Málfríður Andrea Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 6. mars 1923. Hún lést 5. desember 2022 á Droplaugarstöðum í Reykjavík.

Málfríður var dóttir hjónanna Sigurðar Oddssonar, skipstjóra og hafsögumanns, f. 24. apríl 1874, d. 9. apríl 1942, og Herdísar Jónsdóttur, húsfreyju í Reykjavík, f. 6. júlí 1884, d. 23. júní 1963. Systkini Málfríðar voru Steinunn, Jón, Elín Valgerður, Oddur, Þórleif, Sveinbjörn og Sigríður Herdís, sem ein lifir systur sína.

Eiginmaður Málfríðar var Hörður Þorgilsson múrarameistari, f. 16. febrúar 1923, d. 30. apríl 2016. Þau gengu í hjónaband 24. nóvember 1945 í Reykjavík. Börn þeirra hjóna eru: 1) Sigurður, f. 3. apríl 1946, kvæntur Sigríði Guðjónsdóttur, f. 22. febrúar 1956. Börn Sigurðar og Ingibjargar Maríu Möller, f. 12. júlí 1944, eru: Hörður, í sambúð með Kristínu Pálsdóttur og eiga þau börnin Védísi, Arnar Pál og Sigurð Kára. Jóhann, kvæntur Sigurbjörgu Jónu Ludvigsdóttur og eiga þau börnin Jónu Diljá, Salvar, Jökul og Tind. Fríða, í sambúð með Viktori Má Bjarnasyni og eiga þau börnin Val Bjarna og Ingibjörgu Móeyju. Barn Sigurðar með Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur, f. 27. ágúst 1951, er Ingibjörg Jara.

2) Þorgils, f. 14. september 1947, d. 15. nóvember 2016, kvæntur Selmu Vilhjálmsdóttur, f. 8. september 1948. Börn þeirra eru: Hörður, kvæntur Anne Johannson og eiga þau börnin Villa Þorgils og Svante Nils. Friðrik Ívar, kvæntur Evu Thorgilsson og eiga þau börnin Ebbu Mou Liv og Bernhard Vidar.

3) Hörður, f. 29. nóvember 1949, var í sambúð með Báru Kemp, f. 27. nóvember 1949, d. 1. ágúst 2021. Börn Harðar og Bergþóru Oddgeirsdóttur, f. 1. desember 1953, eru: Oddgeir, í sambúð með Marin Björgu Guðjónsdóttur og eiga þau börnin Úlf Berg, Orra Berg og óskírða Oddgeirsdóttur. Börn Oddgeirs og Christine Gregers, f. 14. október 1979, eru Tristan Gregers og Marinó Gregers. Barn Harðar og Kristínar Láru Ragnarsdóttur, f. 8. maí 1952, d. 1. maí 1996, er Guðrún, í sambúð með Rögnvaldi Skúla Árnasyni og eiga þau soninn Hrólf Bóa.

4) Anna, f. 19. febrúar 1962, gift Eiði Jónssyni, f. 28. september 1957. Börn þeirra eru: Andrea, gift Elfari Alfreðssyni og eiga þau börnin Herdísi, Eið og Köru; Arnór í sambúð með Guðbjörgu Evu Guðjónsdóttur og Hildur.

Málfríður ólst upp í foreldrahúsum á Laugavegi 30 í Reykjavík. Hún tók gagnfræðapróf frá Austurbæjarskólanum. Síðar fór hún í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og Verzlunarskólann. Fyrstu árin á vinnumarkaði starfaði hún við skrifstofu- og verslunarstörf ásamt því að sinna húsmóðurstörfum og reka heimili þeirra hjóna í Miðtúni 82. Seinni ár vann hún hjá Framkvæmdanefnd byggingaráætlana og síðar Verkamannabústöðum Reykjavíkur.

Útförin fór fram 19. desember 2022 í kyrrþey.

