttir, forstöðukona á kaffistofu Samhjálpar, segist finna fyrir mikilli aukningu í aðsókn á kaffistofuna en segir hana vera svipaða yfir jólin og alla aðra daga. Á kaffistofuna mæta u.þ.b

Rósý Sigþórsdóttir, forstöðukona á kaffistofu Samhjálpar, segist finna fyrir mikilli aukningu í aðsókn á kaffistofuna en segir hana vera svipaða yfir jólin og alla aðra daga. Á kaffistofuna mæta u.þ.b. 180 til 250 manns daglega en þangað kemur fólk sem er í neyð og hefur ekki tök á að sjá sér fyrir mat sjálft.

Spurð hvort aukninguna megi helst rekja til aukins fjölda flóttamanna segir Rósý svo ekki vera að öllu leyti.

„Fólkið sem kemur á kaffistofuna er blanda úr mörgum hópum en aukningin sem við finnum er ekki einungis til komin vegna fleira flóttafólks. Við sjáum þó fjölgun í þeim hópi sem hefur verið að skila sér síðustu ár,“ segir Rósý.

Hátt í 500 manns í mat

Það sama er uppi á teningnum hjá Hjálpræðishernum í Reykjavík sem býst við hátt í 500 manns í hádegismat í kringum hátíðarnar. Í ár verður ekki boðið í mat á aðfangadag og á fyrsta og öðrum degi jóla, en gestum verður boðið upp á jólagjafir og jólamat 23. desember.

„Áður vorum við einu sinni á ári, bara á jólunum, að gefa fólki mat og þegar það var mest þá voru það 300 til 350 manns. Núna gefum við 300 til 350 manns að borða hvern einasta virka dag, árið um kring,“ segir Hjördís Kristinsdóttir, foringi hjá Hjálpræðishernum.

Að sögn Rósýjar væri kaffistofa Samhjálpar ekki opin ef ekki væri fyrir matar-, fata- eða peningagjafir frá almenningi. Erfitt getur verið að manna kaffistofuna um helgar og segir Rósý alla sjálfboðaliða velkomna. Ef fólk á hlýjan fatnað sem ekki er í notkun sé mikil þörf á honum hjá þeim sem komi á kaffistofuna í þeim mikla kulda sem hefur verið í desember.

„Okkur vantar helst sjálfboðaliða um helgar og þá sérstaklega á sunnudögum. Fólk getur komið í fjóra eða fimm tíma og hjálpað til. Það væri ekki verra að fá lopapeysur, húfur og vettlinga en við tökum á móti öllu hérna á kaffistofunni á milli klukkan 10 og 14, hvort sem það eru gjafir eða einfaldlega að koma við og segja hæ,“ segir Rósý að endingu.