Guðný Halldóra Jónsdóttir fæddist 22. janúar 1935. Hún lést 21. nóvember 2022. Útför hennar fór fram 1. desember 2022.

Elsku Guðný ömmusystir hefur fengið hvíldina sína.

Í æsku varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fara ófáar ferðir með ömmu og afa í sumarbústaðinn í Þykkvabæ. Þangað komu líka Guðný frænka og Stebbi maðurinn hennar og á ég margar góðar minningar frá dvölinni með „gamla fólkinu“. Þar sé ég hana enn í dag ljóslifandi fyrir mér í horninu sínu við borðstofuborðið, þar sem hún drakk te og studdi fingri á nefbroddinn.

Það var alltaf notalegt að koma á Framnesveginn til Guðnýjar og Stebba og ég hugsa með hlýhug til allra jólaboðanna á nýársdag og afmælisboða Guðnýjar síðar í janúar ár hvert. Í nýársboðunum var alltaf boðið upp á svið en Guðný lærði fljótt að ég væri ekki hrifin af þeim og sá alltaf til þess að ég fengi afgang af jólamatnum í staðinn. Í afmælisboðunum hennar er mér „græna kakan“ minnisstæð, en hana fékk maður hvergi annars staðar en hjá Guðnýju frænku. Sem barn fannst mér gaman hve margt á heimilinu var líkt því sem ég var vön að sjá heima hjá ömmu og afa. Þær voru nefnilega ansi samrýndar systurnar og eftir hverja utanlandsferðina (sem voru nokkuð margar hjá þeim systrum og mökum) komu þær heim með eins skrautmuni sem prýddu alla veggi, hillur og skápa.

Það er viðeigandi að kveðja Guðnýju frænku með sömu hlýju orðunum og ég fékk alltaf að heyra frá henni fyrir svefninn á árum áður: „Góða nótt, lambið mitt.“

Hugrún Lena Hansdóttir.