Þá er mín kæra amma Fríða farin yfir móðuna miklu. Hún kvaddi sátt við allt og alla, tæplega aldargömul. Eiginmaður hennar, hann Hörður afi minn, lést árið 2017. Hún saknaði hans mikið en yljaði sér við minningar um góðan lífsförunaut.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi sem strákpatti að fá að rótast með ömmu og afa í sælureitnum þeirra í Öndverðarnesi á sumrin. Þetta var algjör pardís og þau hjón samhent í að fegra í kringum sig. Bústað sinn byggðu þau frá grunni með hjálp barna sinna og voru óþreytandi við að dytta að honum, gróðursetja tré og runna og skipuleggja lóðina. Í minningunni voru þau alltaf eitthvað að bardúsa enda dugnaður og vinnusemi þeim í blóð borin. Það voru ófáar ferðirnar sem farnar voru til að sækja lífrænan áburð, setja niður plöntur eða færa þær til. Þegar sólin skein spræk á himninum fórum við amma gjarnan í sólbað úti í laut áður en hún smurði brauð með kæfu handa mér og gaf mér heitan djús. Stundum skruppum við með afa í golf eða í sundlaugina og oftar en ekki lögðum við okkur uppi á háalofti eftir hádegismatinn. Þetta voru áhyggjulausir dýrðardagar og ég held að hvergi hafi þeim liðið betur. Margt var sér til gamans gert og stundum fór afi með okkur ömmu í ísbíltúr í Þrastalund. Það brást ekki að þegar ég var búinn að loka hliðinu að sumarbústaðahverfinu keyrði afi af stað og ég varð að hlaupa til að ná bílnum – fastir liðir. Stundum var efnt til fagnaðar í bústaðnum, þá gat verið spennandi að liggja uppi á lofti og hlusta á fullorðna fólkið spjalla áður en svefninn sigraði ungan dreng.

Þegar bílprófsaldri var náð fór ég oft í heimsókn til þeirra, sló flötina og aðstoðaði þau við einhver minniháttar verkefni. Ég fékk leyfi til að líta við uppi í bústað þegar ég vildi og fá lánað golfsett hjá afa og stundum skruppum við félagarnir eftir vinnu í golf og sund í Öndverðarnesinu. Ef þau voru á staðnum mætti manni alltaf alúð og hlýja og oft var setið á pallinum með þeim, spjallað og drukkið kaffi. Þannig vil ég muna þau, kát og glaðvær og umfram allt elskuleg og hlý.

Verkefni daglegs lífs tóku við þegar bernskuárin voru að baki og við hittumst því sjaldnar en áður. Ég var í nokkur ár í námi erlendis en áður en ég fór út gáfu afi og amma mér forláta vaxjakka sem ég notaði næstum því daglega meðan hann dugði. Eftir heimkomuna var þráðurinn tekinn upp að nýju, og þegar Védís dóttir mín fór að æfa skauta í Laugardalnum varð það að skemmtilegri hefð að koma við hjá þeim í Miðtúninu. Sjaldan brást það að amma spurði hvort ég vildi ekki „taka einn aumingja með afa“ og úr varð spjall, ein pípa og oft skoðuð gömul myndaalbúm.

Síðustu æviárin hefði ég viljað hitta þau oftar en ég gerði. Nú er langri og farsælli ævi lokið, en amma Fríða mun alltaf eiga sinn stað í hjörtum okkar sem hana þekktum.

Hvíl í friði elsku amma mín.

Hörður Sigurðsson.

Ég hef sennilega aldrei séð Reykjavík jafn fallega og daginn sem amma mín Fríða kvaddi. Sólin skein skært en lágt, yfir öllu hrím og örlítil þoka. Sjórinn var lygn, Esjan hennar fjólublá og glitrandi geislar í öllum gluggum gerðu borgina sjálfa svo fagra; viðeigandi kveðja fyrir Reykjavíkurkonu í húð og hár. Amma hafði stóran hluta af sínu lífi útsýni yfir Esjuna. Hún var alin upp á Laugavegi 30 þar sem hún horfði niður Vatnsstíginn, út á sjó og fylgdist með skipunum. Þau afi bjuggu svo á Holtsgötu með pabba nýfæddan, þar sem hún var víst mjög ánægð með útsýnið og Esjan hefur líklega sést á þeim tíma. Næst bjuggu þau á Lindargötu 54 og loks í Miðtúni 82 þar sem á báðum stöðum var lengi óhindrað útsýni út á Sundin. Hún hefur kunnað best við sig norðan megin á nesinu, með útsýnið götumegin en sól og skjól í garðinum sunnanmegin. Og það sem hún dáði sólina, það var ekkert smá.

