Elínborg Jóna Pálmadóttir fæddist á Akureyri 6. október 1940 og ólst þar upp. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 10. desember 2022.

Foreldrar Elínborgar: Sóley Jónasdóttir, f. 1913, d. 1980 og Pálmi Halldórsson, f. 1902, d. 1989. Þau voru til heimilis á Bjarmastíg 6 á Akureyri allan sinn búskap, þar sem Elínborg (Ella) ólst upp. Systkini Elínborgar voru: Jónína Sigurlaug, f. 1934, d. 1985, Sveinn Reynir, f. 1939, d. 2020, Steinunn Svandís, f. 1943, d. 1961, Sverrir Viðar, f. 1946, og Dagbjört Pálmey, f. 1948.

Elínborg giftist Jóni Guðmundi Sveinssyni 1960, þau skildu árið 1994. Börn þeirra: 1) Sveinn Pálmar, f. 1961, d. 1966. 2) Sóley, f. 1962, maki Helgi Pétursson og eiga þau tvo syni: Jón Pétur og Hafþór. 3) Fjóla, f. 1966, maki Jón Ari Jónsson og eiga þau tvær dætur: Arnbjörgu Ellu Sigmarsdóttur og Árnýju Lind. 4) Lilja, f. 1967, maki Kristóbert Fannberg Gunnarsson og eiga þau eina dóttur: Hafdísi Fannberg. 5) Sveinn Pálmar, f. 1974, d. 2012.

Elínborg hóf sinn búskap í Reykjavík, en fluttist síðan með fjölskylduna til Kópavogs og þaðan í Garðabæ. Eftir skilnað flutti hún til Hafnarfjarðar og síðar Mosfellsbæjar þar sem hún bjó síðustu 18 árin. Elínborg var mikil hannyrðakona á sínum yngri árum og hún var alla tíð með græna fingur og fallega garða í kringum sig. Hennar mesta eftirlæti voru þó barnabörnin eftir að þau komu.

Útför Elínborgar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 21. desember 2022, klukkan 13.

Elsku mamma og amma.

Minning þín lifir sem ljós í lífi okkar.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Hvíldu í friði.

Lilja og Hafdís.