Guðrún Elín Guðmundsdóttir fæddist 26. september 1970. Hún lést 3. desember 2022.

Útför Guðrúnar Elínar fór fram 15. desember 2022.

Elsku Guðrún vinkona okkar er fallin frá, hvað lífið getur verið grimmt og ósanngjarnt. Þegar við vinkonurnar settumst niður og létum minningarnar streyma þá var af nógu að taka, sumt alls ekki prenthæft frá villingaárum okkar en við eigum endalaust skemmtilegar minningar af henni Guðrúnu Elínu. Sólbaðsstofan Aestas var fastur viðkomustaður á skvísuárunum okkar enda vildum við allar vera eins og Guðrún, sem var alltaf kaffibrún og langsætust, hanga uppi á stöð og rúnta um allar trissur. Svo voru nokkrar hressar útilegur og utanlandsferðir, en seinni ár lifir sérstaklega í minningunni skemmtileg sumarbústaðarferð sem við fórum í og það var hlegið alla nóttina og lítið sofið. Hún Guðrún var bara svo skemmtileg, alltaf glöð og hress með sinn svarta húmor, það var aldrei neitt vesen – bara lausnir. Í sorginni er gott að eiga minningar og margar myndir sem við ætlum að varðveita. Missir okkar allra sem þekktum Guðrúnu Elínu er mikill.

Elsku Biggi, Elísa, Arnór, Íris, Rannveig, Gummi, Klara og aðrir aðstandendur. Megi allir góðir vættir vera með ykkur á þessum erfiðu tímum.

Þórunn, Eyrún, Rósa, Erla og Unnur.