Amma flúði aldrei í skuggann og ef eitthvað var erfitt sagði hún að það væri best að syngja það úr sér. Hún var orkumikil, hress, sterk og alltaf með húmorinn og góða grettu á lofti. Ég held að henni hafi aldrei fallið starf úr hendi, nema þá einmitt kannski ef að sólin skein, þá var sólin í fyrsta sæti. Annars gekk hún og synti, plantaði trjám, prjónaði peysur og trefla, hitaði kaffi, eldaði, bakaði, smurði, saumaði, straujaði o.s.frv. auk þess að vinna á skrifstofu.

Amma var beinskeytt og hreinskilin; henni fannst ég stundum full draslaraleg til fara og hafði ekki alveg húmor fyrir götóttum gallabuxum og úfnu hári. En hún tók strax eftir því og hafði orð á ef henni fannst eitthvað huggulegt og passa vel saman, það breyttist aldrei. Og núna í haust sagði ég henni að ég yrði að fara heim að hafa mig til, ég væri að fara í leikhús – ég þurfti að endurtaka það nokkrum sinnum af því að hún gleymdi því jafnóðum, en í hvert skipti nánast henti hún mér út með orðunum: „Ó! Drífðu þig! Þú átt eftir að krulla hárið!“

Hún var sem sagt farin að gleyma ýmsu þó að hún myndi það mikilvægasta en alltaf var hún hún sjálf inn við beinið. Hún sagði einu sinni við mig að hún myndi ansi langt aftur, svo ég spurði áhugasöm hvað hún myndi. Ja, hún mundi það nú ekki alveg! Hló dátt og gretti sig.

Amma Fríða lagði okkur ömmustelpunum oft lífsreglurnar þessi síðustu ár og hvatti okkur áfram, sagði okkur að standa í báðar lappir, þora og trúa á okkur sjálfar. Hún vildi ekki að við sæjum eftir því seinna að hafa ekki látið vaða. Hún hefur verið og verður mér alltaf fyrirmynd í dugnaði, lífsvilja og seiglu.

Á Droplaugarstöðum naut hún þess að það væri eldað fyrir hana og hún gat hvílt sig að vild í rúminu góða, ég held að hvíldin hafi kannski verið kærkomin og starfsfólk Droplaugarstaða á miklar þakkir skildar fyrir góða ummönnun, góðvild og væntumþykju í hennar garð.

Amma mín, ég veit að það verður tekið vel á móti þér handan móðunnar miklu, þú sagðir mér það sjálf. Ég ætla að synda í sólinni hérna megin, akkurat eftir þinni uppskrift. Takk fyrir þig.

Ingibjörg Jara Sigurðardóttir.

Í dag verður elskuleg amma mín og nafna, Málfríður Andrea, jarðsungin. Og það á sólríkum vetrardegi, því ekkert er meira viðeigandi þar sem hún var sóldýrkandi af guðs náð. Eftir langt lífshlaup er komið að leiðarlokum hjá frú Fríðu eins og hún var stundum kölluð innan fjölskyldunnar. Ég get ekki sagt að hún hafi verið nein venjuleg amma, langt í frá. Hún hafði ráð undir rifi hverju og var alltaf tilbúin að hlusta og gefa góð ráð. Stundum fór hún í samningaviðræður við mig og í eitt skiptið gerðum við samkomulag okkar á milli um að auka mjólkurdrykkju mína og fylgdi hún því fast eftir að ég stæði við minn hlut. Amma var mikill gleðigjafi og var alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt og sprella. Það var sama hvort það var grettukeppni eða eltingaleikur um húsið þar sem hlaupið var í kringum borðstofuborðið eða yfir hjónarúmið sem alls ekki mátti áður en við barnabörnin komum til sögunnar.

