María Elínborg Ingvadóttir fæddist í Hörg á Svalbarðseyri við Eyjafjörð 27. september 1946. Hún lést á heimili sínu í Kópavogi 10. desember 2022 eftir stutt veikindi.

Foreldrar Maríu voru Ingvi Júlíusson, starfsmaður Vegagerðarinnar, f. á Halllandsnesi á Svalbarðsströnd 6.10. 1923, d. 9.7. 1995, og Guðrún Jónsdóttir húsfreyja, f. í Brekku í Aðaldal 26.4. 1923, d. 16.1. 2008. Systkini Maríu eru Herdís, f. 1948; Jón Grétar, f. 1950, maki Hjördís Arnardóttir, d. 2021; Bjarni Rafn, f. 1953, maki Rósa Þuríður Þorsteinsdóttir; Áslaug Nanna, f. 1960, og Ingvi Júlíus, f. 1962, maki Arna Alfreðsdóttir.

Hinn 9. apríl 1966 giftist María Jónasi Gunnþóri Vilhjálmi Þórarinssyni, f. 26.2. 1944, d. 13.3. 1974, matreiðslumeistara og einum af stofnendum Bautans á Akureyri. Foreldrar hans voru Þórarinn Ólafur Vilhjálmsson, f. 6.8. 1904, d. 5.11. 1988, og Guðrún Jónasína Georgsdóttir, f. 26.7. 1908, d. 21.4. 1963, húsfreyja. Börn Maríu og Jónasar eru Guðrún, f. 21.2. 1967, leirlistamaður og Ingvi, f. 14.5. 1973, viðskiptafræðingur. Kona hans er Sigurrós Hallgrímsdóttir prentsmiður. Sonur hennar og stjúpsonur Ingva er Nökkvi Reyr, f. 1998. Börn Ingva og Sigurrósar eru Jónas Nói, f. 2006, Högni Hallgrímur, f. 2007, og María Elena, f. 2009.

María ólst upp á Akureyri og var í sveit á sumrin á Hörg, í Brekku og hjá frændfólki á Gautlöndum í Mývatnssveit. María lauk stúdentsprófi við MA og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá HÍ. Eftir nám starfaði María á hagdeild Verðlagsstofnunar, var deildarstjóri hagdeildar SÍS og starfaði hjá Útflutningsráði Íslands sem fjármálastjóri og forstöðumaður erlendra viðskipta og sem viðskiptafulltrúi við sendiráð Íslands í Moskvu. María var fjármálastjóri Reykjavíkur Menningarborgar, framkvæmdastjóri hjá Íslenska dansflokknum og ráðgjafi hjá Rekstrarverktaki. Hún átti og rak ráðgjafarfyrirtækið Beggja hag sem fór síðar inn í KPMG og starfaði hún þar uns hún lét af störfum og fór að sinna skógrækt af fullum krafti og ýmsum félagsstörfum ásamt því að hafa meiri tíma fyrir barnabörnin.

María starfaði frá árinu 1982 með Sjálfstæðisflokknum, var formaður ýmissa nefnda á vegum flokksins, var formaður Hvatar félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, sat í miðstjórn flokksins, var varaþingmaður tvö kjörtímabil og sat nokkur skipti á Alþingi. Nýlega fór hún í stjórn samtaka eldri sjálfstæðismanna. María sat í stjórn Neytendasamtakanna um árabil og einnig í stjórnum nokkurra fyrirtækja, m.a. Íslandsbanka. Hún skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit um stjórnmál og ýmis málefni.

María gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum skógræktarbænda, var formaður Félags skógareigenda á Suðurlandi, sat í stjórn Landssamtaka skógareigenda og stjórn Suðurlandsskóga ásamt þátttöku í ýmsu félagsstarfi. Árið 2000 keypti María jörð á Rangárvöllum sem hún nefndi Akurbrekku og hóf hún þar umfangsmikla skógrækt og byggði myndarlegan húsakost. Skógræktin og ræktun ýmissa plantna og rósa átti hug hennar allan og hún var ötul við að koma kunnáttu og ástríðu sinni áfram til barna og barnabarna.

