Guðný Ragna Gunnþórsdóttir fæddist á Borgarfirði eystri 17. ágúst 1938. Hún lést 10. desember 2022 á Landspítalanum.

Foreldrar hennar voru Gunnþór Eiríksson og Hildur Grandjean Halldórsdóttir. Guðný var þriðja í röð átta systkina, Guðrún Jónína (látin), María Karólína (látin), Eiríkur, Magnús, Hulda Sigurbjörg, Reynir og Hjördís.

Guðný var tvígift, fyrri eiginmaður hennar var Halldór Vilhjálmur Jónsson, f. 29. febrúar 1916. Þau skildu 1976.

Börn þeirra eru: 1) Björn Marinó, f. 26. ágúst 1963, maki Gunilla Carlberg. Börn Björns af fyrra hjónabandi: a) Birta Sofia, dóttir hennar er Isabella, b) Óskar Alm, sambýliskona hans er Moa, c) Erik.

2) Þórhildur, f. 9. júní 1965, maki Níels Ragnarsson. Börn þeirra eru a) Bjartur, b) Arnar, unnusta hans er Sigríður Kristín, c) Dagur. 3) Jónína, f. 9. júní 1965, sonur hennar er Vilhjálmur Þór.

Eftirlifandi eiginmaður Guðnýjar er Skafti G. Ottesen, f. 3. október 1947, börn hans af fyrra hjónabandi eru Hannes Þór, Oddgeir Ágúst og Trausti.

Guðný ólst upp á Borgarfirði eystri, fyrst hjá foreldrum sínum á Bakkastekk en síðar hjá ömmusystkinum sínum Birni og Maríu.

Guðný fór snemma að vinna fyrir sér í fiskvinnslu á Borgarfirði og fluttist svo til Reykjavíkur 16 ára gömul þar sem hún fór í vist hjá tannlæknahjónum. Hún vann svo hin ýmsu störf, meðal annars á veitingahúsum og vann lengi á Kleppsspítala og gerðist síðar ráðskona í vegagerð. Það má segja að þar hafi grunnurinn að framtíðarstarfinu verið lagður en hún var alla sína tíð viðloðin eldamennsku og var það hennar ástríða.

Guðný bjó sín fyrstu hjúskaparár í Reykjavík með Vilhjálmi og flutti fjölskyldan svo austur á Breiðdalsvík árið 1974 þar sem Guðný tók að sér að reka sumarhótel í Staðarborg fyrir vinkonu sína. Þar ílengdust þau og um haustið tók Guðný að sér að reka mötuneyti og verbúð fyrir sjómenn og verkafólk.

Guðný kynntist Skafta, eftirlifandi eiginmanni sínum, 1977 og giftust þau 2004. Þau byggðu Hótel Bláfell á Breiðdalsvík og ráku það allt til ársins 1997. Eftir það fóru þau til Reykjavíkur og ráku þar fyrirtæki og síðan lá leiðin austur á Hornafjörð þar sem þau ráku veitingahús í nokkur ár.

Árið 2006 fluttu þau í Hveragerði og hafa búið þar síðan ásamt því að dveljast sumarlangt á æskuslóðum Guðnýjar á Borgarfirði eystri þar sem Skafti hefur stundað sjómennsku á sumrin.

Útför Guðnýjar fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 21. desember 2022, kl. 13.

Elsku mamma, það er okkur systrum ótrúlega sárt að kveðja þig, klettinn í lífi okkar, og að við getum aldrei hitt þig aftur eða hringt í þig til að spjalla eða fá ráð. Margar skemmtilegar minningar koma upp í hugann því það var alltaf gaman að vera þar sem þú varst, aldrei neitt vesen og ekki verið að gera of mikið úr hlutunum.

Við minnumst skemmtilegu utanlandsferðanna með þér og systrum þínum, til dæmis þegar við fórum til Lúxemborgar fyrir allmörgum árum. Það átti að dvelja á fínu hóteli og leigja bílaleigubíl svo hægt væri að skutlast til Þýskalands að versla smá. En hver átti að keyra? Engin okkar var vön að keyra í útlöndum. „Ég keyri,“ sagðir þú, þrátt fyrir að þú værir sennilega versti bílstjórinn af okkur öllum og það endaði með því að þú varst rekin úr bílstjórasætinu þegar flutningabílstjórarnir lágu á flautunni á okkur þar sem við siluðumst áfram á 60 km hraða á hraðbrautinni. Þetta segir meira en mörg orð um það hvað þú varst alltaf óhrædd við að láta bara vaða.

Við erum þakklátar fyrir allt sem þú kenndir okkur, að vera heiðarlegar, duglegar og samviskusamar. Það var góður og mikill skóli fyrir okkur að vinna við hlið ykkar Skafta á hótelinu ykkar, Hótel Bláfelli á Breiðdalsvík, sem þið byggðuð upp saman af miklum myndarbrag og unnuð þar saman hlið við hlið sem eitt.

Þið Skafti unduð ykkur best seinni árin á Bakkastekk á Borgarfirði eystra, gamla æskuheimilinu þínu. Þar dvölduð þið öll sumur og fram á haust þar sem Skafti stundaði strandveiðar. Þegar strákarnir okkar voru yngri voru þeir sendir í sveitina til ykkar og fengu að kynnast sveitalífinu og eru þær minningar þeim afar kærar. Við minnumst allra skemmtilegu samverustundanna á Stekk með ykkur Skafta á sumrin, þar sem meðal annars var farið á sjóstöng og veitt í soðið og auðvitað var aflinn eldaður um kvöldið.

Takk fyrir allt elsku mamma, þú varst einstök með stórt hjarta og minningin um þig lifir í hjörtum okkar og við munum passa upp á Skafta þinn fyrir þig.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíl í friði elsku mamma.

Þórhildur og Jónína (Lilla og Jóna).