Við áttum margar góðar stundir saman og margs er að minnast. Þegar ég bjó í kjallaranum hjá henni og afa í þrjú ár þegar mamma var við nám, oft í pössun eða ég stalst upp til þeirra. Allar samverustundirnar í sumarbústaðnum, þar sem var farið í sund á hverjum degi, spilað golf og á spil, farið í fótbolta og langar gönguferðir. Eða bílferðirnar með henni og afa milli landshluta, ýmist suður eða norður sem voru eflaust þær lengstu sem ég hef upplifað. Þær tóku yfirleitt allan daginn því það var stoppað oft á leiðinni, borðað nesti og drukkið kakó og kaffi að heiman. Svo þegar ég flutti í bæinn urðu samverustundirnar fleiri. Heimsóknir, búðarferðir og gönguferðir á þriðjudögum. Enda var amma alltaf mjög dugleg að hreyfa sig, gekk og synti, gerði endalausar æfingar og það eru ekki allar ömmur sem hafa þrekhjól í svefnherberginu og nota það, en hún hjólaði á því daglega alveg þangað til hún flutti á Droplaugarstaði þá 94 ára gömul. Og göngur og æfingar hélt hún áfram að stunda þegar þangað var komið fram á 99. aldursár og fékk undanþágu til þess að fara oftar í tækjasalinn, því tvisvar í viku var ekki nóg fyrir hana.

Amma hikaði ekki við að leita réttar síns og hún kenndi mér að ef vara væri gölluð ætti ég að fara og skila vörunni og fá nýja í staðinn eða hafa samband við neytendasamtökin ef ég fengi ekki mitt fram. Hún gaf sig ekki þegar hún frétti að ég hefði keypt mér dýran kjól sem reyndist gallaður, ég skyldi skipta honum og fá nýjan. Og hún bauðst til þess að koma með mér í búðina mér til halds og trausts, sem ég afþakkaði pent, en ég fór að ráðum hennar þá og geri enn.

Ég hugsa oft til hennar við hina hversdagslegu hluti. Nýta allt til hins ýtrasta og fara vel með. Mér hlýnar í hjartanu þegar börnin mín minna hvort annað á að sjúga súkkulaðimolana, ekki bryðja, því það segir amma Fríða.

Með þakklæti efst í huga kveð ég góða ömmu og gott að vita af afa sem tekur vel á móti henni.

Þín

Andrea.

Á köldum, fallegum degi í desember dró amma Fríða sinn lokaandardrátt og kvaddi þennan heim. Missirinn er mikill en eftir situr sægur af góðum minningum um dásamlega ömmu.

Við amma vorum miklar vinkonur og nutum þess að eyða tíma saman. Þegar ég var lítil fór ég gjarnan upp í sumarbústað til afa og ömmu. Þar fékk ég allt það heimagerða kæfubrauð sem ég gat í mig látið og amma kenndi mér rétta aðferð við að vaska upp hnífapör. Ein lítil taska með legókubbum var í bústaðnum, ein litabók og nokkrir litir, samt leiddist manni aldrei. Við fórum gjarnan í sund og amma reyndi að kenna mér að fljóta. Við æfðum okkur að pútta og fórum í göngutúra til Sveina frænda. Á kvöldin lásum við uppi á lofti.

Amma var alltaf dugleg að hreyfa sig og hjólaði á þrekhjóli 15 mínútur á dag. Eftir að hún flutti á Droplaugarstaði héldu æfingarnar áfram lengi vel. Við nöfnurnar viðruðum gjarnan hvor aðra í garðinum þar og gengum alla jafna tíu hringi. Þegar gloppur í minni ömmu trufluðu talninguna skráðum við talningarstrik í snjóinn eða krítuðum á jörðina, allt eftir árstíma. Amma varð alltaf jafn undrandi á því hvað við værum búnar að ganga mikið en rengdi ekki skráninguna. Eitt sinn þegar við vorum að ganga spurði hún mig varfærnislega hvort hægt væri að laga innskeifa fætur. Þegar ég sagði að það væri hægt greip hún í handlegginn á mér og sagði: „Í guuuuuðsbænum láttu laga þetta hjá þér!“ Amma lá aldrei á skoðunum sínum, svo mikið er víst! Hún var glettin og skemmtileg og allra kvenna færust í að gretta sig!

Dag nokkurn þegar amma var í heimsókn fyrir norðan fékk hún heilablóðfall og var vart hugað líf. Ömmustelpurnar Ingibjörg Jara og Guðrún brunuðu norður og þegar þær gengu inn á stofuna til ömmu var hún ekki aðeins vöknuð og búin að biðja um pítsu, heldur var hún að gera upphífingar á stuðningsgálganum! Þetta lýsir ömmu vel; alltaf í léttu og góðu skapi, elskaði pítsu og nýtti hverja lausa stund í líkamsrækt.

