Tískumálin eru ekki endilega þau brýnustu

Morgunblaðið birti í gær athyglisverða grein eftir þá Bjørn Lomborg, forseta Copenhagen Consensus, og Jordan B. Peterson, prófessor emeritus við Háskólann í Toronto, þar sem þeir fjölluðu í tilefni komandi áramóta um fyrirheit til framtíðar, sérstaklega þau sem leiðtogar heimsins gáfu árið 2015. Þá, eins og Lomborg og Peterson rifja upp, „gerðu leiðtogar heimsins tilraun til að takast á við höfuðvandamál mannkynsins með því að setja sér markmiðin um sjálfbæra þróun,“ og voru þessi markmið 169 talsins.

Þeir benda líka á að nú sé hálfnaður tíminn sem leiðtogarnir gáfu sér, til 2030, en markmiðin séu fjarri því að hafa náðst að hálfu leyti. Ástæðan sé sú að forgangsröðun skorti og þegar sett séu 169 markmið geri það sama gagn og að setja ekkert markmið, svo ómarkvisst sé það.

Lomborg og Peterson leggja áherslu á markmið sem eru ekki mjög kostnaðarsöm en skila miklu og nefna baráttu við vöggudauða og hungur, en það að forða nýburum og ungum börnum frá hungri skili miklu til framtíðar. Hið sama megi segja um menntun, sem víða sé ábótavant en hægt sé að bæta mjög með hóflegum tilkostnaði og það skili miklu til framtíðar.

Þeir benda á að mikilvæg markmið af þessu tagi verði útundan á meðan „vel meint en jaðarsett markmið eins og að auka endurvinnslu og ýta undir lífsstíl sem hefur samhljóm með náttúrunni“ fái mikla athygli. Í þann flokk falla væntanlega markmið sem skyggja á flest annað í dag og snúast um loftslagsmál, en fátt virðist svo kostnaðarsamt að það megi ekki réttlæta með vísan til loftslags. Þegar slík tískumál eru annars vegar gleymist hins vegar oft að með broti af þeim kostnaði má bjarga miklum fjölda fólks sem býr við raunverulega og aðsteðjandi ógn.