Útför hennar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 21. desember 2022, klukkan 13.

Ein af merkilegri manneskjum sem ég hef kynnst er farin. Maja var mér svo miklu meira en bara tengdamóðir, hún var einn af mínum nánustu vinum líka. Við náðum vel saman á mörgum sviðum og gátum rökrætt og spáð í hin ýmsu mál, ekki alltaf sammála sem eðlilegt var en við bárum ætíð virðingu hvor fyrir annarri. Við höfðum sameiginlegan áhuga á myndlist og fórum á einstaka sýningar saman, þó ætluðum við okkur að verða mun duglegri við það í framtíðinni. Maja var svo fróð um margt og það var alltaf hægt að leita til hennar, sama hvort það var til yfirlestrar á texta, fá álit á teikningu, fá ráð eða bara til að fá gott spjall yfir kaffi, hún gaf sér alltaf allan tímann í heiminum.

Hún var alltaf til staðar fyrir fólkið sitt, hún var ættmóðirin – límið sem hélt öllu saman. Þrátt fyrir veikindin var Maja stórhuga og hugðist halda skemmuball í sveitinni sl. haust fyrir stórfjölskylduna en við sögðum henni að það yrði að fresta því til betri tíma. Hún var nú ekki alveg sammála okkur og viðurkenndi auðvitað aldrei þróttleysi sitt því þingeyska þrjóskan var jú líka eitt af hennar einkennum.

Það verður skrítið að hafa enga Þorláksmessuskötu í Víðihvamminum. Þrátt fyrir að ég borði nú ekki skötu þá var alltaf gaman að koma, hitta ættingja og vini og sjá Maju í essinu sínu, umkringda fólkinu sínu, alltaf jafn áhugasöm um hvað væri að gerast í þeirra lífi.

Þátt fyrir einstakan dugnað og elju í störfum og áhugamálum gaf Maja sér alltaf tíma í hlutverkið sem hún unni einna mest, ömmuhlutverkið. Barnabörnin fjögur voru henni allt og það var hún þeim líka. Þegar kom að starfslokum hjá henni sökum aldurs vaknaði hún samt snemma á hverjum virkum morgni, rölti yfir í Lindarhvamminn til að fylgja barnabörnunum í skólann, alveg sama hvort það var kafaldsbylur eða sól og stilla. Ég nefndi það einu sinni við hana að ég hefði samviskubit yfir þessu, hún ætti nú frekar að njóta þess að geta loksins sofið lengur og drukkið morgunbollann sinn heima í rólegheitunum. En nei, það kom aldrei til greina, hún sagði mér að þessar stundir, þessi stutti göngutúr á hverjum morgni, væru dýrmætustu stundirnar sem hún ætti því þá ræddu þau um allt milli himins og jarðar, þetta var þeirra stund. Það kom líka í ljós að hún vissi oft meira um daglegt líf barna okkar en við foreldrarnir. Þetta var svo lýsandi fyrir Maju ömmu, barnabörnin áttu alltaf hug hennar allan.

Nú er komið að erfiðri kveðjustund sem ekkert okkar var búið undir því plönin voru mörg og mikil en það er nú víst þannig að ekkert okkar veit fyrir víst hvenær kallið kemur. Við munum hlúa hvert að öðru í sorginni og yljum okkur við þá hugsun að nú ertu aftur komin í faðm Jónasar eftir langan aðskilnað. Minning þín mun ætíð lifa. Með miklum söknuði kveð ég þig, elsku Maja.

Þín tengdadóttir,

Sigurrós Hallgrímsdóttir.

