Rafn Sigurðsson fæddist 27. febrúar 1927. Hann lést 9. desember 2022. Útför hans fór fram 19. desember 2022.

Um leið og við kveðjum Rafn Sigurðsson, kæran vin og samstarfsmann, minnist ég fyrstu kynna er ég hóf störf við Iðnskólann í Reykjavík. Rafn og aðrir kennarar grunndeildar málmiðna tóku einstaklega vel á móti okkur nýju kennurunum og settu okkur vel inn í þau fjölbreyttu verkefni sem nemendur áttu að inna af hendi. Slík vinnubrögð byggja upp góðan starfsanda sem er svo mikilvægur á öllum vinnustöðvum og hann var svo sannarlega til staðar í skólanum.

Vinátta Rafns var mér mikils virði. Hann var sannur vinur og sýndi það á margvíslegan hátt. Þau Dóra eiginkona hans veittu mér mjög mikinn stuðning í veikindum mínum. Einnig buðu þau okkur Ástu að byggja sumarbústað í sameiginlegu landi Hæðarenda í Grímsnesi. Það voru yndislegar samverustundir sem við hjónin og Rafn og Dóra áttum saman við leik og störf fyrir austan. Þar var Rafn driffjöður í mörgum framkvæmdum sem íbúar byggðarinnar stóðu að. Ég minnist þess ekki að okkur hafi orðið sundurorða öll þau ár sem við vorum samferða.

Hann var einn þeirra sem skipulögðu og byggðu upp grunndeild málmiðna fyrir rúmlega hálfri öld. Sú deild varð vinsæl og fjölmenn, margir nemendur fundu þar nám sem hentaði þeim vel og skapaði grunn að frekara námi og góðum atvinnumöguleikum. Við kennsluna lagði Rafn ríka áherslu á að nemendur skiluðu í námi og starfi vönduðum vinnubrögðum unnum af skilvirkni og heiðarleika.

Segja má að Rafn og Jón heitinn Sætran hafi verið í fararbroddi við innleiðingu verknáms fyrir þá sem stóðu höllum fæti í skólakerfinu og höfðu ekki fengið framgang í framhaldsskólum. Það starf þróaðist á þann hátt að Iðnskólinn í Reykjavík og nú Tækniskólinn arftaki hans hafa verið í forustu með slíkt nám alla tíð síðan.

Öryggismál og brunavarnir voru Rafni sérstaklega hugleikin. Hann útbjó kennslugögn í þeim fræðum og skipulagði verkferla til að tryggja öryggi nemenda á sem bestan hátt. Þessa fræðslu og viðhorf til öryggismála hafa nemendur án efa flutt með sér á vinnustaði síðar. Fleiri verknámsskólar byggðu upp málmiðnabrautir og sóttu eðlilega til Iðnskólans í Reykjavík um aðstoð og ráðleggingar. Þar var ekki komið að tómum kofunum hjá Rafni og félögum hans. Hugmyndir hans og ráðleggingar voru sérlega mikilvægar því hann hafði verið með í uppbyggingu og skipulagi námsleiðarinnar allt frá byrjun. Hann veitti alla aðstoð með bros á vör enda var þetta hans hjartans mál.

Það var einstaklega lærdómsríkt að vinna með Rafni, hann var lausnamiðaður, ljúfur og snjall kennari enda var hann víða kallaður til forystu. Hann var öflugur í félagslífi starfsmanna vélsmiðjunnar Héðins áður en hann hóf kennslu. Var formaður starfsmannafélagsins þar um árabil og skipulagði m.a námsferðir og kynnisferðir erlendis. Iðnskólinn og samstarfsmenn nutu reynslu hans á þessu sviði sem öðrum.

Rafn var mikill keppnismaður, það sanna afrek hans í jafn ólíkum keppnisgreinum og bridge og boxi. Fyrrverandi samstarfsfélagar hans hafa reynslu af hæfni hans í fyrrgreindu íþróttinni en til allrar hamingju ekki af þeirri seinni. Sá samhenti hópur syrgir og kveður einstaklega vandaðan mann með þökkum fyrir samstarfið og vináttuna.

Nú þegar kær vinur er kvaddur viljum við Ásta og fjölskylda okkar senda börnum Rafns og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð veri minningin um drengskaparmanninn Rafn Sigurðsson.

Alfreð og Sigurður St.