Kristján Ingi Helgason fæddist 14. maí 1948. Hann lést 27. nóvember 2022. Útförin fór fram 13. desember 2022.

Nú þegar ég sest niður og skrifa þessa grein er margt sem flýgur í gegnum hausinn, sorg auðvitað, sektarkennd, eftirsjá og þannig orð en umfram allt þakklæti og stolt. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa kynnst þér, afa mínum, já það fór ekkert á milli mála enda vorum við ansi líkir og ég er svo stoltur af því að hafa fundið þig. Ég man ennþá þennan dag þegar ég var orðinn stálpaður, um tvítugt, sat í sófanum og skyndilega kom hugsunin: já alveg rétt, ég á afa þarna úti einhvers staðar sem ég þekki ekki neitt. Ég ákvað að taka af skarið og finna út úr því hver þú værir og hvar þú værir. Það stóð ekki á svörunum þegar ég hafði samband: „Þú ert alltaf velkominn!“ Ég man líka hvað ég var stressaður að hitta þig í fyrsta sinn eftir öll þessi ár, undirbjó mig þannig að ég væri að fara að kynna mig en annað kom á daginn. Þú vissir nákvæmlega hver ég var og mér fannst þú vita allt um mig og þannig var það alla tíð, stundum liðu mánuðir og stundum ár án þess að við hittumst en alltaf þegar við hittumst þá vissir þú allt um mig og þegar ég skrifa þetta átta ég mig á því að þú fylgdist greinilega alltaf með mér þótt við hittumst ekki reglulega. Ég er líka þakklátur fyrir að hafa tekið aftur af skarið á þessu ári. Ég fékk svo sterka tilfinningu um að ég ætti að heyra í þér í vor sem og ég gerði og þú bauðst mér heim í kaffi, þar útskýrðir þú fyrir mér að heilsan væri búin að vera til vandræða en hafðir fulla trú á að allt færi vel og að í raun væri nú ekkert að þér. Ég er líka þakklátur fyrir að hafa fylgt þessu heimboði eftir og verið í góðu sambandi allt til dagsins í dag, mér þótti afar vænt um öll símtölin, stundum tvö eða þrjú á dag, þar sem þú baðst mig að koma og aðstoða við hitt og þetta, þó aðallega við að stilla sjónvarpið, símann já eða bara koma þér heim af spítalanum þar sem þú vildir alls ekki vera enda ekkert að þér. Með þessum símtölum áttaði ég mig á því að ég er fjölskyldan þín og þér þótti vænt um mig alveg eins og mér þótti vænt um þig. Síðustu vikur var alltaf erfitt að kveðja, stundum var ég ekki viss um hvort þetta væri í síðasta sinn þegar ég sat hjá þér tímunum saman en þú sagðir alltaf: „Sjáumst á morgun.“ Svo kom að því að þú svaraðir: „Komdu fljótt aftur.“ Og hingað er ég kominn og kveð þig þá í hinsta sinn.

Drengurinn þinn,

Skarphéðinn.