Ótímabært fráfall vinkonu okkar og félaga, Maríu E. Ingvadóttur, er okkur öllum þungbært. Við vissum af veikindum hennar, sem hún sjálf var ákveðin í að vinna sigur á. En enginn má sköpum renna. Það var raunar Maríu líkt að standa á meðan stætt var enda veigurinn mikill í vilja og skapgerð. Hún var heilsteypt, traust og hörkudugleg. Þessum eðlisþáttum kynntumst við vel í sameiginlegum áhuga okkar á ræktun skóga. Þar var hún vissulega fremst meðal jafningja, óþreytandi, upplýst og framsýn. Stórhuga var hún einnig í öllu er viðkom skógrækt, nýlega búin að reisa vélaskemmu og kaupa dráttarvél. Skógræktin hennar í Akurbrekku ber vitni um ótrúlegan eldmóð og elju. Þessi smáa og knáa kona lyfti þar grettistaki.

Þrautseigja og þolinmæði eru mikilvægar dyggðir þegar fengist er við að klæða misjafnlega harðbýlt land skógi. María átti þetta allt í fórum sínum. Hún var mjög áhugasöm um stöðu skógræktar og hagsmuni skógarbænda og var formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi, FsS, árin 2010-2019. Hún stóð ásamt öðrum fyrir því að plöntuuppeldi legðist ekki af á Suðurlandi með stofnun gróðrarstöðvarinnar Kvistabæjar. Hún hafði framtíðarsýn og var mikið í mun að skógarbændur mynduðu samtök um vinnslu skógarafurða og markaðssetningu þeirra. Öll þau áform voru vel ígrunduð og jarðbundin.

Við undirrituð sátum í nokkur ár saman í stjórn FsS undir forystu Maríu. Stjórnarfundir voru haldnir á heimili hennar í Víðihvammi. Þeir voru vel undirbúnir og móttökurnar voru hlýjar. Til varð gagnkvæm vinátta, sem aldrei bar skugga á. María var glaðsinna, skemmtileg og frjó. Á síðustu árum höfum við, sem störfuðum með henni skipst á heimsóknum, skoðað ræktunarstarfið hvert hjá öðru og glaðst og lært af þeim samfundum. Nú söknum við vinar í stað og biðjum börnum hennar og niðjum blessunar um leið og við minnumst hennar með þökk og af virðingu.

Bjarnheiður, Hannes, Októ, Sigríður og Sigurður Karl.

Kær vinkona, María Elínborg Ingvadóttir skógarbóndi, er fallin frá óvænt, þótt hún hafi átt við veikindi að stríða um nokkurt skeið. María þessi sterka kona sem var um leið alltaf svo hlý, einlæg, drenglynd og umhyggjusöm.

María varð mjög ung ekkja á Akureyri þegar eiginmaður hennar Jónas Þórarinsson lést aðeins þrítugur að aldri. Eftir það áfall flutti hún með börnin sín, Guðrúnu og Ingva, til Reykjavíkur og lauk viðskiptafræðinámi við Háskóla Íslands. Hún gegndi fjölbreyttum störfum, m.a. hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, var fjármálastjóri hjá Útflutningsráði og síðar viðskiptafulltrúi ráðsins í Moskvu í nokkur ár. María var fjármálastjóri Reykjavíkur Menningarborgar, síðar framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins og rak svo lengi eigið bókhaldsfyrirtæki.

Skógræktarmálin áttu hug hennar og hjarta. Hún festi kaup á 200 hektara jörð árið 2000 sem hún nefndi Akurbrekku, reisti þar glæsileg hús og hóf nytjaskógrækt. Þar gróðursetti hún fleiri þúsund plöntur á hverju sumri. Lagði hún áherslumálum skógarbænda lið, var lengi formaður Félags skógareigenda á Suðurlandi, sat í stjórn Landssamtaka skógareigenda og Suðurlandsskóga. Skipaði hún sæti í stjórnum, m.a. Neytendasamtakanna og Íslandsbanka hf. María hafði einarðar skoðanir á mönnum og málefnum. Var um skeið formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, og varaþingmaður og sótti að venju Landsfund Sjálfstæðisflokksins í vetur þrátt fyrir veikindi sín.