Þegar ég bjó uppi á lofti í Miðtúni urðum við mjög nánar. Ég sá um að lakka á henni neglurnar, „framkalla“ hana og setja rúllur í hárið. Oft borðuðum við saman og horfðum á sjónvarpið, settum saman kaffiboð og hjálpuðumst að við að undirbúa þorrablót. Við áttum skap saman við amma og vorum sammála um flesta hluti. Nema kannski gerviblómið sem amma vildi meina að lifandi sprotar yxu upp úr en þar urðum við á endanum sammála um að vera ósammála!

Tími minn í Miðtúni var ómetanlegur og ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast ömmu svona vel. Margs er að minnast, margs er að sakna. Ótalmargar minningar ylja þegar ég kveð elsku ömmu mína og vona að í sumarlandinu sé alltaf sól.

Fríða Sigurðardóttir.

Elsku amma Fríða. Nú hefur þú fengið þína hvíld eftir langa og viðburðaríka ævi. Þú varst stór hluti af lífi okkar allra og þín verður sárt saknað, en eftir sitja notalegar og góðar minningar sem við eigum eftir að geyma í hjörtum okkar.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt svona góða og skemmtilega ömmu eins og þig. Þó að þið afi hafið búið langt í burtu frá okkur voruð þið stór hluti af minni æsku. Það var ekkert skemmtilegra en að koma í bæinn og hlaupa upp tröppurnar á Miðtúni og hringja dyrabjöllunni, til að sjá þig koma og kyssa okkur og knúsa. Þú varst alltaf svo fín og vel tilhöfð, í fínni blússu með alls kyns skartgripi og fallegan varalit á vörunum. Þegar maður var kominn þá hafðir þú alltaf áhyggjur af því hvort maður væri svangur. Oft var það ömmubrauð með kæfu eða marmarakaka. Það var líka alltaf spennandi þegar þú fórst inn í hjónaherbergi og fannst eitthvert súkkulaði í kommóðunni fyrir nammigrísi eins og mig.

Ég á líka notalegar minningar frá því þegar þið afi komuð í sveitina og það var alltaf mikil gleði þegar hvíta Toyotan renndi í hlaðið. Það var mikill spenningur því við krakkarnir vissum að þú hefðir eitthvað gott í stóru ferðatöskunni og oftar en ekki var það það einn stór Apollo-lakkríspakki á mann, ópal og suðusúkkulaði. Blóðþrýstingurinn hækkaði aldeilis á heimilinu þá dagana. Og þó þú værir komin í norðansveitina þá varstu alltaf fínpússuð, og mér þótti alltaf svo spennandi að skoða allt fína snyrtidótið þitt, hálsmenin, hringana og klemmueyrnalokkana þína.

Við áttum líka góða tíma saman í sumarbústaðnum á Öndverðarnesi. Það var ekkert skemmtilegra en að heimsækja þig og afa á sumrin, ganga rauða malarveginn og fara í sund. Þú varst auðvitað alltaf jafn stórglæsileg, í fínum sundbol með sundhettu. Svo var ekkert betra en þegar ég fékk ömmu Fríðu súpu; Campbell-tómatsúpu í dós, með ömmubrauði.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa flutt til Reykjavíkur og náð að vera með þér síðustu ár. Það yljaði mér um hjartarætur að sjá hvað þú varst glöð og hissa að sjá mig þegar ég kom til þín og sagðir: Nei ert þetta þú? og svo knúsaðir þú mig og kysstir. Þú varst alltaf með eitthvað gott í skúffunni til að bjóða gestum upp á, og það var ekkert notalegra en að borða kex eða súkkulaði með þér og spjalla um daginn og lífið. Þá var umræðuefnið oftar en ekki um námið mitt eða hvort ég væri búin að finna mér mann. Þú lagðir alltaf mjög mikla áherslu á að ég skyldi ekki flýta mér, hann ætti að vera góður og ég ætti ekki að hlaupa í einhverjar gönur. Þú varst alltaf jafn glaðleg og hress, og það var alltaf stutt í húmorinn hjá þér með tilheyrandi grettum og hlátri. Við fórum líka oft í göngutúra í garðinum á Droplaugarstöðum, skoðuðum blómin og töldum hringina því þú varst ekki ánægð fyrr en þú náðir að ganga allavega fimm hringi.