Við áttum einstaka vináttu sem aldrei bar skugga á. Vorum bridgespilafélagar í rúm þrjátíu ár, en fjórði félagi okkar, Anna Kristjánsdóttir, féll frá fyrr á þessu ári. Við eigum eftir notalegar minningar um góða samveru og frjósamar samræður við þessar öndvegis konur, ekki síst pólitískar, því ekki vorum við allar sammála á þeim vettvangi. Heimili Maríu var menningarsetur með sterku svipmóti húsráðanda. Hún var mikill höfðingi heim að sækja á Seltjarnarnesinu, í Kópavoginum og á Akurbrekku. Moskvuheimsókn fyrir aldarmótin skipulagði hún ekki aðeins sem ógleymanlega menningarlega borgarferð. Við ferðuðumst alla leið niður til Jalta á Krímskaga og dvöldum þar í nokkra daga. Þannig var María, lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna.

María var glæsileg kona, virðuleg í fasi, skemmtileg og geislaði af innri styrk sem aldrei þraut. Hún hélt einstaklega vel utan um fjölskylduna sína. Innilegar samúðarkveðjur til Guðrúnar, Ingva, Sigurrósar, Nökkva Reyrs, Jónasar Nóa, Högna Hallgríms og Maríu Elenu. Söknuðurinn er sár og sjónarsviptirinn mikill. Minningarnar um mömmunwa og ömmuna góðu munu ylja þeim um ókomna tíð.

Ásdís J. Rafnar,

Ingveldur Fjeldsted.

Það var fyrir um 20 árum að ég kynntist Maríu, en hún hafði þá stofnað nýbýlið Akurbrekku. Áhugi stóð til að hefja skógrækt á jörðinni og gerður var samningur við Suðurlandsskóga árið 2003.

Hún var strax áhugasöm og drífandi í sinni skógrækt, við oft erfiðar aðstæður, þar sem kjöraðstæður voru ekki þær bestu í sendnum og oft þurrum jarðvegi. En María hafði sín markmið með skógræktinni á hreinu og fylgdi þeim, enda náði hún oft undraverðum árangri.

Þegar hún hóf skógrækt gekk hún í Félag skógarbænda á Suðurlandi, tók þar strax virkan þátt og var fljótlega kosin til forystu í félaginu.

Einnig sat hún í stjórn Landssamtaka skógareigenda um árabil. Hún lét sig málefni Suðurlandsskóga varða og sat í síðustu stjórn verkefnisins, eða þar til Suðurlandsskógar sameinuðust Skógrækt ríkisins árið 2016.

María var öflug og ákveðin í því sem hún tók að sér. Beitti sér m.a. fyrir öflugri trjáplöntuframleiðslu og hafði mikinn áhuga á afurðamálum skóga.

Sem framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga hafði ég mikil samskipti við Maríu og kynntist henni vel. Hún var ákveðin í sínum skoðunum, sem gat farið fyrir brjóstið á sumum, en þegar horft er til baka er full ástæða til að þakka hennar mikla framlag til þessarar ungu atvinnugreinar. Hún kom oft við á skrifstofunni á Selfossi þar sem málefnin voru rædd og vinabönd styrkt í gegnum árin. Margir skógareigendur eiga eftir að sakna hennar úr starfinu og það er því með trega sem við kveðjum hana í dag, en skógurinn hennar í Akurbrekku mun minna okkur á Maríu og öflugan stuðning hennar við skógrækt á Íslandi.

Skógarbændur á Suðurlandi votta aðstandendum Maríu samúð sína.

Björn B. Jónsson,

formaður Félags skógarbænda á Suðurlandi.

Við kveðjum þig með sára sorg í hjarta

söknuðurinn laugar tári kinn.

Dregur ský á dagsins ásýnd bjarta

dökkur skuggi fyllir huga minn.

Í miðjum leik var komið til þín kallið

klippt á strenginn þinn.

Eitt af vorsins fögru blómum fallið.

(Hákon Aðalsteinsson)

Kær vinkona er fallin frá. Það er sárt og óvænt. Hún var í baráttu sem allir vonuðu að fengi góðan endi. Við skólasysturnar að norðan höfum hlegið og glaðst saman yfir mat og drykk mörg undanfarin ár og rifjað upp æskuárin á Akureyri. Mæja naut sín vel sem gestgjafi í slíkri samveru, allt svo fallegt og gott hjá henni. Hún var alltaf svo geislandi glöð og kraftmikil. Hún gerðist skógarbóndi síðustu árin og hafði yndi af öllum ræktunarstörfum. Við gerðum ráð fyrir glaðværð og glensi áfram en stundin er runnin upp. Söknuður og tregi yfir þeim stundum sem ekki verða. Við kveðjum elsku Mæju okkar með þakklæti fyrir indælar stundir og sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Eyrarrósirnar,

Óla Kristín, Sigfríður (Fía), Ragnhildur, Rebekka og Valdís.

Í dag kveðjum við Maríu Elínborgu Ingvadóttur, fyrrverandi formann Hvatar. María starfaði lengi með Sjálfstæðisflokknum, eða allar götur frá árinu 1982. Hún var mjög virk í öllu starfi flokksins en auk þess að vera formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, var hún formaður ýmissa nefnda, sat í miðstjórn flokksins og einnig sem varaþingmaður.

Það er með Maríu eins og svo margar sjálfstæðiskonur hennar kynslóðar að þær ruddu veginn fyrir okkur sem yngri erum. Það tíðkaðist ekki þá að margar konur væru kjörnir fulltrúar, ein og ein í sveitarstjórnum og þingflokkum, en það er meðal annars þeirra baráttu og eljusemi sem við getum þakkað að blessunarlega er staðan breytt í dag.

Við sjálfstæðiskonur viljum þakka Maríu kærlega fyrir hennar störf í þágu Sjálfstæðisflokksins og ekki síst í þágu jafnréttis.

Við sendum fjölskyldu Maríu og ástvinum hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Nanna Kristín Tryggvadóttir,

formaður Landssambands

Sjálfstæðiskvenna,

Andrea Sigurðardóttir,

formaður Hvatar.

Lífið getur verið hverfult, hugsjónakonan og náttúruunnandinn, María E. Ingvadóttir, hefur yfirgefið þessa jarðvist. Í dag kveðjum við trausta og yndislega samferðarkonu.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir,

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Ben.)

Ríkidæmi Maju fólst í afkomendum hennar, sem hún var stolt af.

Skógræktin og náttúran heilluðu hana og var hún stolt af því að vera skógarbóndi.

Maja var félagslynd og hafði skýrar skoðanir á mönnum og málefnum. Við í stjórn Samtaka eldri sjálfstæðismanna fögnuðum því þegar þessi sterka og trausta kona gekk til liðs við okkur sl. haust og fengum að njóta þekkingar hennar og reynslu.

Við minnumst hennar með hlýju og þakklæti og biðjum algóðan Guð að blessa minningu hennar.

Veitum þínum vildargróðri

vaxtarkraft í skógarrjóðri,

andann lát þú hefjast hátt.

Lát þitt orð á kyrrum kvöldum

kenna speki í vorum tjöldum.

Dvel þú hjá oss dag og nótt.

(Friðrik Friðriksson)

Við vottum börnum, barnabörnum, tengdadóttur og fjölskyldu Maríu E. Ingvadóttur innilegrar samúðar.

F.h. stjórnar Samtaka eldri sjálfstæðismanna,

Björg Þórðardóttir.