Elsku amma, þú sýndir mér alltaf fullan stuðning og endalausa ást. Orð þín og hvatning verða alltaf mitt veganesti í lífinu. Það sem ég mun sakna þess að sitja og halda í höndina á þér og hlusta á hláturinn þinn.

Þín

Hildur.

Sterk, hrein og bein, snögg upp á lagið, kom til dyranna eins og hún var klædd, sagði það sem henni fannst og sagðist alltaf hafa gert það. Fólk réði svo hvernig það tæki því.

Málfríður Andrea var sönn Reykjavíkurmær, fædd og uppalin við Laugaveginn næstyngst í stórum systkinahópi. Leikvöllurinn allur miðbærinn, göturnar, garðarnir og bakgarðarnir. Hún lærði fyrst að lesa öfugt á bókina sem eldri bróðir hennar var að stauta sig fram úr hinum megin við eldhúsborðið og var meðal fyrstu nemenda hins þá nýja og glæsilega Austurbæjarskóla. Faðir hennar var lóðs á dansk-íslensku varðskipunum, móðir hennar myndarleg húsmóðir, sem auk þess að sjá um barnahópinn leigði út herbergi fyrstu árin. Fríða var lífsglöð og dálítið stríðin, en sagðist samt hafa verið svo þæg þegar pabbi hennar var í landi að hún fékk að fylgja honum í erindum, t.d. að heimsækja frænkuna á Ránargötu. Þá sat hún alveg kyrr og hlustaði. Hún minntist síðan með söknuði er hún fylgdi honum niður á bryggju í síðustu förina. Varðskipin höfðu verið kölluð til Danmerkur vegna heimsstyrjaldarinnar en hann þá fenginn til að lóðsa flutningaskipalest norður fyrir land. Skipinu sem hann var á var sökkt út af Vestfjörðum áður en áfangastað var náð.

Eftir að Fríða seinna giftist Herði, sæta skólabróðurnum af Lindargötunni, sem þá var orðinn múrarameistari, bjuggu þau fyrst á Holtsgötu en síðan í Miðtúni þar sem þau byggðu eigið hús. Þá gekk hún niður ómalbikaðan Laugaveginn með barnavagninn á leið í heimsókn til móður sinnar, á háum hælum og í nælonsokkum hvernig sem viðraði. Yngsti sonurinn í vagninum, næstyngsti sitjandi á svuntunni og sá elsti, bara þriggja ára, gangandi með.

Fríðu og Herði kynntist ég fyrst er við Sigurður sonur þeirra rugluðum saman reytum. Þá störfuðu þau bæði hjá Verkamannabústöðum, hún á skrifstofunni en hann sem umsjónarmaður byggingarframkvæmda í Grafarvogi og Anna dóttir þeirra bjó enn heima. Fríðu sem var snillingur í höndunum og saumaði og prjónaði mikið fyrir fjölskyldu sína fannst nýja tengdadóttirin kannski óþarflega mikil eyðslukló, kynni ekki að taka slátur, keypti bakarísbrauð og stoppaði helst ekki í sokka. Hún gerði auðvitað athugasemdir en bætti svo bara um betur og gaf okkur almennilega hrærivél, venti sjálf skyrtukrögum sonarins, gerði við stroff eða prjónaði framan á ermar, auk allra nýju peysanna og treflanna sem hún hlýjaði okkur með.

Hún var þrekmikil og hugsaði alla ævi vel um heilsuna, synti, fór í gönguferðir eða sinnti trjárækt við bústaðinn í Öndverðarnesi, þar sem þau hjónin nutu sumranna fram á elliár. Þau voru alla tíð einstaklega samhent og hefðu nú um jólaleytið verið löngu búin að setja upp vetrargardínurnar, þrífa allt hátt og lágt, pússa ljósakrónur og baka smákökur.

Ég þakka fyrrverandi tengdamóður minni og föðurömmu Ingibjargar Jöru dóttur minnar samfylgdina um leið og ég sendi allri fjölskyldunni nær og fjær innilegar samúðarkveðjur.

Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir.